02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2033 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Efnahagsmál eru oftast aðalumræðuefni manna hér á Alþingi. Við Íslendingar eigum við mikil vandamál að stríða ekki síður en aðrar þjóðir, en okkar vandamál eru því marki brennd að þau eru heimatilbúin. Verðbólga er hér margfalt meiri en annars staðar og kaupgjald eða kaupmáttur er minni en í nágrannalöndunum. Fyrir almenning í landinu lítur efnahagsumræðan út eins og sandkassaleikur lítilla barna. Það er því ekki að ófyrirsynju að fólk er áhugalítið um framgang efnahagsmála þessa stundina.

Allir stjórnmálaflokkar hafa hrópað hátt um aðgerðir, eitthvað verði að gera. Til skamms tíma var það þó svo, að einn stjórnmálaflokkanna, Alþb., taldi engra aðgerða þörf, hér væri í raun allt í stakasta lagi. Það minnti á þau sannindi, að kaupið eitt væri ekki verðbólguvandamál, leita þyrfti uppi braskarana, afætulýðinn og minnka milliliðagróða. Jafnframt þyrfti að auka framleiðni atvinnuveganna. Allt var þetta trúverðugt út af fyrir sig. Allir erum við sammála um að auka framleiðni, en deilt er um á hvern hátt það verði gert. Helst mætti halda af málflutningi Alþb. að nóg væri að gera einfalda samþykkt um 7% framleiðniaukningu, þá væri málið leyst.

Ástæðulaust er að fara mörgum orðum um orðaval þeirra austrænu umskiptinga sem nú sitja í ylvolgum ráðherrastólum. Þeir hafa gleymt fyrri fullyrðingum, þeir hafa horfið á vit þeirra íhaldsúrræða sem þeir áður fordæmdu hvað harðast. Það er þó verst, að nú eru þeir kaþólskari en páfinn, nú er gengið harðar til verks. Nú eru sett brbl. um hreina kauplækkun. Nú er ekki rætt í atvöru um framleiðniaukningu, en talan 7 er enn á sveimi. Nú eru sett lög um hreina 7% kauplækkun. Þessi tala er ríkisstjórnarmönnum jafnheilög og gerist í helgum ritum. Þessi tala bendir til þess, að það hafi verið Alþb. sem hafi ákveðið prósentutöluna, það séu þeir sem frumkvæðið höfðu um þá kauplækkun sem nú er boðuð.

Það er ekkert nýtt, að efnahagsaðgerðir þurfi að gera.

Við Alþfl.-menn höfum mjög barist fyrir heilbrigðara efnahagslífi. Við höfum boðað aðgerðir til langs tíma. Við höfum ætíð látið það fylgja, að slíkar aðgerðir mætti ekki gera nema að höfðu samráði við launþegasamtökin og að tryggja þurfi afkomu láglaunafólks. Við höfum bent á að vísitalan sem einangrað fyrirbrigði væri ekki heilagt vé, kaupmátturinn skipti mestu máli.

Sjálfur hef ég margoft haldið því fram innan verkalýðssamtakanna, að það væri'skynsamlegt af verkalýðshreyfingunni að taka þátt í baráttunni gegn verðbólgu. Væri það ekki gert gripu óvandaðir valdsmenn í taumana með illum afleiðingum fyrir launafólk. Ég hef sagt að skynsamlegt gæti verið að fórna peði fyrir mann í taflinu um lífskjörin. Ég hef jafnframt sagt að engu ætti að fórna ef ekki væri fyrirsjáanleg betri framtíð.

Nú er málum svo háttað, að nýlega hafa verið sett brbl. sem eru því marki brennd, að launþegum er gert að fórna ekki peði, heldur góðum liðsmanni, og fyrir þá fórn fæst ekkert sjáanlegt, ekkert áþreifanlegt. Verði boðuð fyrirheit að veruleika er kannske von á peði, en varla það.

Það vekur athygli mína, hve efnahagslög þessi eru keimlík efnahagslögunum frá 1978. Þau lög settu þeir Gunnar og Geir og þótti ekki fyrirmyndarsmíð. Þó er skylt að geta þess, að maílögin voru miklu skárri en febrúarlögin, en vegna þrýstings launafólks var þáv. ríkisstj. knúin til breytinga á fyrri lögum. Bæði nú og þá var um kauplækkun að ræða eða skerðingu á vísitölunni. Í maílögunum voru vísitölubætur á lægstu laun þó ekki skertar, nú er eitt látið yfir alla ganga. Þá voru bætur almannatrygginga hækkaðar, heimilisuppbætur hækkuðu umfram vísitöluhækkun, barnabætur hækkuðu, vörugjald var lækkað um 2% frá 15. febr. til ársloka.

