02.02.1981
Efri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2044 í B-deild Alþingistíðinda. (2259)

193. mál, viðnám gegn verðbólgu

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessum umr. hafa komið fram nokkur atriði sem ég tel rétt að gera að umtalsefni. Um ýmislegt af því, sem hér hefur verið drepið á, verður rætt nánar í fjh.- og viðskn. eða nefndum beggja deilda, sem ég geri ráð fyrir að hafi sameiginlega fundi um málið, og þar verður að sjálfsögðu reynt að afla upplýsinga sem beðið er um.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson um það, hverjir mundu verða vextir af hinum verðtryggðu sparireikningum. Eins og ég greindi áður komu fyrir viku frá Seðlabankanum tillögur um þetta efni og ýmis atriði í sambandi við það sem ríkisstj. hefur haft til meðferðar síðan. Þetta mál er ekki afgreitt, en ég tek það fram sem mína skoðun, að ég tel að það eigi að vera áfram 1% vextir af þessum verðtryggðu sparireikningum. (EKJ: Það er annað vextir en verðbætur.) Það er 1%. (Gripið fram í.) Ég hélt að hv. þm. vissi hvað eru fullar verðbætur. Svar mitt er byggt á því, að þetta eru fullverðtryggðir sparireikningar, sem hv. þm. ætti að vita hvað er, og á þeim hafa verið 1% vextir síðan 1. júlí þegar þeir voru stofnaðir. Ég tel að það eigi að vera áfram þannig.

Í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar kom fram endurtekinn ákaflega furðulegur misskilningur eða rangfærslur um tvennt sem ég tel rétt að leiðrétta hér enn.

Hann segir að ég hafi talið mér það til gildis í þeirri stjórn, sem ég átti sæti í sem fjmrh. og mynduð var í nóv. 1959, svokallaðri viðreisnarstjórn, að afnumið hafi verið það uppbótakerfi sem þá hafði verið ríkjandi um allmargra ára skeið. Nú telur hann að með efnahagsáætlun ríkisstj. sé verið að koma því á að nýju. Ég hlýt að lýsa sérstakri furðu á því, að hv. þm. skuli leyfa sér aðrar eins blekkingar. Það uppbótakerfi, sem var afnumið í ársbyrjun 1960, var í því fólgið, að lagður var sérstakur skattur á allan gjaldeyri. Sá skattur var notaður til að greiða uppbætur á allar tegundir útflutnings, mismunandi háar prósentur. Þetta var hið svokallaða uppbótakerfi, í rauninni margfalt gengi, líklega milli 15 og 20 tegundir gengis, skattur á allan gjaldeyri og mismunandi háar prósentur uppbóta á allar tegundir útflutnings. Hvernig dettur hv. þm. í hug að leyfa sér að halda því fram, að það, sem nú sé verið að gera, sé að innleiða aftur þetta uppbótakerfi? Mér finnst furðuleg dirfska að bera slíkt á borð og það endurtekið.

Það, sem hv. þm. vill í rauninni byggja þetta á, er að gert sé ráð fyrir einhverjum millifærslum í sambandi við útflutningsgreinar sjávarafurða eða fiskvinnslunnar. Nú veit hann ósköp vel, eins og við allir, að í okkar þjóðfélagi, eins og meðal allra annarra þjóða, í nágrenni okkar a.m.k., eru meira og minna af styrkjum og millifærslum milli atvinnuvega og einstakra atvinnugreina eftir því sem á stendur. En að líkja þessu saman við það uppbótakerfi, sem var afnumið í ársbyrjun 1960, er hrein firra.

Hin fullyrðing hv. þm. er sú, að það sé komið á og stefnt að fölsku gengi. Þessi staðhæfing er jafnfráleit. Dettur hv. þm. í hug að halda því fram, að gengið sé skráð rangt eða falskt nú þegar aðalútflutningsgreinar landsmanna og þær sem gengið er fyrst og fremst miðað við, þ.e. greinar fiskvinnslunnar, eru allar reknar með hagnaði? Það liggur fyrir í síðustu skýrslum Þjóðhagsstofnunar t.d. nú fyrir nokkrum dögum, frá 28. jan., endurskoðun á afkomu fiskvinnslunnar: frystingar, saltfiskframleiðslu og skreiðar. Niðurstaðan er sú, að af fiskvinnslunni — þessum greinum samtals — hafi Þjóðhagsstofnun í áætlun um áramótin, þ.e. fyrir mánuði, gert ráð fyrir 5.5% hagnaði, en við nánari skoðun í lok janúar áætlar Þjóðhagsstofnun að hagnaður þessarar þriggja greina samtals sé nú talinn 8.5% í stað 5.5% um áramót. Og nú spyr ég: Er þessum hv. þm., sem hefur verið sjútvrh. og viðskrh., ekki kunnugt um við hvað gengisskráning er miðuð, hver eru þar helstu viðmiðunaratriði? Ég hélt að hver maður hér á Alþingi vissi að það er fyrst og fremst afkoma útfluttra sjávarafurða og svo að sjálfsögðu tekið tillit til annarra útflutningsgreina, eins og útflutningsiðnaðar, en auðvitað vegur verðlag og afkoma fiskvinnslunnar hér langsamlega þyngst. Það eru þá önnur sjónarmið, annar hugsanagangur og annað við að nálgast þetta mál en ég hef kynnst eða heyrt um ef það er talin röng gengisskráning þegar fiskvinnslan er nú að áliti Þjóðhagsstofnunar rekin með 8.5% hagnaði. Auðvitað er ekki heil brú í svona fullyrðingum. Nú vitum við að fiskverðsákvörðun er fram undan og enginn veit enn í dag hversu há hún verður eða hver áhrif hún hefur á fiskvinnsluna. Eins og málin standa nú eru allar fullyrðingar í þessa átt hrein fjarstæða.

