02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir frv. því sem hér er til umr. Það voru þrjár fullyrðingar, sem hann viðhafði í ræðu sinni, sem ég vil sérstaklega víkja að í þeim orðum sem ég tala hér nú.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. forsrh. að tillögur þær, sem brbl. frá 31. des. fela í sér, hafi ekki verið fullbúnar 20. des., þegar Alþingi var frestað, og þess vegna hafi brbl. verið gefin út. Í öðru lagi sagði hæstv. forsrh. að efni brbl. væri liður í heildarráðstöfunum í efnahagsmálunum og þess vegna hafi verið brýn nauðsyn að gefa brbl. út. Í þriðja lagi sagði hæstv. forsrh. að efni brbl. tengdist gjaldmiðilsbreytingunni og því hefði verið nauðsyn á því að gefa út brbl.

Af þessu má sjá að í huga forsrh. tengist frv. það, sem hér er til staðfestingar á brbl. frá 31. des., mjög gjaldmiðilsbreytingunni. Það er einmitt þess vegna, sem þetta frv., sem við nú ræðum, hefur borið að með nokkuð óvenjulegum hætti.

Það er ekkert sérstakt að gefin séu út brbl. þegar brýna nauðsyn ber til, svo sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Það er heldur ekkert óvenjulegt þó að menn greini á um það, hvort brýna nauðsyn hafi borið til að gefa út brbl. En samt sem áður ber þau brbl., sem hér um ræðir, að með alveg sérstökum hætti. Það er vegna þess að setning þessara brbl. er af sérstaklega óvenjulegu tilefni. Það er yfirlýst af ríkisstj., að brbl. hafi verið sett í tilefni af gjaldmiðilsbreytingunni nú um áramótin.

Alþingi samþykkti 16. maí 1979 lög um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils. Þar var ákveðið að frá og með 1. jan. 1981 hundraðfaldaðist verðgildi krónunnar. Það var nauðsynlegt að setja þessi lög með góðum fyrirvara vegna þess að gjaldmiðilsbreytingunni hlutu að fylgja margháttaðar ráðstafanir, sem gera þyrfti tímanlega, og það, sem mest var um vert, var að gera það sem gera þurfti til þess að gjaldmiðilsbreytingin næði tilgangi sínum.

Tilgangur gjaldmiðilsbreytingarinnar hefur alltaf verið að búa í haginn fyrir viðureignina við verðbólguna og viðleitni til þess að koma á stöðugleika í efnahagslífinu. Þetta átti að vera fólgið í því, að gjaldmiðilsbreytingin hefði hagstæð sálræn áhrif með því að draga úr þeim verðbólguhugsunarhætti sem sílækkandi verðmæti íslensku krónunnar hefur valdið með því að grafa undan virðingu fyrir peningum og áhuga manna á því að hamla gegn verðbólgunni. En forsenda þess, að aukning verðgildis íslensku krónunnar hafi hin hagstæðu sálrænu áhrif sem vonast er til, hlýtur að vera sú, að aðgerðin sé liður í víðtækri stefnumótun og framkvæmd til þess að ráða bót á verðbólgunni og koma á stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar. Aukning verðgildis krónunnar gæti þá orðið vottur þess, að slík stefna hefði verið tekin upp í efnahagsmálunum og brýning til þess að takast á við vandann af meiri einurð en áður og gæti þannig orðið tákn nýs tímabils í stjórn efnahagsmála.

Það hafa allir verið sammála um þennan yfirlýsta tilgang með gjaldmiðilsbreytingunni. En ekki nóg með það, heldur hafa allir verið sammála um það, að gjaldmiðilsbreytingin væri betur ógerð en gerð ef þessar forsendur væru ekki fyrir hendi, ef ekki væri víðtæk stefnumótun fyrir hendi væri ókleift að sjá fyrir sálræn áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar. M.a. hefur Seðlabankinn lýst því yfir, að svo gæti eins vel farið, að gjaldmiðilsbreytingin yrði til þess að auka vantrú manna og tortryggni ef hún er ekki hluti af róttækri stefnubreytingu, því að almenningur væri þá vantrúaður á framtíðarverðgildi peninganna og getu stjórnvalda til þess að halda verðbólgunni í skefjum.

En menn hafa verið sammála um fleiri staðreyndir í þessu sambandi. Þegar þingið kom saman á s.l. hausti voru allir sammála um það, að þá hefðu ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til víðtækrar stefnumótunar í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Þá var tíminn í raun og veru hlaupinn frá okkur í þessu efni. Heildarstefna þurfti að liggja fyrir með það góðum fyrirvara, að hún væri farin að sýna sig þegar gjaldmiðilsbreytingin átti að taka gildi. Það var nauðsynlegt að undirbyggja trú atmennings á þeim ráðstöfunum sem áttu að vera forsenda fyrir gjaldmiðilsbreytingunni.

