02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2023 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er skoðun okkar Alþfl.-manna, að það frv. til l., sem hér er flutt, muni alls ekki duga til þess að ná varanlegum árangri í efnahagsmálum eða til þess að koma efnahagslífinu á heilbrigðari grundvöll og draga úr verðbólgunni til frambúðar. Í þessu frv. felst það fyrst og fremst að lækka kaupgjald, að skerða laun. Um aðrar fyrirætlanir ríkisstj. má það segja, að þar ýmist rekst hvað á annars horn eða þá að endar verða að teljast lausir.

Framsóknarmenn taka undir það sjónarmið okkar Alþfl.-manna, að þessar ráðstafanir muni ekki duga, og þeir tala um meira seinna. Ég spyr: Hvað á það að vera og hvenær og hvernig? Við því eigum við auðvitað að fá svör.

Alþb.-menn segja hins vegar að nú sé björninn unninn.

Er það e.t.v. stefna ríkisstj? Og ég spyr: Hvar stendur forsrh.? Á að koma meira seinna eða hefur björninn verið unninn?

Þessara aðgerða hafði verið beðið lengi. Í 10 mánuði eða svo höfum við búið við aðgerðaleysi. Það var 10 mánaða meðgöngutími að þessum ráðstöfunum. Ég held að sérhver sá sem hefur skoðað þessar aðgerðir grannt hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum. Í þeim felst ekki sú nýja atvinnustefna sem brýna nauðsyn ber til og ýmsir þóttust sjá votta fyrir í málflutningi forsrh. um skeið í desembermánuði. Í þeim felst ekki sú uppstokkun og kerfisbreyting sem brýnt er að gera til þess að við komumst upp úr þeim vanafarvegi sem við höfum setið í. Einn af þm. stjórnarsinna lýsti áhrifum þeirra aðgerða, sem hér er gripið til, þannig að í þeim fælist að hafa minni verðbólgu fyrst og fá svo meiri verðbólgu seinna. Þetta voru orð stjórnarsinna og að hann sæi ekki ávinning af því. Þessi lýsing er auðvitað athyglisverð og sérstaklega þegar hún kemur frá stjórnarsinna. Það eru því ekki stjórnarandstæðingar einir sem bera ugg í brjósti í þessum efnum.

Ég sagði að hver sem grannt hefur skoðað þetta frv. og þær till., sem ríkisstj. hefur boðað, hljóti að hafa orðið fyrir vonbrigðum. Ég segi þetta af því að ég er sannfærður um að þjóðin skilur við hvaða vanda er að etja, í hverjar ógöngur efnahagskerfi okkar hefur ratað. Og ég tel að það sé yfirgnæfandi vilji meðal þjóðarinnar, að tekist verði á við þennan vanda, og að þjóðin sé reiðubúin til að leggja að sér við að komast úr þessum ógöngum og að styðja ráðstafanir sem skila varanlegum árangri, að menn séu reiðubúnir svo framarlega sem menn sjái að árangurinn sé vís óg hann verði varanlegur. Reynslan hefur hins vegar sýnt og sannað að aðgerðir, sem eingöngu miðast við að skerða kaup, skila skammgóðum vermi, renna fljótt út í sandinn.

Það er skoðun okkar Alþfl.-manna, að með nýrri atvinnustefnu og kerfisbreytingu í ýmsum málefnum ríkisins, svo sem í ríkisfjármálum, skattamálum og tollamálum og með því að draga úr sjálfvirkni í lánamálum, í ríkisbúskapnum, í peningamálum og í verðlags- og launamálum, megi ná varanlegum árangri. Sé það gert, sé þannig staðið að málum og jafnframt sýnt og sannað að ríkið gangi sjálft á undan með aðhaldi hjá sjálfu sér, þá munum við sjá varanlegan árangur og þá kemur vissulega til álita að hafa afskipti af kaupgjaldsmálum sem lið í slíkum heildstæðum aðgerðum. En kauplækkun ein sér mun ekki skita árangri nema mjög skamma hríð, og með því — eins og hér er staðið að málum — er verið að krefjast fórna fyrir frestun, en ekki fyrir framtíðarhag.

