29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

63. mál, fjarskiptaþjónusta á Gufuskálum

Flm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Á þskj. 68 flytjum við, ég og hv. 1. landsk. þm., Pétur Sigurðsson, svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að feta ríkisstj. að beita sér fyrir því, að Landssími Íslands komi upp og starfræki strandstöð á Gufuskálum eða á öðrum stað á Snæfellsnesi, sem tryggi alhliða fjarskiptaþjónustu fyrir hafsvæðið frá sunnanverðum Vestfjörðum um djúpmið Breiðafjarðar suður fyrir Snæfellsnes.“

Í des. s.l. var málefni þessarar till. til umr. hér í Sþ. vegna fsp. hv. 1. þm. Vestf. til sjútvrh. um hvað liði framkvæmd laga um tilkynningarskyldu íslenskra fiskiskipa. Upplýsingar Landssímans, sem fram komu í svari hæstv. sjútvrh. við nefndri fsp., voru ekki á þann veg, því miður, að samþykkt þessarar till. sé ekki nú jafnnauðsynleg og við töldum vera fyrir tæpu ári er við lögðum hana fyrst fram hér á hv. Alþingi.

Í maí 1968 voru sett lög um tilkynningarskyldum íslenskra skipa og reglugerð um framkvæmd þeirra laga. Þau lög, sem gilda um tilkynningarskylduna nú eru 9 árum yngri eða frá því í maí 1977. Í þeim lögum segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „skipum á þeim hafsvæðum hér við land, sem búa við mjög slæm móttökuskilyrði, verði bætt aðstaðan með uppsetningu nýrra strandstöðva.“

Þótt nú séu liðin senn 13 ár frá fyrstu lagasetningu um tilkynningarskyldu íslenskra fiskiskipa eru enn hafsvæði við landið þar sem erfitt reynist að sinna þessari skyldu og þó sérstaklega á þeirri tíðni sem nú er talið æskilegt að nota, þ.e. VHF eða metrabylgjunni svokölluðu. Það verður jafnan fyrst fyrir að ræða þennan þátt öryggisþjónustunnar þegar fjarskiptaþjónusta Landssímans er rædd. Það er þó alls ekki til þess að gera lítið úr þeirri miklu og góðu þjónustu sem veitt er af hendi Landssímans með fjarskiptum til skipa við strendur landsins. Fjarskiptasamband milli skipa og frá skipum til strandstöðva er einn aðalþátturinn við það að gæta öryggis sæfarenda. Með fjarskiptum er einnig haldið uppi sambandi milli ættingja og vina, útgerðar- og viðskiptamanna í landi og þeirra sem á sjónum eru.

Þessi starfsemi byggist á því, að strandstöðvar Landssímans hafi móttöku og svörunarhæfni á öllu hafsvæðinu við landið. En svo er ekki enn. Sérstaklega á þetta við um metrabylgjukerfið, sem ég nefndi áðan, en sífellt fleiri skip hafa tekið upp viðskipti á þeirri bylgju í stað millibylgju. Forráðamenn slysavarna telja þetta rétta þróun og að stefna beri að því, að skip og bátar, sem eru hér við landið, noti metrabylgjukerfið í stað millibylgjunnar. Þau svæði, sem hafa ekkert eða lélegt metrabylgjusamband, eru Húnaflói, hafsvæðið milli Nes- og Hornafjarðarradíós, Norðurland vestra frá Almenningi að Horni, þ.e. Skagafjörður og Húnaflói, svo og djúpmið Breiðafjarðar og sunnanverðir Vestfirðir. Um svæðið frá sunnanverðum Vestfjörðum um djúpmið Breiðafjarðar er það að segja, að móttökuskilyrðin eru það vond að hin lögbundna tilkynningarskylda hefur meira og minna fallið niður. Loðnunefnd hefur gengið illa að hafa samband við sín viðskipta- og veiðiskip á þessu svæði. Þetta svæði er ein fjölfarnasta skipaleið og veiðisvæði við strendur Íslands. Það verður varla við það unað, að skip á þessu svæði geti ekki — með þeirri fjarskiptatækni sem nú er best talin hæfa — sinnt lagalegri tilkynningarskyldu sinni né heldur haft eðlilegt þjónustusamband við land. Uppsetning og rekstur strandstöðva Landssímans fyrir þetta svæði er því öryggismál sem eðlis málsins vegna þarf ekki að fjölyrða um.

