29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1992 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

80. mál, alkalískemmdir á steinsteypu í húsum

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 86 till. til þál. sem er svo hljóðandi: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir því, að þeir húseigendur, sem leggja þurfa í mikinn viðgerðarkostnað vegna alkalískemmda á steinsteypu í húsum sínum, fái fjárhagsaðstoð til þeirra viðgerða, annaðhvort í formi bóta eða lána eða hvors tveggja. Ef nauðsyn ber til sérstakrar lagasetningar í því efni skal ríkisstj. undirbúa slíka löggjöf og leggja fyrir Alþingi sem fyrst.“

Með þáltill. þessari er hreyft máli sem hefur komið mjög illa niður á allmörgum einstaklingum án þess að þeir eigi þar nokkra sök á eða hafi nokkuð getað að gert. Það hafa á undanförnum árum komið fram mjög alvarlegar skemmdir á steinsteypu í húsum hér á landi, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Árið 1967 skipaði iðnrh. nefnd til að fjalla um vandamál varðandi steypuskemmdir og gerð steinsteypu. Nefndin hlaut nafnið Steinsteypunefnd og hefur kostað ýmsar rannsóknir á vandamálum í sambandi við steinsteypugerð og birt nokkrar skýrslur um þau mál.

Á árinu 1979 kom út rit á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins þar sem fjallað er um niðurstöður af rannsóknum á ástandi steyptra útveggja húsa, en þær rannsóknir voru kostaðar af Steinsteypunefnd. Skýrslan ber nafnið „Steypuskemmdir, ástandskönnun“, en höfundur hennar er Ríkharður Kristjánsson. Í skýrslunni er fjallað um helstu tegundir steypuskemmda og m.a. ítarlega gerð grein fyrir svonefndum alkalískemmdum, en rannsóknir á þeim eru tiltölulega nýtilkomnar hér á landi. Í skýrslunni kemur fram að tíðni alvarlegra alkalískemmda er mikil, m.a. segir að búast megi við að a.m.k. 6.6% húsa, sem byggð hafa verið í Reykjavík á árunum 1956–1972, hafi alvarlegar alkalískemmdir, jafnframt megi búast við að slíkar skemmdir sé að finna víðar. Reyndar er öruggt að svo sé, þó að það kunni að vera eitthvað mismunandi eftir landshlutum.

Nú er þess að gæta, að skemmdir þessar koma mjög hægt í ljós og því má búast við að þessi tala kunni að hækka þegar fram líða tímar. Um þetta mál, orsakir þess, leiðir til úrbóta, möguleika til viðgerða o.fl., er fjallað ítarlega í þessari skýrslu og ég skal ekki rekja hana, enda er hún mjög tæknilegs eðlis, en þar kemur fram m.a. að líklegustu orsakirnar séu notkun íslensks sements, sem hafi haft mikið alkalíinnihald, svo og notkun alkalívirkra fylliefna sem tekin hafa verið úr sjó hér á Reykjavíkursvæðinu, en ekki verið þvegin.

Efnisútdráttur úr þessari skýrslu kemur fram í lokakafla hennar, eins konar útdráttur úr skýrslunni í heild, og til þess að hv. alþm. geti glöggvað sig á niðurstöðum hennar hefur lokakafli skýrslunnar verið birtur sem fskj. með till. á þskj. 86. Ég vil þó vekja athygli á einum þætti og lesa upp, með leyfi forseta, nokkur orð úr skýrslunni á bls. 95, en þar segir:

„Ein er sú spurning, sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins getur ekki svarað, og er hún þó brennandi fyrir marga, en hún er hvort eigendur einir verði að bera þann mikla fjárhagsbagga, sem alvarlegar alkalískemmdir hafa í för með sér. Í raun getur Alþingi eitt svarað þessari spurningu. Höfundur þessarar skýrslu fær ekki annað séð en Viðlagasjóður eða aðrir hliðstæðir sjóðir verði að hlaupa hér undir bagga, þar sem engir, ekki færustu vísindamenn veraldar á þessu sviði, bjuggust við skemmdum þar sem þær nú koma fram.“

Menn hafa leitast við að finna leiðir til viðgerða í þessu sambandi. Í apríl 1980 kom út á vegum Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og borgarverkfræðings í Reykjavík rit sem ber nafnið „Viðgerðir á steinsteypu“, en höfundur er Vífill Oddsson verkfræðingur. Rit þetta hefur að geyma leiðbeiningar um viðgerðir á skemmdum í steinsteypu. Þar kemur m.a. fram varðandi viðgerðir á alkalískemmdum að ekki séu enn fullreyndar þær aðferðir sem helst séu taldar koma til greina til viðgerða, þar sem uppgötvanir þessara skemmda séu svo nýjar af nálinni hér. Af þeim ástæðum hefur Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins farið þess á leit við Húsnæðisstofnun ríkisins að hún veiti fjármagn til frekari rannsókna og tilrauna á þessu sviði. Síðast þegar ég vissi til var sú beiðni enn til umfjöllunar hjá húsnæðismálastjórn og hafði ekki fengið afgreiðslu.

