29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2002 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

121. mál, geðheilbrigðismál

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 143 hef ég ásamt sjö hv. alþm. öðrum: Salome Þorkelsdóttur, Davíð Aðalsteinssyni, Karli Steinari Guðnasyni, Stefáni Jónssyni, Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Helgasyni og Agli Jónssyni, leyft mér að flytja svohljóðandi till. til þál. um geðheilbrigðismál, skipulag og úrbætur:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka nú þegar til algerrar endurskoðunar öll geðheilbrigðismál hér á landi með tilliti til þess að byggt verði upp nýtt skipulag þessara mála.

Í þessu skyni skipi viðkomandi ráðh. nefnd til undirbúnings málinu þar sem m.a. aðstandendur geðsjúkra eigi fulla aðild.

Nefndin skili áliti fyrir árslok 1981. Brýnustu viðfangsefni, sem vinna þarf að ýmist samhliða nefndarstarfinu eða í nefndinni sjálfri, eru þessi:

1) Að lokið verði við framkvæmdir við Geðdeild Landspítalans á næstu tveimur árum og starfsfólk ráðið svo deildin geti sinnt verkefni sínu að fullu.

2) Að aðstaða til skyndihjálpar og neyðarþjónustu verði bætt.

3) Fullkomnari göngudeildarþjónustu verði komið á.

4) Fjölgað verði vernduðum heimilum fyrir geðsjúka.

5) Sérstök áhersla verði lögð á aðstöðu fyrir unglinga

með geðræn vandamál (12–16 ára), svo sem lög kveða á um.

6) Í stað fangelsisvistar geðsjúklinga komi viðeigandi umönnun á sjúkrastofnunum.

7) Reglur um sjálfræðissviptingu verði teknar til rækilegrar endurskoðunar.

8) Atvinnumál geðsjúkra verði í heild tekin til athugunar, m.a. með tilliti til verndaðra vinnustaða, nauðsynlegustu iðjuþjálfunar, endurhæfingar, þar með talinnar símenntunar og ráðgjafaraðstoðar til að komast út í atvinnulífið á ný.

Kannaðir verði allir möguleikar hins opinbera svo og atvinnurekenda til lausnar þessa vanda.

9) Stóraukin verði almenn fræðsla um vandamál geðsjúklinga og aðstandenda þeirra svo og um eðli geðrænna sjúkdóma. Ráðgjafaþjónusta verði sem allra best tryggð.“

Þessi till. var flutt á síðasta löggjafarþingi. Hún fékk þá ekki afgreiðslu. Í henni var þá 1. liðurinn nokkuð öðruvísi orðaður af eðlilegum ástæðum þar sem framkvæmdir við Geðdeild Landspítalans voru þá á öðru stigi en þær eru nú, og ber að fagna þeim áfanga sem þar hefur náðst. Í öðru lagi komu fram nú í sumar nokkrar aths. við þann lið þessarar till. sem þá fjallaði um sérstaka deild í heilbr.- og trmrn. sem tæki að sér sérstaklega að fjalla um geðheilbrigðismál og hafa yfirstjórn þeirra með höndum. Við flm. urðum þess áskynja að það voru vissar efasemdir um að þetta væri rétt, og því felldum við það niður.

Meginuppistaða grg. og rök fyrir till. eru sett fram af stjórn Geðhjálpar, og þar hefur Sigríður Þorsteinsdóttir hjúkrunarkennari alveg sérstaklega unnið að bæði grg. og einstökum upplýsingum til handa okkur flm., og kunnum við henni ásamt öðrum stjórnarmönnum þar bestu þakkir fyrir það starf því að við, sem flytjum þessa till., höfum litla sérþekkingu á þessu sviði og getum því ekki um það dæmt hver skuli vera meginatriði í tillöguflutningi af þessu tagi. Við gerum okkur hins vegar ljóst af því umhverfi, sem við lifum og hrærumst í, að í þessum málum er þörf mikilla úrbóta.