Nú eru vissulega ýmis fyrirheit gefin, en vandséð er hvort þau verða nokkru sinni efnd. Boðuð er mikil skattahækkun samkv. fjárlögum. Nú er því heitið, að einhver hluti launþega fái 11/2% lækkun þessara skatta. Auðvitað verður skattbyrði láglaunafólks þyngri í ár en í fyrra þrátt fyrir þessi fyrirheit um 1.5% lækkun eftir boðaða skattahækkun. Ekki er enn vitað hvernig staðið verður að skattalækkun eða hvort það verður gert.

Þá er því heitið, að viðskiptakjaraviðmiðun í vísitölu verði látin niður falla. Í lögum er kveðið á um það, að launafólk skuti njóta viðskiptakjarabata. Mjög er röksemdafærsla ríkisstj. undarleg hvað snertir viðskiptakjaraviðmiðunina. Því er einmitt haldið fram, reyndar eru það forsendur efnahagslaganna, að viðskiptakjörin batni. Verði það að veruleika er mjög hæpið fyrir launþega að sleppa viðskiptakjaraviðmiðuninni.

Einn þáttur í efnahagsáætlunum ríkisstj. er verðstöðvun. Slík verðstöðvun hefur verið s.l. 10 ár. Verðstöðvun var í gildi og því er vandséð hvernig ný verðstöðvun verkar. Verðlagsráð hefur óskað eftir skýringum, en ráðh. kunni engin skil á þessari nýju samþykkt. Hæstv. viðskrh. hefur reyndar hvað eftir annað lýst sig andvígan verðstöðvun svo að ekki er undarlegt að honum verði svarafátt. Það er reyndar komið í ljós, að þessi verðstöðvun þýðir ekkert nýtt, þó aðeins það, að viðurkennt er með nýrri verðstöðvun að ríkisstj. hafi gersamlega mistekist að framkvæma fyrri verðstöðvun. 1 dag talar almenningur um verðstöðvun sem meiri háttar grín. Ekki er það furða, því að daglega lýsa fjölmiðlar stórfelldum verðhækkunum á hvers kyns nauðsynjavörum.

Þá vekur það athygli, að því er haldið fram, að þessar aðgerðir eigi að lækka verðbólguna í um 40% á árinu 1981. Þjóðhagsstofnun segir verðbólguna fara í 50%. Einstakir ráðherrar telja það kraftaverk ef takist að koma verðbólgunni niður með þessum ráðstöfunum. Ríkisstj. tók við um 50% verðbólgu, svo að lítils gildar eru ráðstafanir sem einungis viðhalda óbreyttu ástandi. Þessir herrar hræða fólk með 70% verðbólgu, ef ekkert verði að gert. Þetta eru sömu mennirnir sem lögðu blessun sína yfir nýgerða kjarasamninga. Þeir áttu meira að segja hlutdeild í kjarasamningum, a.m.k. hvað BSRB snertir. Það er ömurlegur tvískinnungur, sem felst í því að standa að slíkum hlutum, en sjá svo það ráð eitt að hrifsa allt til baka. 10 mánaða samningaþóf hefur því verið til einskis og meira en það.

Í nýgerðum kjarasamningum lögðum við Alþfl.-menn áherslu á að skattalækkanir væru vænlegri leið til kjarabóta en krónutöluhækkanir. Þessi afstaða mætti skilningi í verkalýðsfélögunum og var knúið á um slíkar aðgerðir. Ríkisvaldið var ekki reiðbúið til slíkra aðgerða þá, en auðvitað má segja að batnandi manni sé best að lifa. En ríkisvaldið hafði gengið á undan með krónutöluhækkanir. Var því staða til slíkrar útgöngu í samningagerðinni gerð ómöguleg, en vissulega hefði það verið heiðarlegra af ríkisstj. að leysa vandann á vinnumarkaðinum þannig en að koma aftan að fólki eins og nú er gert.

