29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1980 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

86. mál, iðnaðarstefna

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil mjög eindregið taka undir aðvörunarorð síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, 12. þm. Reykv., varðandi nauðsyn þess, að íslensk stjórnvöld fylgist mjög náið með þeim aðgerðum sem stjórnvöld í öðrum löndum, viðskiptalöndum okkar, hafa beitt til stuðnings atvinnuvegum í löndum sínum! Slíkar stuðningsaðgerðir: styrkir, millifærslur, uppbætur, eru auðvitað, að ég tali ekki um verndartolla skýrt brot á fríverslunarsamningum þeim sem við Íslendingar og okkar viðskiptaþjóðir eru aðilar að, hvort heldur um er að ræða lönd innan Efnahagsbandalags Evrópu eða Fríverslunarbandalagsins, EFTA.

Fyrir forgöngu Félags ísl. iðnrekenda og einkum formanns þess, Davíðs Scheving Thorsteinsson, hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að EFTA safnaði skýrslum um slíkar stuðningsaðgerðir í EFTA-löndum. Og þótt þar séu ekki öll kurl til grafar komin, þá er ljóst að um slíkar stuðningsaðgerðir: styrki, uppbætur og annað því um líkt, er að ræða sem tálma frjálsri verslun og hagkvæmustu verkaskiptingu þjóða á milli. Ég vil því mjög eindregið leggja áherslu á að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í því, ásamt með frjálsum félagssamtökum eins og Félagi ísl. iðnrekenda, að koma í veg fyrir að viðskiptaþjóðir okkar beiti slíkum aðgerðum. Það er því nauðsynlegra sem við Íslendingar höfum talið okkur skylt að taka tillit til viðskiptalanda okkar í okkar aðgerður. Nefni ég þar aðeins mál eins og aðlögunargjaldið sem fellt var niður um síðustu áramót einmitt vegna þess að önnur lönd innan EFTA-samtakanna mótmæltu að það yrði áfram í gildi eftir því sem okkur var tjáð. Því höfum við þá einu leið færa að beita áhrifum okkar innan þessara fríverslunarsamtaka til þess að önnur lönd beiti ekki óréttmætum aðferðum til að koma í veg fyrir að markaður fáist fyrir iðnaðarvörur okkar. Þetta er höfuðskilyrði þess að um heilbrigða iðnþróun geti verið að ræða hér á landi, sem ég býst við að við séum sammála um að brýna nauðsyn beri til ef tryggja á atvinnuöryggi landsmanna.

En svo nauðsynlegt sem þetta er og sjálfsagt hvað snertir iðnþróun, þá er ekki síður nauðsynlegt að ekki sé beitt slíkum óréttmætum viðskiptaháttum í öðrum viðskiptalöndum okkar gagnvart t.d. sjávarútvegi. En á því bryddir óneitanlega t.d. í Noregi, þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla njóta mjög víðtækra stuðningsaðgerða stjórnvalda, að vísu þar í skjóli svokallaðrar byggðastefnu. En áhrif þessara aðgerða gagnvart okkar sjávarútvegi eru hin sömu þótt sú afsökun sé viðhöfð af Norðmanna hálfu.