Það er athyglisvert, að þær aðgerðir, sem hér er gripið til, eru sams konar og þær sem Geir Hallgrímsson og ríkisstj. hans stóðu að. Aðdragandinn er meira að segja eins.

Fyrst semur ríkið við opinbera starfsmenn og leggur lið sitt öðrum samningum, síðan eru samningarnir teknir til baka með lögum. Þó höfðu engar forsendur breyst. Þegar ríkisstj. gerði samninga við opinbera starfsmenn fyrir nokkrum mánuðum lýstu talsmenn hennar því yfir, að þetta væru sanngjarnir samningar. En nú á að rifta þessum samningum með lögum. Hvað hafði breyst? spyr ég. Hvar hvarf sanngirnin? Og hvers vegna þetta ósamræmi? Hvernig stendur á því, að þeir Alþb.-menn nota allt önnur orð um þessar aðgerðir nú en þegar Geir Hallgrímsson stóð að þeim á sínum tíma?

Samhliða þeirri lagasetningu, sem hér er gerð till. um, hefur ríkisstj. lýst þeirri stefnu sinni að halda gengi föstu í 3–4 mánuði, en taka jafnframt upp millifærslukerfi til styrktar atvinnuvegunum. Ég vek athygli á því, að þessi tímafrestur, sem tiltekinn er af hálfu ríkisstj. um það, hversu lengi skuli halda gengi föstu, er vitaskuld jafnframt yfirlýsing af hálfu ríkisstj. um það, hversu lengi hún telur að þessar ráðstafanir muni duga. Það eru hennar eigin orð samkv. þessu, að þessar ráðstafanir muni duga í svo sem fjóra mánuði. Það er því ekki upp fundið af stjórnarandstöðunni að hér sé um skammgóðan vermi að ræða.

Það má lesa út úr yfirlýsingu ríkisstj. sjálfrar. Nú er það vitaskuld von okkar allra að hægt sé að halda gengi sem stöðugustu. Spurningin er bara: Gengur það með þessum hætti? Er þessi aðferð líkleg til að stuðla að stöðugleika til langs tíma, t.d. þó ekki væri lítið nema til ársins í heild? Með yfirlýsingum sínum um millifærslu hefur ríkisstj. sjálf lýst því yfir, að hún vilji halda uppi fölsku gengi, því að millifærslur eru auðvitað ekki annað en fölsun á gengi. Þetta segir hún okkur, þetta segir hún þjóðinni. Þetta eru hennar eigin orð. En hvaða áhrif mun það hafa meðal þjóðarinnar að það sé vitað og víst, að hér skuli halda uppi fölsku gengi? Menn munu vitaskuld birgja sig upp af innfluttum vörum þegar tíður á þetta tímabil. Innflutningur mun aukast. Viðskiptahalli mun aukast. Erlendar skuldir munu aukast. Ég held að það sé augljóst, að þetta mun í raun og sannteika magna þann vanda sem við er að fást.

Og hvað svo? Fáum við þá stærri gengisfellingu seinna eða eigum við að fá stórkostlegra millifærslukerfi? Hver er stefnan í þessum efnum, spyr ég, að þessum fjórum mánuðum liðnum? Er það gengisfelling eða er það stóraukið millifærslukerfi? Við þessu eigum við vitaskuld að fá svör.

Annars höfum við reynslu af millifærslukerfum. Það er ekki ýkjalangt síðan hæstv. núv. forsrh. lýsti því sem einu mesta afreki viðreisnarstjórnarinnar, sem hann átti sæti í sem fjmrh., að afnema millifærslukerfið. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta er enn þá skoðun hæstv. forsrh. eða hvort hann er nú að flytja frv. og boða stefnu sem hann telur að sé röng.