Á Gufuskálum á Snæfellsnesi hefur Landssími Íslands yfir að ráða aðstöðu sem gerir auðvelt að koma upp slíkri strandstöð nú þegar. Þar er fyrir hendi íbúðarhúsnæði fyrir starfsmenn og aðrar aðstæður ættu að gera auðvelt að starfrækja þar strandstöð, m.a. rafmagnsframleiðsla með vélum sem tryggir starfsemi óháða rafmagni fluttu eftir óöruggum flutningslínum.

Í umr. þeim, sem ég minntist á áðan, um fsp. hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, kom fram í svari ráðh. að Landssíminn teldi að búið væri að leysa þau fjarskiptavandamál, sem ég hef hér bent á, með uppsetningu fjarstýrðra fjarskiptastöðva: fyrir austursvæðið með stöðu á Hafnarnesi, fyrir Húnaflóa og Skagafjörð með stöð á Skaga og fyrir Vestfirði og Breiðafjörð með stöð á Kleifaheiði. Allar þessar stöðvar eru góðra gjalda verðar, það er fengur að þeim, en ég er hræddur um að þær leysi ekki til fullnustu þau mál, sem ég hef rætt um, a.m.k. ekki stöðin á Kleifaheiði gagnvart vestursvæðinu. Sjálfsagt er enn eftir að betrumbæta þá stöð, en af þeirri reynslu, sem skipstjórar, sem ég hef rætt við, á bátum, sem nú róa frá Breiðafjarðarhöfnum, — hafa haft af stöðinni, verður ekki ráðið að enn sé um neina lausn að ræða í sambandi við betra fjarskiptasamband en áður var og ég hef lýst. Það er vitað að sú stefna er uppi að leggja niður vakt við sumar af strandstöðvum Landssímans, svo og leysa strandþjónustu annarra svæða með byggingu fjarstýrðra stöðva. Að mínu mati er sú stefna röng, a.m.k. í sumum tilfellum. Nauðsynlegt er að starfræktar verði strandstöðvar með stöðugri vakt, svo sem verið hefur, á nokkrum stöðum á landinu. Ein slík stöð þarf að vera við Breiðafjörð.

Það má sjálfsagt segja mörg orð um kosti og galla fjarstýrðra stöðva. Mér finnst þó aðallega bera á göllunum, enda eru þeir stórir svo sem þeir koma mér fyrir sjónir. Öryggisþjónustan gegnum fjarstýrða stöð frá Ísafirði eða Reykjavík, sem staðsett er á Kleifaheiði, yrði trúlega mjög léleg fyrir Breiðafjarðarsvæðið. Bilanatíðni slíkrar stöðvar við verstu aðstæður í vondum veðrum og náttúruhamförum hlyti að verða mjög há. Það má skjóta því hér inn í, að á tímabilinu frá því á annan í jólum og fram um 6.–7. jan. hefði þessi stöð verið gagnslaus fyrir norðanverðan Breiðafjörð vegna þess að símasambandið, sem hefði átt að flytja viðskipti frá stöðinni gegnum stöðina hér í Reykjavík, var ekki fyrir hendi. Fjarstýrileiðin er það löng og það kallar á svo margar bilanahættur að vafasamt er að byggja öryggisþjónustu við jafnstórt hafsvæði upp á slíkri stöð. Einnig má benda á þá hættu sem felst í of miklu álagi á afgreiðslustöðvar. Við vissar aðstæður getur verið hætta á því, að þar verði allt of mikið að gera ef stór svæði eru tengd við fjarstýringu til einnar afgreiðslustöðvar. Þá má einnig benda á þann ókost sem er samfara því að afgreiðslustöð er fjarri viðskiptasvæði. Við það tapast kunnugleiki afgreiðslufólks á staðháttum og viðskiptamönnum. Kunnugleiki og þekking á umhverfi er mjög mikils virði fyrir báða aðila í þessari þjónustu.