Ég hef tekið eftir því nú í umfjöllum um málefni fatlaðra á þessu alþjóðaári þeirra, umfjöllun um frv. til nýrra laga um málefni þeirra, að fulltrúar t.d. Öryrkjabandalagsins hafa ítrekað bent á þann stóra sjúklingahóp, sem er með geðræn vandamál, og bent á það um leið hversu stutt við værum á veg komnir einmitt í aðstoð og hjálp við það fólk. Ber þó ekki að vanmeta það sem margir aðilar og mörg félagasamtök hafa vel gert í þessum efnum. Ég nefni þar sérstaklega Geðvernd, Geðhjálp, félagsskapinn Vernd og fleiri aðila sem hafa hér vel að unnið, enda segja þeir hjá Geðhjálp að vissulega sé margt vel gert og við stöndum vel að vígi á ýmsum sviðum, en miður annars staðar varðandi heilbrigðisþjónustuna. Það, sem þeir telja miður farið, er einmitt varðandi geðheilbrigðismálin. Þeir segja, og ég held að það sé fyllilega rétt og til athugunar fyrir okkur, að e.t.v. sé það vegna þeirrar hulu sem hvílir yfir geðsjúkdómum sökum lítillar umræðu og fræðslu um þessa sjúkdóma almennt, og þar af leiðandi er það ekki rætt að geðsjúkdómar hrjái fólk, nema þá í flimtingum og glensi manna á meðal, því miður. Þetta segja þeir hjá stjórn Geðhjálpar og ég tek fyllilega undir það.

Till. þessi er í raun og veru tvíþætt. Hún gerir ráð fyrir skipun nefndar sem hafi það að markmiði að taka öll geðheilbrigðismál til endurskipulagningar og þar sem leyst yrði úr ýmsum vandamálum til frambúðar. Hins vegar er bent á ýmis atriði sem knýja þannig á um úrbætur að ákveðið er að vekja á þeim sérstaka athygli og fá fram úrbætur svo fljótt sem mögulegt er, helst áður en Alþingi afgreiddi lagafrv. þessa efnis.

Í grg. með þessari till. er vikið að hverjum einstökum lið og ég sé ekki ástæðu til að fara í það nú vegna þess að þegar um þetta mál var fjallað í fyrra flutti ég fyrir því ítarlega framsögu. Þar komu svo aðrir flm. inn í. Einnig kom inn mjög merkilegt og gott innlegg frá hv. þm., sem þá sat hér, Haraldi Ólafssyni, um þetta mál. — Ég vil þó ekki láta hjá líða að minna á ýmis ógnvekjandi atriði, sem fram koma í upplýsingum frá Geðhjálp, og grípa niður í t.d. lið nr. 1:

„Samkv. upplýsingum frá Bjarka Elíassyni gista að jafnaði þrír einstaklingar fangageymslur á nóttu hverri allan ársins hring að bíða eftir „plássi“ á geðdeild. Sökum sjúkdóms síns geta þeir ekki verið heima og rými er ekki til á geðdeildum.“

Þetta hefur því miður ekki breyst til batnaðar að ráði, að mér er sagt, þó að vissulega hafi sú opnun, sem þegar er orðin á Geðdeildinni, breytt þar einhverju til batnaðar.

Þessi till. fjallar um viðamikið og viðkvæmt mál og þarf því góða athugun í nefnd. Við flm. eru engir bókstafstrúarmenn í þessum efnum, síður en svo. Við ætlumst ekki til þess, að allir þeir liðir, sem við erum með hér, séu teknir orðréttir upp. Við gætum jafnvel, til þess að taka af öll tvímæli um það, hugsað okkur að sú tillgr., sem kæmi endanlega frá n., fæli í sér að öll þessi mál væru tekin til algerrar endurskoðunar með tilliti til þess, að byggt yrði upp nýtt skipulag þessara mála, og aðstandendur geðsjúkra ættu aðild að slíkri nefnd. Þó að þau áhersluatriði séu nefnd sem koma þarna á eftir teldum við að aðeins þetta væri svo mikilvægt skref í rétta átt að við mundum fyllilega við una.

