29.01.1981
Sameinað þing: 43. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

121. mál, geðheilbrigðismál

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil af alhug taka undir þá till., sem hér er flutt, og fara um hana nokkrum orðum.

Það er nú svo, að það vill brenna við hér á hinu háa Alþingi að þegar mál af þessu tagi, sem jafnmikilvæg eru, koma til umr. eru þeir ekki ýkjamargir mennirnir sem sitja í salnum og hlusta á og fjalla um málin sem kannske skipta okkur mun meira en þau sem allt argaþrasið er um hér í fundastreðinu. Ég vil minna á í sambandi við þessa þáltill. að það er almenn skoðun geðlækna og sérfræðinga um allan heim, að geðræn vandamál fari stöðugt vaxandi. Það er svo, að hundraðshluti þeirra manna, sem á ævi sinni verða fyrir geðrænum truflunum af ýmsum ástæðum, fer stöðugt vaxandi og hefur gert það mjög, einkum og sér í lagi frá heimsstyrjöldinni síðari.

Fyrir 10–15 árum var hafin á Íslandi umræða um geðheilbrigðismál. Ég held ég halli ekki á neinn þó að ég segi að stærsta þáttinn í því að hetja þá umræðu hafi átt prófessor Tómas Helgason, núverandi yfirlæknir á Kleppsspítalanum. Áður en sú umræða hófst voru málefni geðsjúkra á þann veg hér á landi að sá sem fór á Klepp var nánast dæmdur úr leik. Við munum allir eftir þeim orðum sem við sjálfir tókum okkur í munn þegar við vildum fara niðrandi orðum um náungann: að hann væri Klepptækur. Sem betur fer held ég að sá þáttur sé úr sögunni, þetta sé ekki lengur notað sem skammaryrði. Hins vegar fer það ekkert milli mála, að fordómarnir, þekkingarleysið og myrkrið, sem hvílir yfir þessum málaflokki, er aldeilis með ólíkindum. Menn fjalla kinnroðalaust um það ef þeir fá magasár eða brjóta á sér fót, en þeir gera það ekki ef þeir verða fyrir einhverju andlegu áfalli og þurfa meðferðar við.

Ég er þeirrar skoðunar, að þegar þessi till. kemur til nefndar megi mjög gjarnan fjalla um eitt atriði þessa málaflokks, sem ég hef ekki fundið í þessari till., en það er staða geðsjúkra gamalmenna. Þetta er af flestum talið eitt af erfiðustu vandamálum sem við eigum nú við að glíma á sviði geðsjúkdóma. Geðsjúk gamalmenni eru raunverulega komin út fyrir ramma kerfisins. Þau eiga hvergi heima. Þau eiga hvergi samastað. Maður á miðjum aldri eða fullorðinn maður, gamall maður, sem verður óeðlilega fljótt „senil“, á óskaplega erfitt og aðstandendur hans, vegna þess að honum er hvergi ætlaður staður.

Ég vil líka leggja á það mikla áherslu, að þegar þessi till. kemur til umr. í nefnd verði ekki eingöngu fjallað um hvað gera skuli eftir að menn hafa orðið veikir, heldur jafnframt og e.t.v. miklu frekar hvað gera skuli til að koma í veg fyrir geðsjúkdóma. Til þess eru mörg ráð. Geðsjúkdómar eru margbreytilegir og orsakir þeirra eru mjög margbreytilegar. Ein sú helsta er ofneysla ýmissa vímugjafa, streita, áhyggjur og almennt það álag sem nútímaþjóðfélag leggur á einstaklinginn. Ég held að þessi þáttur hafi ekki verið gaumgæfður nægilega mikið. Geðverndarfélagið hefur nú tekið þetta upp í stefnuskrá sína til umfjöllunar, til að auka fræðslu um hvernig einstaklingurinn geti áttað sig á því ef hann verður fyrir einkennum er gætu leitt til geðtruflana eða geðrænna vandamála af einhverju tagi. Þetta er mikið grundvallaratriði vegna þess að það er ávallt og hefur ávallt verið talið betra að koma í veg fyrir sjúkdómana en að lækna þá eftir að þeir eru komnir í skrokkinn.

Það fer ekkert milli mála að það, sem við erum að glíma við núna, á rætur að rekja til baráttu mannsins, baráttu einstaklingsins við hið óeðlilega samfélag sem hann sjálfur hefur skapað sér, þ.e. brotthvarfið frá hinu upprunalega og hinu eðlilega umhverfi. Sérfræðingar á þessum sviðum telja að þróun mannsins á síðustu tveimur öldum hafi verið það hröð að möguleiki heilans til að taka við öllum þeim breytingum hafi ekki verið fyrir hendi. Jafnvel hafa þeir gengið svo langt að skipta heilanum í tvennt og tala gjarnan um gamla heilann og nýja heilann. Um þetta eru til mikil fræði í nýjum bókum.

Tveir franskir geðlæknar eru frægir fyrir kenningu sem þeir hafa haldið fram, kannske meira í gamni en alvöru. Þeir hafa sagt að það væru raunverulega hinir heilbrigðu sem í geðsjúkrahúsunum væru, en hinir óheilbrigðu sem úti í þjóðfélaginu væru. Skýring þeirra er einföld. Þeir segja: Maður, sem getur staðið uppréttur úti í nútímasamfélagi, getur ekki verið heilbrigður. Þess vegna er það heilbrigt að gefast upp fyrir samfélaginu eins og það er.

„Fílósófískar“ hugleiðingar af þessu tagi eiga kannske ekki heima hér, en ég er sannfærður um að það tækni- og velferðarþjóðfélag, sem við hér á hinu háa Alþingi erum að berjast við að betrumbæta og gera fullkomnara, hefur fært okkur upp í hendurnar þennan vanda, að maðurinn er ekki tilbúinn að hverfa frá uppruna sínum, frá því samfélagi þar sem heimurinn var býsna mikið öðruvísi en hann er núna. En ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að líklega er einn höfuðgallinn á þessu samfélagi, sem við erum að skapa, sem við erum þátttakendur í að skapa og fleiri eiga eftir að taka þátt í að skapa, að mannleg samskipti hafa farið úr skorðum. Einveran og einstæðingsskapurinn eru hvergi meiri en í þessum svokölluðu velferðarsamfélögum. Það er einn vandinn sem við er að stríða, og ég held að sú hugarfarsbreyting, sem við kannske flestir óskuðum að gæti átt sér stað, eigi því miður langt í land með að verða að veruleika, en hún með bættum mannlegum samskiptum, gæti kannske dregið meira úr þeim vandamálum, sem við erum að fjalla um hér, en flest annað, en það pillukerfi sem búið er að koma upp og maðurinn hefur ánetjast að vissu leyti.

En ég endurtek að ég lýsi fyllsta stuðningi við þessa till. Það er oft með góðar till. af þessu tagi að þær vilja verða undir, þær verða einhvern veginn eftir, þær týnast og hverfa, eins og hér kemur fram. Það er verið að endurflytja þessa till. núna. Við getum spurt sjálfa okkur: Af hverju? Er það af því að þm. hafa ekki meiri áhuga á þessu máli en svo að þeir sitja sjö í salnum þegar það er rætt? Það er kannske ástæðan fyrir því að ekki gengur betur. Ég vil þess vegna hvetja flm. til þess — og mun styðja þá með ráð og dáð - að koma þessu máli fram sem allra fyrst.