02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Þetta er í annað skiptið á þessu þingi sem ég er krafinn svara utan dagskrár um málefni sem liggja fyrir fjh.- og viðskn. Ég veit ekki með hvaða hætti á að reka slík mál. Ég hef ekkert á móti því að verða fyrir svörum varðandi málið, en hitt er svo annað mál, að betra er að vita um það með einhverjum fyrirvara þannig að ég geti sem formaður nefndarinnar kynnt mér þau gögn, fundargerðir og annað, sem þessi mál varða, svo að svörin geti orðið skýrari.

Ég vil taka það fram varðandi þetta mál, að nefndin tók það fyrir fyrir jól og sendi það til umsagnar. Það hafa ekki borist svör mér vitanlega, en n. hefur ekki haldið fund eftir að þing kom saman að nýju og málið því ekki verið tekið fyrir aftur.

Ég vil segja varðandi þetta mál, að það liggur fyrir að ríkisstj. hyggst beita sér fyrir því og hefur flutt um það frv. að vaxtafrádráttur verði hækkaður. Hins vegar leggur hv. þm. til að þessi frádráttur verði í reynd ótakmarkaður, þ.e. að vextir af öllum skuldum verði frádráttarhæfir. Að mínu mati kemur slík breyting ekki til greina ef á að halda sig við þá uppbyggingu skattalaga sem samþykkt var hér á árinu 1978 og síðan aftur með breytingum á árinu 1980. Ef brtt. þeirra hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar og Halldórs Blöndals yrði samþykkt væri verið að leggja þá uppbyggingu alla í rúst. Ég segi fyrir mitt leyti að ég mun ekki verða tilbúinn að standa að því verki, og ég undrast að sjálfstæðismenn skuli leggja stíkt ofurkapp á það eins og þeir studdu dyggilega uppbyggingu þessara laga. Hitt er svo annað mát, að ég er fylgjandi því að hækka hámarkið innan þess ramma sem settur er í lögunum. Eins tel ég að það komi mjög til greina að um lengri tíma verði að ræða frá því að menn hefja byggingu eða kaupa íbúðarhúsnæði. Að því er verið að vinna þessa dagana að undirbúa slíkar breytingar og stefnt að því að niðurstaða náist um þau mál innan stjórnarflokkanna í þessari viku.