Hitt er svo annað mál, að það hefur ekki fengist upplýst hvaðan peningar í millifærslurnar eigi að koma. Hér er laus endi. Alþb.-menn segja:

Úr gengismunarreikningi, þ.e. úr gjaldeyrisvarasjóðnum, eiga þessir peningar að koma. — En viðskrh. Framsfl. segir: Aldrei, aldrei, aldrei skulu þessir peningar koma þaðan. — Ég spyr: Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Sjútvrh. segir: Atvinnuvegirnir verða að borga þessa peninga til baka. Þetta er bara lán. — Alþb.- menn segja: Atvinnureksturinn á þessa peninga. Það er sjálfsagt, að hann fái þá. — Varla er hægt að lána mönnum peninga sem þeir eiga sjálfir. Ég spyr: Er það skoðun ríkisstj., að atvinnureksturinn eigi einhverja peninga sem hann geti nú fengið? Eða á millifærslan að vera gjöf frá þjóðinni til atvinnurekenda? Á að skattleggja þjóðina fyrir þessari gjöf? Eða í þriðja lagi, á þetta að vera lán eins og sjútvrh. segir? Og ef svo er, á hvaða kjörum og hvernig á að endurgreiða þetta lán? Við þessu verða vitaskuld að fást svör. Eiga atvinnurekendur þessa peninga? Á þetta að vera gjöf, sem skattlagt verður fyrir, eða á þetta að vera lán og hvernig á þá að greiða það til baka? Og þá má líka spyrja: Hver veitir lánið og hvernig fer hann að því, ef þetta verður lán? Svör við þessum spurningum skipta vitaskuld verulegu máli. Þjóðin á heimtingu á því að fá að vita hvað sé í aðsigi. Þessu má ekki leyna. Þjóðin á heimtingu á að fá að vita hvort þarna eigi að lána eða gefa.

Þótt frv. ríkisstj. sé ófullkomið er rétt að líta stuttlega á fáein atriði í því.

1. gr. fjallar um svonefnda verðstöðvun. Þessi grein breytir engu. Það hefur átt að vera í gildi verðstöðvun í landinu í heilan áratug. Eða er það svo að með því ákvæði, sem þarna er tiltekið, eigi að falla úr gildi verðstöðvun hinn 1. maí n.k. og frjáls verðmyndun að taka þá við — eða hvað á að taka við? Mér finnst að ríkisstj. ætti að gefa skýringar á því, hvað hún eigi við í þessum efnum.

Um 2. og 3. gr. er það að segja, að þær fjalla um vaxtamál: 2. gr. um að fresta verðtryggingu sparifjár og útlána um eitt ár, en markmið 3. gr. er að auka hlut verðtryggðra sparifjárreikninga í innlánsfé bankanna. Það má því segja að markmið 3. gr. stangist á við tilgang 2. gr., því að ef verðtryggðir sparifjárreikningar verða hærra hlutfall af innlánsfé bankanna, þá hljóta bankarnir að auka að sama skapi verðtryggingu útlána sinna.

Við Alþfl.- menn teljum að í stað þess að standa að málum með þessum hætti sé rétt að gera hér verulega kerfisbreytingu með tvennum hætti: Í fyrsta lagi að tryggja hag sparifjáreigenda með því að gefa þeim kost á verðtryggðum innlánsreikningum þannig að vertrygging sé á því fé sem ekki er hreyft, en hins vegar geti menn gengið að þessum reikningum hvenær sem er, innstæðan sé ekki bundin. Við höfum flutt frv. um þetta hér í þinginu, og við teljum að það sé rétt skref að taka nú í þessum efnum að innleiða reikninga af þessu tagi. Með því væri hagur sparifjáreigenda í raun og sannleika tryggður og með því mundi takast að auka verulega sparnað hér á landi.

Í annan stað er nauðsynlegt, eins og við höfum líka flutt frv. um, að komið sé til móts við sparifjáreigendur með einhlítum og öruggum hætti, ekki með loðnum og ófullkomnum yfirlýsingum, eins og ríkisstj. gerir, heldur með klárri lagasetningu sem tryggi hag sparifjáreigenda. Um þetta höfum við líka flutt frv. og teljum nauðsynlegt, að þessu máli verði fylgt fram, og óskum eftir stuðningi við þær hugmyndir okkar.