Með tilliti til þessa bar ég snemma á þinginu fram fsp. til viðskrh. um breytt verðgildi íslensks gjaldmiðils. Það var spurt hvort ríkisstj. vildi taka til endurskoðunar fyrirætlanir um gjaldmiðilsbreytinguna með tilliti til þess, að sú aðgerð væri ekki liður í víðtækri stefnumótun og framkvæmd til þess að ráða bót á verðbólgunni og koma á stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar og gæti því aukið á upplausn og vantrú á gjaldmiðlinum í stað þess að treysta hann.

Það urðu miklar umr. í nóv. s.l. um þessa fsp., svo sem menn muna. Ég fer ekki hér að rifja upp þær umr. Ég vil aðeins minna á að þá voru menn enn sammála um að ekki lægi fyrir heildarstefnumótun. Og það er fyrst í líki þessara brbl., sem við nú ræðum, sem stefnumótun ríkisstj. í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna lítur dagsins ljós. Þess vegna verður að skoða þessi brbl. í ljósi þeirrar staðreyndar, að þau eiga að vera stefnumótun ríkisstj. í sambandi við þann sérstæða atburð sem gjaldmiðilsbreytingin er.

En hvað felst þá í þessum brbl. sem nú eru hér til umr.? Það er fjallað um nokkrar skammtímaráðstafanir, svo sem verðstöðvun, skerðingu verðbóta á laun og frestun opinberra framkvæmda. Þessar aðgerðir geta verið eðlileg viðfangsefni í skammtímaráðstöfunum til viðnáms gegn verðbólgu. Hins vegar orkar ýmislegt tvímælis við þær aðgerðir sem hér eru ákveðnar. Á sama tíma og ákveðin er verðstöðvun var ákveðin 10% hækkun allrar opinberrar þjónustu. Það segir sína sögu.

Enn er höggvið í sama knérunn með skerðingu á verðbótum á laun án þess að réttlætis sé gætt við skiptingu byrðanna á þjóðfélagsþegnana. Raunar er kauplækkunin það eina í ráðstöfunum þessum sem bein áhrif hefur til hjöðnunar verðbólgunnar, en þau áhrif skal afmá von bráðar aftur. Í þessum hringdansi er vísitölukerfið gert enn fáránlegra en áður með því að afnema áhrif viðskiptakjara á vísitöluna.

Heimild er veitt til að fresta opinberum framkvæmdum, en ekki til að draga úr opinberum rekstri, og ekkert segir um hvernig samdrætti framkvæmdanna skuli hagað.

En afgerandi um hagnýtt gildi þessara skammtímaráðstafana eru þær aðgerðir sem á eftir fara. Um langtímaráðstafanir segir hins vegar ekkert í brbl. Það er algerlega augljóst mál, að í þessu frv. felst ekki nem stefnumótun eða heildarstefna til grundvallar gjaldmiðilsbreytingu. Í sannleika sagt hefði mátt setja slík brbl. hvort sem um nokkra gjaldmiðilsbreytingu hefði verið að ræða eða ekki. Að efni til eru brbl. harla rýr og helst til þess fallin að auka á óvissu í efnahagsmálunum.

En það alvarlega við setningu brbl. er sú staðreynd, að því skuli vera haldið fram af ríkisstj. og hæstv. forsrh. að með lögum þessum sé verið að gera nauðsynlegar ráðstafanir í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Ekkert er fjær réttu lagi. Slík fullyrðing er blekking ein. Og ein blekkingin býður annarri heim. Það rak engar nauðir til þess að setja brbl. um þær ráðstafanir sem frv. þetta fjallar um, eins og bæði hv. 5. landsk. þm. og hv. 4. landsk. þm. hafa bent á og raunar fleiri í þessum umr.

Til að ráða bót á verðbólgu og jafnvægisleysi í efnahagsmálum landsins þarf heildarstefnu. Sú heildarstefna er fólgin í margháttuðum aðgerðum. Er eðli vandamálsins slíkt, að sumar aðgerðir til úrbóta er hægt að gera strax, en aðrar þurfa lengri aðdraganda. Þá hljóta sumar aðgerðir að vera tímabundnar, en aðrar að vera langvarandi. Þannig felast í heildarstefnu í efnahagsmálum annars vegar skammtímaráðstafanir og hins vegar langtímaráðstafanir. Þegar meta á gildi ráðstafana í efnahagsmálum verður að hafa í huga samhengi hinna einstöku aðgerða hverrar til annarrar. Skammtímaráðstafanir verður að meta með tilliti til langtímaráðstafana. Skammtímaráðstafanir geta verið góðra gjalda verðar, en samt verið unnar fyrir gýg ef þær eru ekki sniðnar að langtímaráðstöfunum sem á eftir fara. Meginatriðið er að móta langtímaráðstafanir, því að þær lúta að þeim þáttum þjóðarbúskaparins þar sem er að finna frumorsakir verðbólguþróunarinnar sem stjórnvöld hafa á valdi sínu að ráða bót á. Þær miða að kerfisbreytingu til þess að fjarlægja það sem vandanum veldur.