Viðbrögð almannasamtaka, sem rætt hafa þessar aðgerðir, eru yfirleitt á einn veg. Alþýðusambandið fordæmir þær og bendir á að með aðgerðunum sé gengið þvert á mikilvæg samningsákvæði. Þá segir í ályktun Alþýðusambandsins, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið hefur allan fyrirvara á um þessar ráðstafanir stjórnvalda og áskilur sér fyllsta rétt til nauðsynlegra aðgerða til þess að tryggja umsaminn kaupmátt. Samtökin ítreka að jafnmikilvægt og það er að draga úr verðbólgunni er nauðsynlegt að sjá svo um, að atvinnuöryggi og kaupmætti fólks með meðaltekjur og lægri verði ekki fórnað.

Miðstjórn ASÍ leggur á það höfuðáherslu, að staðið verði við þá yfirlýsingu, að kaupmáttur haldist óskertur, og er ljóst að til þess að ná þeim árangri í þróun verðlagsmála, sem að er stefnt, verði fleira að koma til en ákvarðanir varðandi launa- og gengismál, sem þegar hafa verið teknar.“

Þessi ályktun gefur vissulega til kynna að veruleg tortryggni er hér á ferðinni. Miðstjórnarmönnum er nefnilega ljóst að þegar vora tekur er líklegt að kjaraskerðingarpostularnir fari aftur á kreik. Þessar efnahagsaðgerðir eru því ótrúverðugar, og það liggur í loftinu að meiri kjaraskerðing sé fyrirhuguð. Framsóknarmenn í ríkisstj. láta óspart í ljós að áfram verði að halda í kjaraskerðingarátt megi þeir við una. Alþb. -menn þverneita. En eftir stendur launafólk og bíður þess sem verða skal.

Ekki er það til að bæta umræðurnar og auka vonir manna um að staðið verði við fyrirheit um hliðarráðstafanir samhliða settum brbl., að einn ráðh., hæstv. félmrh., hefur mjög skrifað um innræti og sálarlíf hæstv. forsrh. Í Þjóðviljann skrifaði hann einmitt, með leyfi forseta: „Það hefur aldrei verið hans sterka hlið að standa við gefin loforð.“

Stjórn BSRB hefur sent frá sér harðorða ályktun og segir þar, með leyfi forseta:

„Stjórn BSRB mótmælir harðlega þeim ákvæðum í nýsettum brbl. ríkisstj., sem fela í sér 7% kjaraskerðingu 1. mars n.k. og riftun þeirra kjarasamninga sem undirritaðir voru í ágúst s.l. Síðan kjarasamningar voru gerðir í ágúst hafa engar forsendur breyst nema hvað laun annarra hafa hækkað meir en laun félagsmanna BSRB.

Kjaradómur hefur í dag hækkað laun alþm. um rúm 16% frá 1. maí 1980 og síðan hækkað í rúmlega 23% frá 1. des. s.l. og laun háskólamanna um 5–6% frá 1. des.

Samningar BSRB voru innan þess ramma, sem meira að segja stjórnvöld töldu þjóðfélagið þola. Að dómi stjórnar BSRB er með brbl. vegið þannig að frjálsum samningsrétti samtaka launafólks, að valda hlýtur stórtjóni fyrir launamenn og áhættu fyrir þjóðfélagið. þegar lítið er til framtíðarinnar. Ekkert nema neyðarástand getur verið forsenda fyrir því að rjúfa gerða samninga með lögum. Því skorar stjórn BSRB á Alþingi að fella ákvæði brbl. um skerðingu verðbóta á laun.“

Að öðru leyti er fjallað í þessari ályktun um innanfélagsmál BSRB.

Vinnuveitendur sendu frá sér ályktun sem vænta mátti. Þar benda þeir á að kjarasamningar hefðu í raun verið óþarfir, brbl. taki mestalla kauphækkunina til baka.

Einn aðili fagnar þessum aðgerðum sérstaklega og er það Verslunarráð Ístands. Það vekur sérstaka athygli, að það hælir Alþb. fyrir að eyða áhrifum gerðra kjarasamninga. Það bendir reyndar á að engir fjármunir séu til í millifærsluleið og að markmiðið með hjöðnun verbólgu náist ekki.

Það vekur sérstaka athygli mína, að samráð við verkalýðshreyfinguna um efnahagsaðgerðir hefur ekkert verið. Alþýðusamtökin voru gersamlega hundsuð. Við þá aðila var ekkert talað. Þegar aðgerðirnar 1978 voru á döfinni var mjög um það rætt, að gersamlega væri óviðunandi að leita ekki samráðs við aðila vinnumarkaðarins um svo þýðingarmikil mál. Á það var bent, að kjarasamningar væru nýgerðir og það með ríkisvaldið sem ábyrgðaraðila. Mátglaðir ráðherrar létu hafa eftir sér að þeir kjarasamningar, sem þá voru gerðir, væru innan þess ramma sem efnahagskerfið þyldi. Þá var málum eins komið og í dag, kjarasamningar nýgerðir og ríkisvaldið fullyrti að allt hefði verið gert innan þess ramma er efnahagskerfið þyldi.