Um 7. gr. vil ég segja það, að með henni er ríkisstj. með brbl. veitt heimild til að fresta ótitteknum framkvæmdum fyrir ótiltekna upphæð þrátt fyrir ákvæði nýsamþykktra fjárlaga. Samkv. stjórnarskrá Íslands er forsendan fyrir setningu brbl. sú, að brýna nauðsyn beri til að slík lög séu sett, svo brýna að ekki gefist tóm til að taka málið fyrir á Alþingi á eðlilegum starfstíma þess. Ég held að það geti ekki talist, að ákvæði þessarar greinar samrýmist þessum forsendum fyrir útgáfu brbl. En hér er allt skilið eftir opið. Við viljum fá skýringar ríkisstj. á þessari grein. Við hvaða framkvæmdir er átt, hversu mikla fjárhæð er um að ræða, hversu mikill á þessi niðurskurður að vera? Ef svör fást við slíkum spurningum, þá er sjálfsagt að taka þau til athugunar, taka til athugunar frestun eða niðurskurð framkvæmda. En fáist engin slík svör er þessi grein fráleit og út í hött og illa viðeigandi að Alþingi veiti ríkisstj. fullt og óskorðað umboð til frestunar hvaða framkvæmda sem er í nýsamþykktum fjárlögum, án þess að nokkrar vísbendingar séu um það gefnar af ríkisstj. hvernig hún hyggist nota slíka heimild.

Að því er varðar þær greinar, sem varða vísitölumál og þess háttar, vil ég sérstaklega ítreka að við Alþfl.- menn höfum lagt ríka áherslu á að í sérhverjum efnahagsráðstöfunum verði þess gætt, að kaupmáttur launafólks, einkum hinna lægst launuðu, sé tryggður með skattalækkunum. Launamál og skattamál ber því að skoða í samhengi. Um þessi mál höfum við Alþfl.- menn ítrekað flutt tillögur. Þær yfirlýsingar, sem ríkisstj. hefur gefið um þessi mál, eru loðnar og ófullkomnar. Þess vegna teljum við eðlilegt að lagaákvæðum um skattamál verði þegar komið fram og að um leið og fjallað er um launamál með þessum hætti fylgi því lagasetning um skattalækkanir sem tryggi kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna. Það er alger forsenda fyrir því, að hægt sé að fjalla um mál af þessu tagi. En það er ekki úr vegi að benda jafnframt á að með afnámi á viðmiðun við viðskiptakjör er verið að stíga spor aftur á bak, — spor sem gerir alla hagstjórn mun erfiðari en ella. Allir sanngjarnir menn skilja að þjóðarhagur ræður úrslitum um getu þjóðarbúsins. Á þennan skilning heggur ríkisstj. nú með frv. sínu til laga.

Að því er varðar þau takmörkuðu atriði, sem beinlínis felast í þessu lagafrv., vil ég benda á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi teljum við Alþfl.-menn að taka eigi upp nýja innlánsreikninga með verðtryggingu, en án bindingar.

Í öðru lagi teljum við að koma eigi nú þegar til móts við húsbyggjendur með tvennum hætti og með skýrum hætti. Í fyrsta lagi þannig, að tekin verði upp viðbótarlán til íbúðabygginga og íbúðarkaupa hjá bankakerfinu er beri fulla verðtryggingu, en 2– 3% ársvexti. Lán þessi verði veitt til 15 ára og nemi helmingi þeirra lána er lánþegar eiga kost á frá Húsnæðisstofnun ríkisins. Og í annan stað, að það verði skýrt ákveðið í lögum, að lánahlutfall hjá Húsnæðisstofnun skuli ákvarðast ekki lægra en 35% af áætluðum byggingarkostnaði þeirrar staðalíbúðar sem gildir sem viðmiðun fyrir hlutaðeigandi umsækjanda, miðað við fjölskyldustærð. Með þessum hætti væri komið raunverulega til móts við húsbyggjendur.

