29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

86. mál, iðnaðarstefna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa gert tilraun til að svara ýmsum fsp. sem komu fram í mínu máli þegar ég m.a. gerði grein fyrir brtt. sem birtast á þskj. 187. Um þetta mál urðu á sínum tíma, þ.e. talsvert fyrir jól, miklar umræður, og inn í þær umræður blandaðist álit hæstv. iðnrh. á stöðunni í stóriðjumálum sem hann vék ekki að núna sem eðlilegt er. Auk þess var fjallað um nokkur atriði sem snerta iðnaðinn og hann kaus ekki heldur að koma inn á í þessari síðustu ræðu sinni.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að nýbyggingargjaldið hefur verið fellt niður, og að það skuli vera í till. okkar á sér þá skýringu, að hún var komin fram löngu fyrir áramót, en nýbyggingargjaldið var ekki fellt út fyrr en stuttu fyrir jól.

Í 13. tölul. fyrri hluta efnahagsáætlunar ríkisstj., sem þjóðinni var boðuð á gamlársdag, segir svo, með leyfi forseta:

„Hraðað verði samanburði á starfsskilyrðum höfuðatvinnuveganna og þau samræmd. Tryggt verði að starfsskilyrði iðnaðar verði ekki lakari en annarra atvinnugreina,“ o.s.frv., en ég held ekki lengur áfram tilvitnun í þennan 13. tölulið.

Ýmsum kann að þykja, þegar þetta er lesið, að hér sé á ferðinni eitthvað nýtt, eitthvað sem hæstv. ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir nú á því herrans ári 1981, eitthvað sem ekki hafi komið til mála að unnið væri að áður. Það má vel vera að svo sé. En eftir að hafa hlýtt á hæstv. ráðh. held ég að óhætt sé að skilja þennan 13. tölulið svo, að þar sé átt við störf þeirrar nefndar sem nú vinnur að þessari úttekt og hæstv. ríkisstj. hefur skipað til þess arna. Og sé það rétt til getið er fullkomin ástæða til að taka undir það sem kemur fram í efnahagsáætluninni, þar sem segir að þessu skuli hraðað. Ástæðan er einfaldlega sú, að hinn 30. mars á s.l. ári, aðeins rúmum mánuði eftir að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, var samþykkt í hæstv. ríkisstj. till. sem flutt var þar af hæstv. iðnrh., þeim hinum sama sem talaði hér áðan, um að sett yrði á stofn nefnd til að vinna að þessu máli. Í till. hæstv. iðnrh. kemur fram að nefndin eigi að gera athugun á lækkun á sölugjöldum á fjárfestingarvörum og hjálpartækjum með tilliti til jöfnunar og samkeppnisaðstöðu og aukinnar framleiðni svo og breytingu á stimpilgjöldum. Ýmislegt fleira kemur fram í þessari till. sem bendir til þess að það hafi verið ætlun flm., hæstv. iðnrh., að þetta starf væri unnið með tilliti til þess, að aðlögunargjald fyrir iðnaðinn yrði lagt niður við lok síðasta árs. Þess vegna segir skýrum stöfum í till. hæstv. iðnrh., sem hann gerði í ríkisstj. 30. mars, að ætlunin sé að nefndin skili áliti tiltölulega snemma, og með leyfi hæstv, forseta vil ég vitna orðrétt til þessarar tillögu. Þar segir:

„Skipuð verði nefnd til að vinna að þessu máli og verði við það miðað, að hún skili áliti fyrir 1. júlí n.k.“ — ég endurtek innan sviga (fyrir 1. júlí n.k. þýðir 1. júlí á s.l. ári) og hefst þá tilvitnun aftur: „Í nefndinni verði m.a. fulltrúar frá hagsmunasamtökum í viðkomandi atvinnuvegum.“

Það, sem gerðist næst í þessu máli, var ekki að þessi nefnd skilaði áliti 1. júlí — einfaldlega vegna þess að hún var ekki skipuð fyrr en 9. sept. Sá hraði var á þessu starfi hæstv. ríkisstj. að málinu, sem átti að hraða, málinu, sem átti að vera tilbúið til ríkisstj. 1. júlí, var hraðað með því offorsi að hinn 9. sept. var nefndin skipuð, sú nefnd sem maður getur ekki séð annað en hafi átt að skila tillögum um það, hvernig bregðast ætti við þegar aðlögunartímabilinu lyki.

Um þetta var gerð fsp. hér á hv. Alþingi fyrir jól til hæstv. forsrh., en hann skipaði þessa nefnd. Í svari hæstv. forsrh. kom fram að gert væri ráð fyrir því, að nefndin gæti skilað áliti innan tiltölulega skamms tíma. Áramótin komu, engin niðurstaða frá nefndinni. Og það sem er kannske sárgrætilegast af öllu saman, að þegar felld voru niður þau gjöld sem kalla mætti verndargjöld, þá efndi ríkisstj., í stað þess að lækka skatta, til nýrrar skattheimtu sem fræg hefur orðið að endemum hér á hv. Alþingi. Út í það ætla ég ekki fara, en það sýnir betur en flest annað hvar á vegi hæstv. ríkisstj. er stödd þegar fjallað er um málefni atvinnuveganna, að meiri áhersla er lögð á það að leggja gjöld á einstakar atvinnugreinar til þess að standa undir eyðslu ríkissjóðs heldur en að líta á þau gjöld sem tæki til þess að skapa skilyrði fyrir þróun atvinnugreinanna. Þetta er sú sorgarsaga sem blasir við þegar stefna og störf þessarar hæstv. ríkisstj. eru skoðuð.