Hv síðasti ræðumaður, hv. þm. Eiður Guðnason, bar fram nokkrar fsp. í lok ræðu sinnar. Hann spurði um þær viðræður sem segir í efnahagsáætluninni að verði teknar upp við aðila vinnumarkaðarins. Að því máli er að sjálfsögðu unnið. Ég vil taka það fram hér, að í októberlok hafði ég fund í samræmi við gildandi lög og reglugerðir með aðilum vinnumarkaðarins um þjóðhagsáætlun. Slíkir fundir eru fjölmennir fundir og voru þar allítarlegar umræður um þau mál. Þær viðræður, sem efnahagsáætlunin gerir ráð fyrir, munu fara í gang nú bráðlega, en það er verið að undirbúa og athuga með hverjum hætti þeim sé haganlegast fyrir komið því að það vita allir, sem eitthvað hafa fengist við slík mál, að ekki er heppilegt að þar sé mjög mikið fjölmenni. Vandinn er að finna það fyrirkomulag sem er æskilegast og líklegast til árangurs og samkomulags við aðila vinnumarkaðarins. — Út af fsp. hv. þm. vil ég aðeins taka þetta fram, að það er í undirbúningi hvernig best og haganlegast sé að koma fyrir þessum viðræðum.

Hv. þm. spurði um þá vaxtalækkun sem minnst er á í efnahagsáætluninni. Það er orðað þannig, að stefnt verði að lækkun vaxta 1. mars. Honum hafði skilist að tillögur lægju fyrir frá Seðlabankanum um þetta mál. Það er ekki. Þær tillögur, sem liggja fyrir frá Seðlabankanum, eru um verðtryggðu sparireikningana út af þeirri breytingu sem ákveðin er í brbl., að binditíminn verði sex mánuðir í staðinn fyrir tvö ár, og atriðum sem standa í beinu sambandi við það mál. Sú yfirlýsing, sem þarna getur um að stefnt verði að, vaxtalækkun 1. mars, er óbreytt.

Hv. þm. spurði um breytingu á skammtímalánum og vanskilalánum vegna íbúðabygginga og kaupa. Þegar er hafin könnun og undirbúningur að því. Ég geri ráð fyrir því og það er náttúrlega öllum ljóst, að það taki nokkurn tíma að kanna þau mál, fá upplýsingar frá bönkum og öðrum stofnunum um þessi lán, bæði hvernig þeim er hagað og hversu mikil brögð eru að slíku. Til þess þarf að fá upplýsingar. Þegar er hafin söfnun þeirra upplýsinga og fljótlega verður hafin úrvinnsla og tillögugerð.

Hv. þm. var mjög undrandi á ákvæði um að stuðla að innkaupum í stórum stíl, hafði ekki skilið það og taldi að hér væri um glamur eitt að ræða. Ég skal skýra hv. þm. og öðrum hv. þm. frá því, að hugsunin á bak við er að í mörgum tilvikum er hægt að fá hagkvæmari innkaup ef keypt er stórt heldur en ef keypt er smátt. Hins vegar vitum við líka að ýmsar ástæður hér valda því, m.a. verðlagsákvæði, að innkaupum til landsins hefur ekki alltaf verið hagað á hagkvæmasta hátt. T.d. hefur sú prósentuálagning, sem hér hefur lengi verið, beinlínis refsað mönnum fyrir hagkvæm innkaup þar sem menn fá þeim mun færri krónur upp í sinn kostnað sem þeir gera hagkvæmari innkaup, en í öðru lagi hefur það verið mikill annmarki hvað í mörgum tilvikum er keypt inn í smáum stíl. Það eru þessi stærri innkaup, að gera þau hagkvæmari, sem hér eru höfð í huga.

Ég tel ekki ástæðu til að lengja þetta mál nú, hef svarað helstu fsp. sem fram hafa komið. Þar vísa ég til þess, að í meðferð n. verða að sjálfsögðu veittar upplýsingar eftir því sem um er beðið.