Í þriðja lagi teljum við nauðsynlegt að lögfesta þegar skattalækkanir sem verji sérstaklega hag þeirra sem búa við lök kjör. Slíka enda á ekki að skilja eftir lausa. Við munum flytja brtt. í þessa átt.

Með þessum breytingum yrðu verstu agnúarnir sniðnir af þessu lagafrv., og teljum við rétt að freista þess. En þetta eitt mun þó ekki hrökkva til að ná þeim árangri sem nauðsynlegur er. Það, sem til þarf, er ný og breytt efnahagsstefna sem í senn leggi grundvöllinn að nýrri framfarasókn til aukinna lífsgæða og rjúfi jafnframt þann verðbólguvítahring sem landsmenn eru staddir í. Við viljum að þessi gerbreytta efnahagsstefna nái til atvinnumála og til ríkisfjármála og spanni ýmsar kerfisbreytingar.

Ef við lítum fyrst á atvinnumálin og það sem nauðsynlegt er að gera í þeim efnum, það sem nauðsynlegt er í nýrri atvinnustefnu sem miði að því að treysta lífskjörin, þá er fyrst til að taka að nauðsyn ber til þess að hefjast þegar handa um að nýta orku fallvatna og jarðhita til þess að stuðla að eflingu atvinnulífsins, aukningu þjóðartekna og betri lífskjörum. Það verður að undirbúa sérstakt átak í virkjunarmálum og hefja þegar í stað skipulagða vinnu að því að reisa í landinu orkufrekan iðnað sem er líklegur til þess að skila þjóðarbúinu auknum verðmætum, styrkja atvinnulífið og skapa fleiri störf. Við höfum þegar lagt fram frv. eða till. um þetta efni hér á Alþingi, en við munum fylgja því enn frekar eftir.

Ef við lítum á næstu atvinnugrein, landbúnaðinn, þá hefur Alþfl. bent á það löngum að hverfa yrði frá arðlausri fjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði sem m.a. hefur valdið offramleiðslu og rýrt þannig lífskjör þjóðarheildarinnar. En jafnframt þessu viljum við styðja bændur til að hverfa að nýrri og hagkvæmari búgreinum eða til þess að hætta hefðbundnum búskap og hverfa að öðrum störfum. Í þessu sambandi höfum við m.a. flutt till. varðandi fiskrækt í ám og vötnum og um tilraunir með ræktun sjávarfiska. Við höfum lagt fram frv. um þetta efni, og við afgreiðslu síðustu fjárlaga lögðum við fram ítarlegar till. um hvernig ætti að beita fjárframlögum úr ríkissjóði til þess að hverfa frá arðlausri offjárfestingu, en nota peningana til þess að styðja bændur til að taka upp nýjar búgreinar eða til að hætta búskap ef þeir svo kjósa. Þetta er það sem þarf að gerast í landbúnaðarmálum.

Ef við lítum á sjávarútveginn, þá höfum við eindregið varað við þeirri þróun í sjávarútvegi, aðalundirstöðuatvinnuvegi landsmanna, sem lýsir sér í því, að stöðugt sé verið að stækka fiskiskipastólinn á sama tíma og beita verður auknum boðum og bönnum og meiri skömmtunum við veiðiskapinn, með þeim afleiðingum að afli á veiðiskip fer minnkandi og afkoma sjómanna, útgerðar og reyndar þjóðarinnar allrar er rýrð. Það er vegna þessa sem við höfum bent á að frekari innflutning fiskiskipa eigi ekki að leyfa nú um sinn, og við höfum lagt áherslu á að verulegum fjármunum eigi að verja til að taka gömul og óhagkvæm skip úr rekstri án þess að ný séu keypt í þeirra stað.

Ef við lítum á málefni fiskvinnslunnar, þá þarf að stuðla þar að aukinni tæknivæðingu og almennri hagræðingu. Að þessu var unnið á árinu 1979 og þá tókst að auka fjárfestingu í fiskvinnslunni mjög verulega eða um 10% að magni til. Sú fjárfesting var fyrst og fremst í bættum aðbúnaði verkafólks, í tækniframförum og í hagræðingu.