Frv. það, sem við nú ræðum, felur í sér einungis skammtímaráðstafanir að svo miklu leyti sem þar er nokkru fyrir að fara. En afgerandi um hagnýtt gildi þessara skammtímaráðstafana eru þær aðgerðir sem á eftir fara, en um langtímaráðstafanir segir hins vegar ekkert í frv. En jafnframt útgáfu brbl. hefur ríkisstj. birt svokallaða efnahagsáætlun. Þar er sett fram markmið þeirra aðgerða í efnahagsmálum sem ríkisstj. segist hafa undirbúið. Þar kennir margra grasa. Sumt af þessu geta allir tekið undir, eins og að efla þurfi atvinnulífið og tryggja öllum landsmönnum næga atvinnu eða breyta skammtímalánum húsbyggjenda í föst lán. En annað ber glögg eyrnamörk vinstri stefnu sem ekki hefur reynst veita viðnám gegn verðbólgunni, heldur þvert á móti. Og enn annað felur í sér beinar þversagnir, svo sem að halda skuli gengi stöðugu við 40% verðbólgu.

Verst er þó að þessi efnahagsáætlun ríkisstj. felur ekki í sér neina heildarstefnu í efnahagsmálum sem inniheldur langtímaráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Engar aðgerðir eru fyrirhugaðar til endurskipulagningar ríkisfjármálanna, til að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga og einstaklinga og skapa skilyrði fyrir skattalækkunum. Ekki er ætlunin að breyta fyrirkomulagi vísitölugreiðslna þannig að verðbætur á laun verði miðaðar við þjóðartekjur, heldur stefnt í öfuga átt. Enn er gert ráð fyrir ákvörðun fiskverðs án tillits til markaðsverðs erlendis og að bæta gráu ofan á svart með því að koma á millifærslu- og styrkjakerfi sem gekk sér til húðar fyrir meira en tveimur áratugum, til viðbótar gengissigi og gengislækkunum sem eftir sem áður verða óhjákvæmilegir fylgifiskar slíkra verðlagsákvarðana. Þannig eru orsakir verðbólguhraðans látnar óáreittar.

Af þessum ástæðum er þess ekki að vænta, að ráðstafanir brbl. verði í raun til viðnáms gegn verðbólgu. Þvert á móti munu þær, þegar til lengdar lætur, auka á glundroða og óvissu í efnahagsmálunum. Þær eru ekki þess eðlis, að á þeim verði byggt við framhaldsaðgerðir til viðnáms gegn verðbólgu. Hér er því ekki einu sinni um lítið skref að ræða til frambúðarlausnar á vandanum, heldur enn eina tilraunina sem dæmd er til að mistakast.

Þetta, sem ég hef nú sagt, er þeim mun alvarlegra þar sem brbl. fara saman við breytingu á verðgildi krónunnar. Forsendunni fyrir hagstæðum áhrifum gjaldmiðilsbreytingarinnar hefur verið kastað á glæ og því hætta á að gjaldmiðilsbreytingin verði til þess að auka vantrú manna og tortryggni á framtíðarverðgildi peninganna og verki þess vegna sem olía á verðbólgubálið.

Það er oft lögð áhersla á að nauðsynlegt sé að þjóðin hafi tiltrú á þeim ráðstöfunum stjórnvalda sem ætlaðar eru til viðnáms gegn verðbólgu, og að sjálfsögðu er ekki of mikil áhersla á þetta lögð. En þess er líka rétt að geta, að þjóðin er reiðubúin til þess að taka á sig byrðar ef þeim er réttlátlega skipt og þær leiða til árangurs, sem skilar sér til frambúðar í bættum lífskjörum. Þá skortir ekki vilja til að horfast í augu við staðreyndir efnahagslífsins. Ef ráðstafanir eru hins vegar haldlausar til lausnar vandanum stoðar jafnvel ekki ákveðinn vilji. Skírskotun til vilja þjóðarinnar á röngum forsendum er meira að segja varhugaverð. Menn taka ekki endalaust mark á hvatningum sem byggjast á blekkingum. Hætt er þá við að þjóðin leggi ekki við hlustir þegar raunverulega mikið liggur við.

Sá tími mun koma, að við stjórn í þessu landi verði menn sem verða þess umkomnir að leysa þau stóru vandamál sem nú steðja að. En þá varðar miklu að þjóðin verði við því kalli sem þá verður beint til hennar í þessum efnum.