Mér er kunnugt um að sjómenn við Breiðafjörð og Vestfirði telja þá leið, sem hér er lagt til að farin verði, heppilega og nauðsynlega. Samtök slysavarna styðja hana eindregið, nýafstaðinn fundur Landssambands ísl. útvegsmanna lýsti yfir stuðningi við till. Ég vænti einnig stuðnings hv. alþm. við þessa tillögu.

Ég legg til að að lokinni umr. verði till. vísað til atvmn. Magnús H. Magnússon: Herra forseti. Ég er algerlega sammála hv. flm. þessarar þáltill. um nauðsyn skjótra úrbóta í fjarskiptamálum þessa svæðis. Hins vegar tel ég þá leið, sem þáltill. gerir ráð fyrir, að setja upp nýja strandstöð á Gufuskálum, allt of dýra. Í rekstri kæmi hún til með að kosta um 80–90 millj. gamalla kr. á ári, án þess að skila nokkrum umtalsverðum tekjum á móti. Og þó að strandstöð yrði sett upp á Gufuskálum yrði eftir sem áður að fjarstýra viðtækjum a.m.k. og einhverju af sendum, því að hlustunarskilyrði á Gufuskálum sjálfum eru líklega einhver þau allra verstu á öllu landinu vegna truflana frá gífurlega sterkum sendi lóranstöðvarinnar þar. Ef fjarstýra þarf viðtækjum og sendum á þessu svæði hvort eð er, þá er svo til alveg jafnauðvelt að gera það frá loftskeytastöðinni í Reykjavík án verulegs aukatilkostnaðar í rekstri. Auðvitað, eins og fram kom hjá hv. flm., geta orðið bilanir, en það geta líka komið bilanir innan svæða, þannig að það er erfitt að tryggja sig gegn því nema þá að hafa fleiri varasambönd á þeim leiðum, þ.e. á aðalleiðunum frá Reykjavík til Snæfellsness.

Það er líka rétt hjá hv. flm., að höfuðkosturinn við sérstaka stöð er staðþekking eða kunnugleiki á staðnum sem menn mundu fá eftir langdvalir þar. Til að byrja með yrðu þó allir mennirnir ókunnugir á Gufuskálum, og á þessum stöðvum eru tíð mannaskipti þannig að það er ekki heldur einhlítt að það breyti svo miklu hvort um er að ræða fjarstýringu frá Gufuskálum eða frá Reykjavíkurradíói.

Það, sem gera þarf bæði á þessu svæði og ýmsum öðrum sem hv. flm. gat um, er að koma upp nægilega mörgum viðtækjum og sendum á metrabylgjusviðinu til að ná til allra stranda landsins og grunnmiða allt í kringum landið og fjarstýra þeim frá þeim loftskeytastöðvum sem nú eru starfandi. Hitt er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. flm., að þessar framkvæmdir hafa gengið allt of hægt, þær hafa tekið allt of langan tíma. Það er unnið að þessu allt í kringum landið meira og minna, en þetta gengur allt of hægt. Ég er algerlega sammála því. Menn hafa að vísu millibylgjustöðvar líka, en reyndin er sú, að menn vilja hitt heldur. Það er þægilegra á ýmsan hátt. Ég er síður en svo að mæla á móti því, að þarna þurfi hraðar aðgerðir.

En það er erfitt að krefjast aukinnar hagkvæmni í rekstri Pósts og síma og hlutfallslegrar lækkunar gjaldskrár samtímis því að skylda stofnunina til að bæta stórlega við sig óarðbærum kvöðum sem hægt er að sinna annars staðar frá með svo til jafngóðu móti. Þessar kvaðir kemur hinn almenni símnotandi auðvitað til með að greiða.

Herra forseti. Ég vil láta leysa þau vandamál, sem hér er vissulega um að ræða, og leysa þau fljótt, en gera það með litlum tilkostnaði miðað við þá lausn sem þáltill. gerir ráð fyrir.