Á árinu 1980 snerist þróunin við í þessum efnum. En það er mikilvægt að framfarasókn sé í fiskvinnslunni, því að við þurfum að búa við sífellt harðari samkeppni af hálfu annarra fiskveiðiþjóða, svo sem Kanadamanna. Í framförum í fiskvinnslunni, aukinni hagræðingu og tæknivæðingu þar og bættum aðbúnaði verkafólks, felst möguleiki til mikils hagvaxtar.

Sé lítið á stöðu iðnaðarins, þá hefur þeirri stefnu verið fylgt að undanförnu að lappa upp á stöðu hans með jöfnunargjöldum og fleiri gjöldum af slíku tagi. En meginatriðið er auðvitað að búa iðnaðinum sömu aðstöðu og öðrum atvinnugreinum, búa vel að honum á lánamarkaði og að því er varðar tollamál og skattamál. Það á að styrkja samkeppnisstöðu iðnaðarins með því t.d. að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts, þannig að skattalega standi íslenskur iðnaður jafnfætis samkeppnisiðnaði í öðrum löndum, og með því að búa iðnaðinum sömu aðstöðu á lánamarkaði og öðrum atvinnugreinum.

Ef við lítum á fimmtu atvinnugreinina, verslun og þjónustu, þá liggur ljóst fyrir að verðlagskerfið er ónýtt. Almennt verðlag verður ekki ákveðið með handauppréttingum úti í bæ eins og nú er tíðkað. Verðstöðvun leysir ekki vandann. Við þurfum að fá nýtt verðlagskerfi. Sumt má gefa frjálst að því er verðlagningu varðar, en um annað gildir að kerfisbreytingar er þörf. Það þarf nýja hugsun sem tekur mið af því að stuðla að hagkvæmni í rekstri, hvort heldur er í verslun eða þjónustu.

Í skattamálunum í heild er þörf verulegrar kerfisbreytingar. Við teljum að tekjuskatt eigi að afnema af almennum launatekjum þannig að ekki verði greiddur tekjuskattur af almennum meðaltekjum verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna, eins og þær eru samkv. opinberum skýrslum. Við höfum lagt fram frv. um þetta. Jafnframt væri æskilegt að sameina sjúkratryggingagjaldið í núverandi mynd tekjuskattinum og taka upp staðgreiðslukerfi allra skatta. Við erum sannfærðir um að það skattlagningarkerfi, sem hér gildir, hefur stuðlað að aukinni verðbólguþróun. En með staðgreiðslukerfinu mætti sporna gegn verðbólguþróun hér á landi. Sú óvissa, sem menn búa við um skattlagningu sína samkv. gildandi kerfi í þeim sveiflum sem hér ríkja, er vís til þess að stuðla að enn þá frekari óstöðugleika í efnahagslífinu og enn meiri verðbólgu.

Ég hef áður minnst á það, að söluskatt ætti að afnema í núverandi mynd og taka upp virðisaukaskatt í staðinn, þó ekki væri nema vegna hagsmuna iðnaðarins. En fleira kemur til. Söluskattskerfi okkar er orðið stórgötótt og stórgallað. Við höfum flutt frv. um það, að virðisaukaskattur verði tekinn upp í stað söluskatts, og við munum fylgja þeirri stefnu áfram eftir. En þriðja kerfisbreytingin, sem ég vil sérstaklega minna á í sambandi við fjárheimtu ríkisins, varðar tolla- og aðflutningsgjaldakerfið. Í þeim efnum ríkir mjög flókið kerfi. Þar gætir mikillar mismununar milli álagningar á einstaka vöruflokka, auk þess sem kerfið er tyrfið og óeðlilega flókið. Þetta kerfi verður að stokka upp. Það er nauðsyn vegna iðnaðarins og til þess að stuðla að eðlilegri iðnþróun í landinu, en það er líka nauðsynlegt til þess að ná eðlilegra samræmi um verðlagningu á ýmsum vörum hér á landi.