Hver sem niðurstaðan verður varðandi heppilegustu aðferð til viðgerða á þessum alkalískemmdum í steinsteypu húsa er ljóst að húseigendur, sem fyrir þessu hafa orðið, hafa beðið mikið tjón og verða fyrir mjög miklum útgjöldum. Útgjöld á hvern húseiganda eða hvern íbúðareiganda geta skipt milljónum og jafnvel tugum milljóna. Hér er um mjög óvænt útgjöld að ræða sem rekja má til ytri orsaka, jafnvel til efnasamsetningar sements sem Sementsverksmiðja ríkisins hefur framleitt og selt. Þessu tjóni má því fyllilega jafna við tjón sem nú er bætt t.d. úr Bjargráðasjóði Ístands eða af Viðlagatryggingu Íslands. Það er því mikið sanngirnismál að þeir húseigendur sem fyrir slíku verða geti orðið sér úti um fjármagn til að standa straum af þeim mikla kostnaði sem þeir verða fyrir. Af ásettu ráði hef ég ekki í þessari till. gert ákveðnar tillögur um í hvaða formi slíkar greiðslur eiga að verða eða úr hvaða sjóðum þær eiga að koma, en fleiri en ein leið koma þar til greina. Ég skal drepa á hvaða helstu leiðir ég tel að þarna komi til greina.

Í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, 11. gr., 4. tl., er ákvæði um að Byggingarsjóði ríkisins sé heimilt að veita „lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á eldra íbúðarhúsnæði“. Lagaheimild er því ótvíræð fyrir lánveitingu frá húsnæðismálastjórn í þessu skyni. Hins vegar liggur það jafnljóst fyrir að húsnæðismálastjórn hefur ekki fjármagn til að veita slík lán þannig að til þurfa að koma sérstakar ákvarðanir og sérstakar fjármagnsútveganir til handa húsnæðismálastjórn. Slík lánafyrirgreiðsla mundi vafalaust hjálpa mikið. Fer það þó eftir því með hvaða lánskjörum menn eiga kost á slíku láni. Ef um mikið tjón er að ræða kemur vel til greina að menn fái greiddar hreinar bætur, a.m.k. að því er snertir hluta kostnaðar þegar um mikið tjón er að ræða, og mætti setja um það ákveðnar reglur og ákveðin mörk hvenær menn eigi rétt á slíkum bótum. Til þess skortir þó lagaheimildir því að ég hygg að lögin um Viðlagatryggingu Ístands, eins og þau eru nú, veiti ekki heimild til að greiða bætur í þessum tilvikum. Það er mjög þröngt afmarkað í þeim lögum hvaða tilvik heimili bætur, en það eru fyrst og fremst náttúruhamfarir.

Bjargráðasjóður Íslands hefur stundum, þegar atvik koma upp sem jafna má til þessara, t.d. ef hússkemmdir verða í ofviðri, tekið að sér greiðstu slíkra bóta. Ég minnist þess t.d. þegar mikið óveður gekk hér yfir Suðvesturland fyrir nokkrum árum og olli miklum skemmdum á ýmsum húseignum að Bjargráðasjóður Íslands hljóp undir bagga og lánaði viðkomandi sveitarfélögum, sem síðan greiddu bætur þeim sem verst höfðu orðið úti. Gallinn við Bjargráðasjóð Íslands er hins vegar sá, að hann er alveg peningalaus og þess vegna þarf sérstök aðgerð að koma til ef hann á að geta staðið undir þessu.

Þessi þáltill. gerir ráð fyrir. að ríkisstj. taki þetta mál til athugunar og beiti sér fyrir því, að þetta tjón verði uppi borið og settar verði um það ákveðnar reglur og, ef nauðsyn beri til, sérstakar lagasetningar í þessu efni, — t.d. ef mönnum sýnist að Viðlagasjóður sé eðlilegur vettvangur fyrir þessar bætur skuli ríkisstj. undirbúa löggjöf og leggja fyrir Alþingi sem fyrst.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til allshn.