Ég gladdist sem sagt yfir því, að hæst.v. iðnrh. taldi að viðskiptalönd okkar sæju nú berlega að styrkir, uppbætur, millifærslur og annað gervikerfi í iðnaði þeirra væri ekki vænlegt til að leysa vandamálin eða treysta atvinnu eða atvinnuvegi í viðskiptalöndum okkar hvað iðnaðinn snertir. En því athyglisverðara er að hæstv. iðnrh. skuli ekki draga þá eðlilegu ályktun af því, ef þessar aðgerðir duga ekki í iðnaði viðskiptalanda okkar til að tryggja atvinnuuppbyggingu þar, að útilokað er að slíkt kerfi sé tekið upp í aðatatvinnuvegi okkar Íslendinga, sjávarútveginum. En birt hefur verið efnahagsáætlun ríkisstj. það sem einmitt er farið inn á þessa braut, braut millifærslu, styrkja og uppbótakerfis hvað snertir höfuðatvinnuveg okkar, sjávarútveginn. Það er hugsanlegt að unnt sé að beita þessum aðferðum tímabundið við atvinnuvegi okkar aðra en sjávarútveginn, sem hafa minna gildi í heildinni en hann. En það er algerlega útilokað að ætla sér að byggja sjávarútveginn sem aðalatvinnuveg landsmanna á slíku styrkja-, uppbóta- og millifærslukerfi. Ég vil þess vegna benda hæstv. iðnrh. — og raunar öðrum viðstöddum ráðh. — á það að taka til greina reynslu nágrannalanda okkar, þá reynslu sem hæstv. iðnrh. greindi svo skilmerkilega frá og kvaðst vera í raun og veru sammála ráðamönnum nágrannalanda okkar um, að millfærslur dygðu ekki til atvinnuuppbyggingar. Úr því að svo er, þá er það aðvörun til íslenskra ráðamanna um að fara ekki inn á þá sömu braut, hvort heldur snertir aðalatvinnuveg okkar eða aðra atvinnuvegi sem eru vaxtarbroddar atvinnuuppbyggingar í landinu, eins og iðnaðurinn hlýtur að vera.

Þá vildi ég, áður en ég lýk máli mínu, aðeins taka það fram, að hæstv. iðnrh. sagði að það væri ekki líklegt að einkaframtak fengi miklu áorkað vegna þess að hér væri ekki um fjárráð einstaklinga að ræða sem væru nægileg til þess að standa að því átaki sem nauðsynlegt væri í iðnaðaruppbyggingu. Það má til sanns vegar færa, þessi orð hæstv. iðnrh. En það er auðvelt að bæta úr þessu með því að draga úr skattheimtu á einstaklinga og atvinnufyrirtæki. Það er ekki að ófyrirsynju að núv. ríkisstj. hefur farið þveröfuga leið. Hún hefur farið leið aukinnar skattheimtu, þannig að nú er erfiðara að safna fjármagni til iðnaðaruppbyggingar á Íslandi en oftast áður. Og þarna skilur á milli stefnu Sjálfstfl. annars vegar og stefnu Alþb. hins vegar. Alþb. hefur það á stefnuskrá sinni að atvinnureksturinn sé í raun best kominn í höndum hins opinbera. Afleiðingin er sú, að Alþb. skattleggur atvinnuvegina, atvinnufyrirtæki og einstaklinga, svo að einstaklingar hafa engin fjárráð og atvinnufyrirtækin takmörkuð fjárráð — ef nokkur — til uppbyggingar og framtíðarþróunar. Hér er um ranga stefnu að ræða skv. skoðun okkar sjálfstæðismanna. Við teljum að heilbrigð iðnþróun verði ekki hér á landi nema ríkisvaldið virði rétt einstaklinga og atvinnufyrirtækja til fjármagnsmyndunar er sé uppstaða atvinnuuppbyggingarinnar.

Það er hægt að semja tiltölulega fagrar áætlanir við skrifborð í stjórnarráði. En ég hygg að þar verði ekki um frumlega hluti að ræða, ekki það framtak og ekki það hugvit sem býr meðal dreifðra einstaklinga sem lifa og starfa við mismunandi skilyrði í þjóðfélaginu. Vaxtarbroddurinn hlýtur að vera þar, hjá einstaklingunum sjálfum, og reynslan hefur raunar kennt okkur þessi sannindi fyrir löngu.

Ég tel ekki ástæðu að lengja þessar umræður að sinni, en ítreka og endurtek það, að ég vona að sá lærdómur, sem hæstv. iðnrh. dró af reynslu Norðmanna í nýlegri ferð sinni til Noregs, og sá lærdómur, sem hann hefur dregið af reynslu annarra viðskiptalanda okkar, eins og t.d. Svíþjóðar, af styrktar-, uppbóta- og millifærslukerfi, verði honum víti til varnaðar svo að ekki verði nú hér á landi lagt inn á slíka braut hvað snertir sjávarútveg eða aðra atvinnuvegi landsmanna, eins og iðnað. Það væri banahögg á iðnþróun og atvinnuþróun á Íslandi.