29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1991 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

63. mál, fjarskiptaþjónusta á Gufuskálum

Flm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þessi till. mín hefur fengið hér hjá hv. þm., þó að ég svolítið undrandi yfir vissum aths. sem komu fram hjá hv. 4. þm. Suðurl. og 5. þm. Vesturl. En þrátt fyrir það lýstu þeir yfir stuðningi við till. og ég þakka það.

Það er þá í fyrsta lagi um það, að sá kostnaður, sem hv. 4. þm. Suðurl. talaði um að mundi verða við að koma þessari strandstöð upp á Gufuskálum, sem hann nefndi 80–90 millj. kr. — (Gripið fram í: Ég sagði árlegur rekstur.) Árlegur rekstur, já. Ég dreg það í efa miðað við að gera þetta eftir þeirri hugmynd sem ég hef í huga, að tengja þetta við hina ágætu NATO-stöð sem rekin er á Gufuskátum og allur íslenski fiskiflotinn hefur nýtt og nýtir — og ekki aðeins íslenski fiskiflotinn, heldur sjálfsagt flotar annarra þjóða sem hér er í kring — og við höfum viðurkennt sem staðreynd í okkar landi. Mér dettur ekki í hug að bera á móti þeirri staðreynd, að það sé lóranstöð á vegum NATO, rekin af Íslendingum, á Gufuskálum. En við eigum að nýta þá stöð fyrst við höfum viðurkennt það og samþykkt að hún skuli þar vera. Æskilegra hefði reyndar verið að þessi stöð væri rekin að öllu leyti á okkar vegum, en hlutirnir eru á hinn veginn og við það búum við.

Ég tel að sú aðstaða, sem á Gufuskálum er, þurfi ekki að kalla á miklar aukaframkvæmdir frá símanum. Þegar er þar ákveðinn þáttur af þessum útbúnaði, þ.e. millibylgjustöð. Það var ekki verið að bera því við, að hlustunarskilyrði væru vond, þegar sú millibylgjuendurvarpsstöð var sett niður á Gufuskálum til þess að sinna tilkynningarskyldu við bátaflotann við Breiðafjörð, eða réttara sagt til þess að gera tilraun til að sinna tilkynningarskyldu við bátaflotann við Breiðafjörð. Sú endurvarpsstöð er á Gufuskálum. Ég vil aftur á móti segja smásögu af þeirri stöð sem skeði nú um áramótin og sýnir kannske að það vantar vissa stjórnunarhæfni í þá ágætu stofnun sem heitir Landssími Íslands.

Um áramótin tók ein stjórnhönd Landssímans úr sambandi radíósamband við Snæfellsnes, taldi að sú þjónusta, sem búið er að byggja upp í gegnum stöðvar á innanverðu Snæfellsnesi, við Kothraun í Helgafellssveit og Akurtraðir í Eyrarsveit, ætti að nægja til að sinna símaþjónustu við Snæfellsnes. Skömmu seinna uppgötvaðist það, að þessi endurvarpsstöð, sem sett var upp á Gufuskálum, var biluð. Og það liðu 10 dagar þar til þessi ágæta stofnun hafði áttað sig á því, af hverju þessi bilun stafaði. Stjórnunarhæfni innan stofnunarinnar var ekki meiri en það, að hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri gerði. Meðan sú vinstri tók úr sambandi hafði sú hægri ekki hugmynd um að verið væri að taka úr sambandi lífsnauðsynlega skylduþjónustu við íslenska flotann.

Ég skaut þessu bara hér inn í, en það, að þessi stöð var sett upp á Gufuskálum, bendir þó til þess, að tæknimenn Landssímans telji ekki svo mikla truflun af lóranstöðinni á ákveðnum bylgjusviðum að ekki sé hægt að hafa þessa aðstöðu á Gufuskálum. Og ég tel þá fullyrðingu hv. 4. þm. Suðurl. ranga, að hlustunarskilyrði á Gufuskálum séu þannig að ekki sé hægt að nota þá aðstöðu, sem þar er, til að sinna strandstöðvarþjónustu Landssímans. Fleira kom hér fram reyndar. Lögð var áhersla á það, að hægt væri að byggja þessa þjónustu upp í gegnum fjarstýringu. Ég veit að við vissar aðstæður er hægt að gera þetta með fjarstýringu, en það þýðir aftur aukinn kostnað notenda við það að þurfa að nota símaþjónustuna meira og minna til þess að sinna viðskiptum við skip, og það ætti að einhverju leyti að jafna þann kostnað sem að sjálfsögðu leiðir að einhverju leyti af uppsetningu strandstöðvarinnar á Gufuskálum. Auk þess má ítreka það, að bilanatíðni endurvarpsstöðva, bilanatíðni á línum að og frá endurvarps- eða fjarstýrðum stöðvum er mikil og hættuleg. Hættast er við bilunum þegar mest liggur á og þess vegna er ekki rétt að byggja kerfið í jafnauknum mæli og stefnt er að upp á fjarstýrðum stöðvum. Það þurfa að vera á ákveðnum stöðum á landinu strandstöðvar, sem eru í gangi jafnvel þó að ýmsar línur á milli landshluta séu bilaðar og rafmagnstruflanir eigi sér stað á almenningsveitum. Þetta væri hvort tveggja fyrir hendi á Gufuskátum. Þar er rafmagnsframleiðsla sem getur sinnt þeirri þjónustu þó að almenningsveita bili. Og til gamans mætti bæta því við — það er verst að hv. 5. þm. Vesturl. er farinn burt — að það mætti nýta NATO-stöðina á Gufuskálum enn þá betur, að sagt er. Með því að nota rafmagnið á Gufuskálum væru þær algengu símatruflanir, sem eiga sér stað vegna bilana á atmenningsveitum, úr sögunni og þá væri símasambandið við Snæfellsnes oftar í sæmilegu lagi. En menn hafa ekki viljað grípa til þess að nota rafmagnið frá Gufuskálum til þessa þó að ég teldi það alls ekki vera neitt hættuspil.

Ég vil svo bara endurtaka það, að ég þakka þær undirtektir, sem hér hafa komið við þessa till., og ég vænti þess, að hv. alþm. veiti okkur lið í að koma þessu máli í gegn á þessu þingi.