Nú gætu einhverjir haldið að hæstv. ríkisstj. hefði breytt um stefnu, þegar þess er gætt, að í efnahagsaðgerðum ríkisstj. er það boðað að fresta skuli opinberum framkvæmdum til þess á ná tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar. En sagan er öll önnur, því að í Ríkisútvarpinu sagði hæstv. fjmrh. á þá leið, að það væri alls ekki víst að nota ætti þessa heimild á þessu ári, en það kæmi samt sem áður til greina að hún yrði notuð, ef þörf krefði, á síðari hluta ársins. Sem sagt, forseti íslensku þjóðarinnar er látinn skrifa undir brbl. þess efnis, að brýna nauðsyn beri til að ríkisstj. fái heimild til þess hugsanlega og kannske að fresta opinberum framkvæmdum, ef þörf krefur, síðari hluta ársins. Svona kafli ætti að birtast í íslenskri fyndni, ég segi ekki meira, ekki síst vegna þess að í fjárlögum — sem ég býst við að sumir meðlimir hæstv. ríkisstj. hafi lesið — er heimild fyrir hæstv, ríkisstj. og meira að segja fyrir ráðh. sjálfan til að skera ríkisútgjöld niður um 3 milljarða gamalla kr., og þá er talað um niðurskurð, en ekki frestun opinberra framkvæmda. Ég leyfi mér, herra forseti, að minna á þetta vegna þess að í þessum orðum felst m.a. lýsing á því, hver raunveruleg stefna hæstv. ríkisstj. er gagnvart atvinnuvegunum.

Mig langar samt af þessu tilefni — vegna þess að ég veit að hæstv. iðnrh. er velviljaður, a.m.k. í orði kveðnu, í garð iðnaðarins og ég veit að þar fylgir hugur máli — spyrja hann að því, hvort hann geti upplýst þingheim um það, hvernig störfum þessarar ágætu nefndar hefur verið farið að undanförnu og hvenær búast megi við að hún skili niðurstöðum. Ég tek það fram, að ég fagna þessum 13 tölulið í fyrri hluta efnahagsaðgerðanna eða áætlunarinnar, en mér finnst ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh. um þetta atriði.

Í lok ræðu minnar, sem ég flutti þegar ég gerði grein fyrir tillögum okkar þm. sjálfstæðismanna, minntist ég á nefnd sem send hafði verið til Spánar á s.l. ári til að taka þar þátt í ráðstefnu um stefnumótun í iðnaðarmálum næsta áratuginn á vegum Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Í lýsingu þessarar nefndar á því, sem fram fór á þeirri ráðstefnu, koma fram margvísleg atriði sem ég veit að íslensk stjórnvöld gætu lært heilmikið af. Þar kemur fram að almennt hafi menn á þessari ráðstefnu verið sammála um hver væru undirstöðuatriði jákvæðrar og árangursvænlegrar iðnaðarstefnu. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, hvort hann hygðist gera þessi viðhorf að fyrirmynd að sinni stefnu, því að í þeim koma skýrt og greinilega fram sams konar viðhorf og koma fram í iðnaðarályktun Sjálfstfl. Þar er mikið lagt upp úr fríverslun og frjálsu framtaki. Og það er þess vegna sem mín spurning var fram komin. Til þess að koma í veg fyrir þann misskilning, að á ferðinni hafi verið eintómir harðlínusjálfstæðismenn, skal það tekið fram, að í þessari sendinefnd voru fulltrúi iðnrn., Jafet S. Ólafsson, framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs, Vilhjálmur Lúðvíksson aðstoðarmaður forsrh., Þórður Friðjónsson, og sá sem var aðstoðarmaður forsrh. þegar hann var iðnrh., Þorvarður Alfonsson, allt valinkunnir menn, ágætismenn, sem hafa glöggt auga fyrir stefnumótun í iðnaði, hafa gott skyn á hvaða atriði það eru sem skipta máli ef við ætlum að móta stefnu sem leiði til árangurs.

Hæstv. iðnrh. kemur í ræðustól á Alþingi og segir ekki eitt einasta orð af þessu tilefni. Ég þarf ekkert að biðja hann um að koma hér upp og svara þessu, en ég bið hann samt um að lesa þessa skýrslu vel og láta það, sem þar kemur fram, hafa áhrif á þá stefnumótun sem fram fer í iðnrn. Og ég vonast til þess, að þessi skýrsla sé ekki falin í neðstu röð, í ysta bunka á bak við hurðina í einhverju herbergi iðnrn. En ef svo er, þá ætti hæstv. ráðh. að gera gangskör að því að setja starfshóp í það að leita að skýrslunni.