Í öðru lagi vil ég segja að núna á þessum dögum sérstaklega, þegar verið er að fjalla víða úti í þjóðfélaginu um málefni fatlaðra og málefni ýmissa hópa, þá kemur æðioft upp að við eigum ekki að vera með nein sérgreind lög fyrir einstaka hópa í þjóðfélaginu, það sé röng stefna, heldur sé það eitt rétt í þessum málum að aðlaga þessa hópa hinni almennu löggjöf í sem allra flestum greinum. Ég er algerlega sammála þessu meginsjónarmiði. Við eigum grunnskólalöggjöf sem á að tryggja nokkurn veginn jafnan rétt allra. Við eigum lög um heilbrigðisþjónustu sem einnig eiga að tryggja jafnan rétt allra. Við eigum hins vegar enga félagsmálalöggjöf og félagsmálalöggjöf á langt í land hjá okkur, hvort sem um yrði að ræða rammalöggjöf eða löggjöf sem væri rækilega úr garði gerð og tæki til flestra þátta félagsmála. Það vegur kannske þyngst, held ég, hjá okkur öllum flm. varðandi þennan sérstaka hóp, að þessi hópur ásamt fjöldamörgum öðrum á svo gífurlega langt í land að ná að standa jafnfætis öðrum þjóðfélagsþegnum hvað snertir margvíslega aðstöðu í þjóðfélaginu. Þess vegna er það eðlilegt milliskref í þessum málum og sjálfsagt um leið, ef við ætlum að tryggja þessu fólki jafnrétti, að við setjum áherslulög um málefni þeirra þannig að þau þokist hraðar í átt til þess fullkomna jafnréttis sem við öll erum sammála um að stefnt sé að. Því er það, að við erum ekki á því að það sé af hinu illa, síður en svo, að taka geðheilbrigðismálin sérstaklega út úr, fá nýtt skipulag á þau mál og semja um þau heildarlöggjöf sem gæti orðið til þess að tryggja þessum stóra hóp réttindi — þessum ótrúlega stóra hóp þar sem jafnvel er talað um að um 20% af íbúum hins vestræna heims þurfi að leita geðlæknis einhvern tíma á ævinni og geðrænir sjúkdómar sé einhver algengasta fötlun sem um getur. — Við álítum það sem sagt af hinu góða að þessi mál verði tekin til rækilegrar endurskoðunar, sérlög um þau sett og þannig á þeim tekið að við förum hraðar en hingað til hefur verið í átt til þess að jafnrétti þessa fólks verði sem mest — eða kannske réttara sagt: að réttur þess verði með einhverjum hætti tryggður, því að e.t.v. er þessi hópur ásamt þroskaheftum í þjóðfélaginu verst tryggður í dag þrátt fyrir að ég ætli ekki að gera lítið úr því sem þegar hefur verið í málinu gert.

Till. skýrir sig sjálf að miklu leyti. Þessi mál eru sérstæð. Sérstaða sjúklinganna er alveg augljós og því þarf vissulega að mörgu að gæta. Það má aftur víkja að viðkvæmni þessara mála allra, svo að aðeins sé að sjálfræðissviptingunni einni vikið, sem er stórt mál. Hér er líka um að ræða fólk sem vissulega hefur sætt fordómum almennings og sætir enn að nokkru marki og því er vissulega þörf ærinna úrbóta, sem við flm. erum hér að benda á og höfum fyrir okkur þá aðila sem gerst þekkja, aðstandendur hinna geðsjúku sem eldurinn brennur heitast á.

Við flm. viljum þó ítreka nokkur atriði sérstaklega:

1. Aðstandendur geðsjúkra eru yfirleitt illa í stakk búnir að takast á við vandann þegar geðrænir sjúkdómar herja á. Þar er fræðslan upphaf alls. Því meira sem fólk veit um vandann, því betri möguleikar eru á að leysa hann. Við erum þó ekki að leggja eingöngu áherslu á fræðslu aðstandenda. Ekki leggjum við síður áherslu á fræðslu geðsjúklinganna sjálfra um eðli sjúkdómsins, hvert stig hans er og batamöguleika kannske fyrst og fremst.

2. Eins og ég benti á áðan minnum við á reglurnar um sjálfræðissviptinguna sem í dag eru slíkar að engir geta við unað. Hér þarf vel að hyggja að. Það er vissulega erfitt að setja nýjar reglur hér um. Við getum lítið til næstu landa um fyrirmyndir, en um alhæfingu getur ekki orðið að ræða og við gerum okkur fyllilega ljóst að það er erfitt að finna hér reglur sem samræma hvort tveggja mannúðar- og öryggissjónarmið.