Ég hef áður minnst stuttlega á hugmyndir okkar í vaxta- og lánamálum. Ég minntist á nauðsyn þess, að tekinn yrði upp nýr útlánaflokkur til húsbyggjenda til viðbótar við lán húsnæðismálastjórnar, þannig að við fikruðum okkur út úr því villimannlega kerfi sem hér gildir nú að því er húsbyggjendur varðar. Vitaskuld eiga lántakendur að endurgreiða lán sín í sömu verðmætum og lánin eru tekin. Þannig eigum við að framfylgja raunvaxtastefnu. En jafnframt — og það er ekki síður mikilvægt — verður að lengja lánstíma og draga þannig úr greiðslubyrðinni. Það atriði hefur verið gersamlega vanrækt af núv. ríkisstj. Verðtryggingarstefna af þessu tagi, þar sem lánin eru jafnframt lengd og greiðslubyrðin jöfnuð, er líkleg til þess að stuðla að því, — að efnahagslífið komist á heilbrigðari grundvöll, og þess er sannarlega þörf.

Ég minntist á það, að feikilegt misrétti ríkti í húsbyggingamálum, í aðstöðu fólks til þess að koma þaki yfir höfuðið. En á sama hátt blasir við óviðunandi misrétti í lífeyrismálum, misrétti sem þegar verður að takast á við. Við getum ekki vænst þess, að á meðan misrétti af þessu tagi — hvort heldur er í húsnæðismálum eða lífeyrismálum — er ríkjandi hér á landi, að almennur skilningur verði á því að koma efnahagslífinu á þann heilbrigða grundvöll sem nauðsyn ber til.

Að lokum vil ég minnast sérstaklega á ríkisfjármál og peningamálastjórn. Í ríkisfjármálunum þarf að draga úr þeirri sjálfvirkni sem í gildi hefur verið. Það þarf að markmiðsprófa útgjöld ríkisins. Hver sá sem skoðar fjárlög ríkisins kemst að raun um það, að þar eru veitt framlög til ýmissa þátta sem voru góðra gjalda verðir á sínum tíma, en eru orðnir úrettir. Hvern einstakan fjárlagaþátt á að markmiðsprófa og draga þannig úr sjálfvirkninni.

Í annan stað er það forsenda fyrir árangri í efnahagsmálum, árangri í þá átt að draga úr verðbólgunni og koma hér á eðlilegra efnahagslífi, að ríkið sjálft gangi á undan, að ríkið sjálft sýni aðhald hjá sér áður en það biður aðra um það. Það er röng stefna að hækka verðlag á allri opinberri þjónustu um 10% á sama tíma og beðið er um 7% launaskerðingu hjá öðrum.

Varðandi peningamálin er ástæða til þess að hafa sérstakar áhyggjur vegna þeirrar stefnuboðunar sem fram hefur komið hjá ríkisstj. Það er augljóst, að eigi að ná árangri í efnahagsmálum verður að gæta verulegs aðhalds í peningamálum. Það verður að gæta þess, að peningamagn í umferð vaxi ekki úr hófi fram. Þau tæki, sem menn hafa fyrst og fremst í þeim efnum, eru afgangur í ríkisbúskapnum, að sjá til þess að viðskiptajöfnuður sé jákvæður og að beita bindingu í Seðlabankanum. Ekkert það hefur komið fram í málflutningi eða stefnuboðun ríkisstj. sem bendir til að þessum tækjum verði beitt. Það sem meira er, fjárlögin og það sem sést hefur í lánsfjáráætlunina bendir til þess, að stefnt verði allt of hátt í þessum efnum og einmitt það muni draga úr þeim árangri sem annars væri hugsanlega hægt að ná.

