02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2031 í B-deild Alþingistíðinda. (2255)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Áður en hlé var gert á störfum Alþingis vegna jólanna gerðu þm. stjórnarandstöðunnar ítrekaðar tilraunir til að fá fram upplýsingar um hvaða ráðstafanir væru fyrirhugaðar af hálfu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum og þá einnig í sambandi við fyrirhugaða gjaldmiðilsbreytingu. Það var dálítið einkennilegt fyrir reynslulítinn þm. að vera vitni að þeirri lítilsvirðingu sem stjórnarandstöðunni var sýnd þegar um svo alvarleg mál var fjallað hér á hv. Alþingi. Það er ekki örgrannt að stundum falli hæstv. ráðherrar ríkisstj, í þá gryfju að meðhöndla hv. þm. stjórnarandstöðunnar eins og þeir séu óþæg börn, þeirra skoðanir dæmdar léttvægar og einskis virði, og til að losna við óþægindin af návist þeirra er gripið til þess ráðs að senda alla þingmenn heim til að veita ríkisstj. starfsfrið sem hún notar til að setja brbl. þegar nægur tími hefði verið til að afgreiða þessi mál með eðlilegum hætti.

Ég sagði áðan að ég hefði ekki mikla reynslu í störfum sem þm., enda aðeins setið á einu þingi, og margt á ég ólært. En það hefur á stundum hvarflað að mér, hvort ekki mætti ná meiri árangri í lausn þeirra mála, sem hrjá íslenskt efnahags- og atvinnulíf, ef meira tillit væri tekið til málflutnings þeirra sem tilheyra svokallaðri stjórnarandstöðu.

Á gamlársdag flutti hæstv. forsrh. landsmönnum boðskap hæstv. ríkisstj. og hóf ræðu sína á orðum Einars skálds Benediktssonar: „Vilji er allt sem þarf.“ Rétt er það, að illa mun ganga að framkvæma hlutina ef viljinn er ekki fyrir hendi. Hæstv. forsrh. nefndi einn þátt þjóðmála þar sem einingu viljans hefði skort við lausn mála, þ.e. verðbólgunnar. Hann upplýsti okkur um að hæstv. ríkisstj. vilji nú sýna viljann í verki, gera tilraun til að draga úr verðþenslu og veita henni viðnám, og hét á alla landsmenn til liðsinnis.

Það var heldur lítið gert úr því á sínum tíma þegar formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, var með umboð til að reyna stjórnarmyndun og vildi gera tilraun til að mynda þjóðstjórn sem sæti um takmarkaðan tíma meðan gerðar væru ráðstafanir gegn verðbólgu. Þá hafði hann í huga að slíkar ráðstafanir yrðu best tryggðar með samstöðu allra flokka og þar með allra landsmanna. Þessar hugmyndir voru afgreiddar með því að þær væru ekki raunhæfar og ættu engan hljómgrunn. Það er því vissulega gleðiefni nú, að hæstv. forsrh. hefur með áramótaávarpi sínu staðfest það, að eigi að takast að ná árangri í viðnámi gegn verðbólgu þurfi allir landsmenn að sameinast — og eru þá væntanlega ekki undanskildir þeir landsmenn sem sitja á hv. Alþingi og tilheyra svokallaðri stjórnarandstöðu. Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að nú hafi orðið hugarfarsbreyting hjá hæstv. ríkisstj. og að tillögur stjórnarandstöðunnar verði ekki fyrir fram dæmdar ómerkar og einskis nýtar þegar farið verður að ræða frv. í nefnd þeirri sem fær það til umfjöllunar í hv. Ed.

Ég ætla ekki að fjalla hér um einstakar greinar frv., aðeins nefna nokkur atriði. Þar er að finna atriði, sem Sjálfstfl. hefur lagt áherslu á að beita þurfi í baráttu gegn verðbólgu, t.d. að draga úr víxlverkun verðlags og launa og að stöðva gengissig. Önnur atriði ganga þvert á okkar skoðanir, eins og t.d. að taka á nú upp millifærslukerfi sem er löngu gengið sér til húðar.

Þá vil ég gera aths. við þá grein sem fjallar um verðstöðvun. Hún er algerlega út í hött — markleysa. Svokölluð verðstöðvun hefur verið í gildi árum saman og allir þekkja árangur hennar. Þetta er því rangnefni og þýðir ekki annað en það, að ríkisvaldið úthlutar leyfum til verðhækkunar eftir eigin geðþótta.

Eitt atriði í frv. fer þó ekki á milli mála og það er um kaupskerðinguna. Það vekur athygli nú, að málsvarar ríkisstj. í verkalýðsforustunni viðurkenna opinberlega að til að ná árangri í baráttu gegn verðbólgu sé nauðsynlegt að skerða vísitölu á laun. Athyglisverðara er þó að varla var blekið þornað á pappírnum við undirskrift nýgerðra kjarasamninga þegar þeir voru ógiltir með þessari vísitöluskerðingu. Varðandi vísitöluskerðinguna vantar hins vegar mikið á að hagur hinna verst settu verði tryggður. Það kemur t.d. ekki fram hvernig eða yfirleitt hvort tryggja eigi lífeyri almannatrygginga gegn þessari vísitöluskerðingu. Þar hefði mátt taka til fyrirmyndar ákvæði febrúarlaganna frá 1978. Í þeim voru slík atriði skilgreind nákvæmlega. Það er að vísu talað um skattalækkun, en skattalækkun skv. fjárlögum 1981 felur ekki í sér skattalækkun nú, heldur þvert á móti.

Það fer ekki heldur hjá því að nokkurra efasemda gæti um árangur þessara brbl., ekki síst þegar haft er í huga að þetta eru skammtímaráðstafanir sem þurfa framhaldsaðgerðir sem ekki liggja fyrir og ekki er vitað hvort verða gerðar fyrir þinglok eða hvort enn á ný eigi að setja brbl. eftir að þingheimur hefur þá verið sendur heim. Þá hefur komið fram að ekki er samstaða innan hæstv. ríkisstj., og er það varla til að auka traust almennings á þessum aðgerðum. Sumir hæstv. ráðh. tala um 40% verðbólgu, aðrir tala um að engin goðgá sé þó hún verði 50%. Óneitanlega kemur upp í hugann árangur niðurtalningarinnar sem stefnt skyldi að. Ef ég man rétt átti að telja hana niður í áföngum, en eitthvað hafa teljararnir ruglast í ríminu því að í staðinn fyrir að telja niður er engu líkara en þeir hafi talið upp.

Herra forseti. Ef það er rétt, að vilji sé allt sem þarf til að ráðast gegn verðbólgu, er vandinn auðleystur. Auðvitað gerist ekkert án viljans. En það þarf að framkvæma þann vilja. Við, sem erum í stjórnarandstöðu og tilheyrum þingflokki Sjálfstfl., höfum einmitt þennan vilja og það í ríkum mæli. En það eru atriði í þessum brbl. sem við teljum nauðsynlegt að gera breytingar á til þess að árangur náist. Og nú reynir á hvort vilji er fyrir hendi innan hæstv. ríkisstj. á breiðari samstöðu um efnahagsráðstafanir. Við höldum í vonina þar til annað kemur í ljós.