3. Þá leggjum við afar mikla áherslu á svokallaða áningarstaði og verndaða vinnustaði. Þeir eru að vísu til, en þeir fullnægja hvergi þörfinni. Geðvernd er nú t.d. með hús í byggingu sem á að verða áningarstaður. Þeir góðu menn, sem þar starfa, fullyrða hins vegar að vissulega leysi það hús alls ekki allan vanda. Hér er um eitt mikilvægasta skrefið að ræða fyrir sjúklinginn og eitt mikilvægasta skrefið að því marki að hann aðlagist þjóðfélaginu á nýjan leik. En þar getur verið um gífurlegt átak að ræða og þar þurfa margir að leggjast á eitt. Þar þarf fyrst og fremst ráðgjöf og félagslega aðstoð sem allra besta.

4. Í beinu framhaldi af þessu nú leggjum við áherslu á atvinnumálin. Þar ráða fordómar enn of miklu. Við mig hefur verið fullyrt af þeim sem gleggst þekkja hér til, að fordómarnir séu mun meiri hjá vinnufélögum en vinnuveitendum. Það er kannske eðlilegt vegna þess að sjúklingurinn er í miklu nánari snertingu við vinnufélagana en vinnuveitandann sjálfan, sem gerir kannske lítið annað en greiða honum laun. En engu að síður sýnir þetta okkur að sem best samstarf þarf að takast við stéttarfélögin í þessum efnum og það þarf að eiga sér stað viss fræðsla á vinnustaðnum svo ekki komi til þeirra erfiðleika sem sagt er að beri allt of mikið á þó að búið sé að útvega þessum manni vinnu sem á þarf að halda.

Nátengd þessu, og því miður í mjög vaxandi mæti, eru vandamál barna og unglinga. Þau eru kannske ógnvænlegust af því öllu. Það er mál sem ég ætla ekki að fara náið út í hér, og það mál hefur reyndar verið tekið sérstökum tökum og er vissulega margt vel gert í þeirra málum. En allir sjá að skólakerfið þarf að vera hér vel á verði. Varðandi nám þessa fólks og aðlögun þess að náminu á nýjan leik er ekki um minni erfiðleika hjá því fólki að ræða en hjá þeim fullorðnu sem þurfa að fara út í atvinnulífið. Þetta fólk á kannske enn erfiðara. Það hefur orðið fyrir mikilli seinkun í námi sínu þó það sé orðið heilbrigt á nýjan leik, og það gengur erfiðlega að ná tengslum aftur inn í námið, við félagana, að aðlagast skólakerfinu í heild. Ég held að þetta sé mál sem brýnt er að leysa í velferðarþjóðfélagi okkar.

Ég held líka að það sé aldrei lögð of þung áhersla á að þessi mál á að ræða opinskátt og af fullri reisn, svo sem þeim ber. Ekki á að vera á nokkurn hátt með þann feluleik sem of oft hefur einkennt þessi mál sem margt fólk vill því miður enn í dag sveipa vissri hulu vegna þess að ýmsir sjúkdómar eru þess eðlis, að þeir nálgast að vera fínir, en þessi sjúkdómur er af því taginu, að menn varast að nefna hann ef nokkur leið er að komast hjá því.

Ég held að sú nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, þurfi að leita til þeirra aðila sem gerst þekkja þessi mál. Ég held að það væri verðugt átak á alþjóðaári fatlaðra ef sá stóri hópur, sem hér er um að ræða, fengi nýja löggjöf, nýjar úrbætur í málum sínum, eins og honum ber, vegna þess að það er viðurkennt af öllum að hér erum við á eftir þrátt fyrir góðan vilja, bæði sérfróðra manna sem ýmissa þeirra sem að þessu hafa unnið af áhuga og í sjálfboðavinnu.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessa till. nú. Ég vísa til ítarlegrar grg. með till. og ég vísa til ítarlegrar framsögu í fyrra um alla þætti hennar og mikilvægi hvers um sig, mismunandi mikilvægi að sjálfsögðu. Ég endurtek það, um leið og ég óska eftir að þessari till. verði vísað til hv. allshn. og síðari umr., að ef nefnd, sem fær till. til umfjöllunar, hrýs hugur við því að telja upp öll þau áhersluatriði sem þarna eru, þá erum við flm. fyllilega ásáttir við að hér verði eingöngu teknar fyrstu málsgr., sem kveða á um endurskipun þessara mála og nefnd þar sem aðstandendur geðsjúkra eigi fulla aðild.