Við Alþfl.-menn leggjum sérstaka áherslu á að samhliða öðrum aðgerðum í efnahagsmálum verði gert átak í atvinnumátum sem miðist við að hagnýta skynsamlega allar auðlindir landsins. Við viljum gera þetta með stórátaki á sviði virkjunarmála og með orkufrekum iðnaði. Við viljum gera þetta með breyttri stefnu í landbúnaðarmálum, með breyttri stefnu í útgerðarmálum og að því er varðar fiskvinnsluna og með breyttri stefnu að því er varðar aðstöðu iðnaðarins til framþróunar hér á landi. Með slíkri alhliða stefnumörkun, gerbreyttri stefnu á sviði atvinnumála, sem tengist nýrri stefnu í ríkisfjármálum, lánamálum og vísitölumálum, teljum við að takast megi á við verðbólguvandann og þær meinsemdir sem þjá efnahagslíf þjóðarinnar. En það mun aðeins gerast með slíkri alhliða stefnumörkun, stefnumörkun sem felur í sér ekki bara nýja stefnu, heldur líka breyttar aðferðir og ný markmið. Með þeim hætti má vænta þess, að brjótast megi úr þeim vítahring sem íslenskt efnahagslíf er nú statt í, tryggja fulla atvinnu í landinu og meiri starfsmöguleika og nýja sókn til bættra lífskjara. En aðeins með því að ríkisstj. hafi frumkvæði um mótun slíkrar alhliða stefnu má gera sér vonir um að tímabundnar fórnir launafólks í baráttunni við verðbólguna skili einhverjum árangri. Það er margsýnt og sannað, að einhliða aðgerðir á launamálasviðinu skila engum árangri þegar til lengdar lætur. Slík aðgerð, ef aðgerð má kalla, skilar aðeins árangri um skamma hríð, enda ekki við öðru að búast þegar aðeins er reynt að róa með þeirri einu ár af öllum þeim sem tiltækar eru. Til þess að aðgerð á launamátasviðinu geti hjálpað til við að ná varanlegum árangri verður ríkisvaldið að sinna öllum öðrum þáttum efnahagslífsins sem það hefur tök á. Það gildir jöfnum höndum um atvinnumál, skattamál, peningamál og ríkisfjármál. Ríkisvaldið verður að gefa fordæmi með því að leggja sitt af mörkum og láta það sjást svart á hvítu. Ríkið á að ganga á undan í því að sýna aðhald hjá sér, en ekki öfugt eins og nú er tíðkað.

Ef ríkisstj. væri reiðubúin til að halda á málum með þessum hætti, þá værum við Alþfl.-menn reiðubúnir til að skoða þær fyrirætlanir af velvilja og með jákvæðu hugarfari og styðja þær aðgerðir, enda sé þá ljóst að þær muni skila raunverulegum árangri. En án slíkrar stefnumörkunar og án undirtekta við þessar hugmyndir Alþfl. teljum við ljóst í ljósi reynslunnar að þær einhliða aðgerðir, sem hér er gerð till. um, einhliða kauplækkun með lögum, muni ekki skila árangri þegar til lengdar lætur í baráttunni við verðbólguna. Sú fórn, sem launafólki er þannig ætlað að færa, mun verða unnin fyrir gýg. Till. ríkisstj., eins og þær liggja fyrir, eru því miður tilgangslausar og valda vonbrigðum. Það er verið að gefa landsmönnum falskar vonir um að fórn þeirra sé einhvers virði, en það mun reynast rangt. Slíkar aðgerðir getum við Alþfl.-menn vitaskuld ekki stutt. Við erum andvígir þessum brbl., eins og þau eru úr garði gerð, og munum greiða atkv. gegn þeim eins og þau liggja fyrir.

Ég vil að lokum láta í ljós þá von mína, að áður en árið er liðið megi þjóðin fá að sjá þau nýju tök sem nauðsynleg eru, bæði að því er varðar atvinnumál og efnahagsmátin að öðru leyti, — þau gerbreyttu vinnubrögð sem eru nauðsynleg til þess að við komumst úr þeim vítahring 50 – 60% verðbólgu sem hér hefur verið að undanförnu.