Samráð var eitt þeirra atriða sem verkalýðshreyfingin setti mjög framarlega á kröfulista sinn. Verkalýðshreyfingin hefur margsinnis tjáð vilja sinn til samráðs, bent á ókosti verðbólgunnar og látið í ljós vilja til samvinnu um að ráða bót á vandanum. Verkalýðshreyfingin hefur gert sér ljóst að víxlgengi kaupgjalds og verðlags er stór þáttur í erfiðleikunum, stór þáttur í þeim sandkassaleik sem ráðamenn hafa ástundað við mótun stefnu í efnahagsmálum.

Þegar Alþfl. vann sinn stærsta sigur enn sem komið er var það ein helsta krafa þm. flokksins, að haft yrði samráð við verkalýðshreyfinguna um mótun efnahagsaðgerða. Við boðuðum gerð kjarasáttmála er tryggði árangur í kjarabaráttunni, en tryggði jafnframt árangur í verðbólgumálum. Við bentum á að verðbólgan er höfuðóvinur láglaunafólks, að verðbólgan er gósenland braskaranna og þess afætulýðs sem hindrar betri lífskjör, bætta afkomu launafólks. Samþykkt efnahagslaganna sem síðar voru uppnefnd Ólafslög, tók langan tíma. Í upphafi umræðnanna var grundvöllurinn sú stefna er Alþfl. bar fram í Alþingiskosningunum 1978 undir nafninu: Gerbreytt efnahagsstefna. Þá var eitt höfuðatriðið að tryggja samráð og samvinnu við samtök launafólks. Þetta atriði vakti deilu innan þeirrar ógæfusömu ríkisstj., er þá var við völd. En þetta baráttumál okkar varð samt að lögum. Nú er það beinlínis lagaskylda að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna um mótun efnahagsstefnu. Sú ríkisstj., er nú situr, gekk því á snið við lög er hún setti umrædd efnahagslög. Ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens var þá sú versta ríkisstj. er setið hafði. Núv. ríkisstj. Gunnars Thoroddsens hefur slegið það met. Hún fór aftan að samtökum launafólks, hún hundsaði lagaskyldu, hún lítilsvirti alþýðusamtökin á nöturlegan hátt. Það var því eðlilegt og þótti sjálfsagt, þegar miðstjórn Alþýðusambandsins ræddi efnahagslögin, að ljúka ályktun þannig, með leyfi forseta.

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands leggur áherslu á að hraða ákvörðunum um framkvæmd aðgerðanna, jafnt til langs og skamms tíma, og þess verður að krefjast, að verkalýðssamtökin fái aðild að undirbúningi þessarar ákvarðanatöku þegar á frumstigi, þannig að boðað samráð verði framvegis meira en orðin tóm.“

Við Alþfl.-menn erum á móti þessum brbl. vegna tilgangsleysis þeirra. Við erum og höfum alltaf verið á móti því að krukka aðeins í kaupið. Við viljum stefna að betra og heilbrigðara efnahagslífi, sem býr þegnunum meira öryggi og tryggari lífsafkomu. Þess vegna höfum við hvað eftir annað sett fram tillögur til úrbóta, tillögur um gerbreytta efnahagsstefnu.

Þau brbl., sem nú er leitað staðfestingar á, eru dæmigerð fyrir það sundurlyndi sem er í ríkisstj. Þeir flokkar, sem ríkisstj. mynda, eiga það eitt sameiginlegt að vilja sitja í ráðherrastólum. Stefna og markmið eru þeim fjarræn, eitthvað sem ekki var gert ráð fyrir þegar stjórnin var mynduð.

Með myndun núv. ríkisstj. hefur hæstv. forsrh. sýnt að vilji er allt sem þarf, ekki til að stjórna, ekki til að vernda og bæta kjör láglaunafólks, heldur viljinn til að sitja í ríkisstjórn.

Þau brbl., sem nú eru til umfjöllunar, eru háskalegasta kauprán sem framkvæmt hefur verið nú á síðustu tímum. Með þeim er ráðist á kjör láglaunafólks af meiri grimmd en fyrr. Alþfl. mun greiða atkv. á móti þessum lögum, og við skorum á aðra hv. alþm. að gera það einnig.