02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég veil ekki hvort ég á að komast svo að orði, að það sé til upplýsingar fyrir hæstv. 3. þm. Austurl. að nauðsynlegt sé að Alþingi geri upp hug sinn í sambandi við framkvæmdaatriði og einstök atriði skattalaga áður en framtalsfrestur rennur út. Ég veit ekki hvað er um hann að segja, en ég held að flestum þm. sé ljóst að nauðsynlegt sé að gefa framteljendum nokkurn kost á að haga fjármálum sínum og fjárskuldbindingum á þann veg sem best samræmist hagsmunum þeirra í sambandi við skattalög á hverjum tíma, þar eigi flestir menn að sitja við sama borð.

Mér kemur mjög á óvart hversu daufur hv. 3. þm. Austurl. er um framgang frv. okkar 6. þm. Reykv., Birgis Ísl. Gunnarssonar, um frádráttarbærni vaxta, þar sem það hefur komið í ljós að hann er sömu skoðunar og við um að það séu ófullnægjandi ákvæði í þessum efnum í lögum nú. Þess vegna væri rétt að búast við því að hann hefði haft um það nokkurt frumkvæði að hraða þessu máli. En það er síður en svo. Vegna þess að þm. báru þetta frv. fram virðist sem það eigi ekki að fá sjálfstæða afgreiðslu hér í deild. Hins vegar er þess að vænta, að stuðningsmenn ríkisstj. muni greiða veg fyrir öðru frv. í Ed., og líka í gegnum Nd. því hinu sama frv., einungis af því að ríkisstj. leggur það fram löngu síðar en það mál sem hér er verið að tala um. Í þessu er m.a. fólgin niðurlæging Alþingis nú á þessum síðustu tímum og yfirgangur hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar, enda er það nú svo um marga þeirra að þeir miklast helst af því þegar þeir brjóta þau lög sem þeir hafa sjálfir sett, þær leikreglur sem þeir ætlast til að vinir þeirra og samherjar um fjölda ára hafi komið sér saman um.

Ég geri mér ekki grein fyrir því, hvort hv. 3. þm. Austurl. talaði fyrir munn samherja sinna í Framsfl. og fyrir munn Alþb.-manna — um aðra stuðningsmenn ríkisstj. hirði ég ekki — þegar hann sagði að hann væri andsnúinn því að sömu reglur mundu gilda á þessu ári og á s.l. ári um frádráttarbærni vaxta. Það liggur ljóst fyrir að hér er um sáralágar fjárhæðir að ræða fyrir ríkissjóð. Sú frádráttarbærni skatta, sem verið hefur undanfarið ár, skiptir ríkissjóð engu máli. Hér er þess vegna eingöngu um það að tefla hvort því fólki,sem hefur reist sér burðarás um öxl með skuldasöfnun, verði opinn nokkur útvegur í sambandi við skattalögin til þess að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.

Í þessu sambandi skulum við hafa í huga að ríkisstj. hefur tilkynnt ráðstafanir, ég veit náttúrlega ekki hvort hún stendur við það, — það er undir hælinn lagt hvort hæstv. ríkisstj. stendur við það sem hún boðar, —en hún hefur sem sagt boðað það og uppi eru háværar raddir um það í þjóðfélaginu einnig að nú eigi að afnema lán til langs tíma nema verðtryggð í hinu almenna bankakerfi, menn geti ekki einu sinni fengið lán til eins eða tveggja ára nema verðtryggð í hinu almenna bankakerfi. Hjá lífeyrissjóðunum er sömu sögu að segja. Það þýðir að verðbólgan mun ekki hjálpa þeim mönnum, sem nú standa í húsbyggingum eða hafa keypt íbúðir, til að greiða íbúðarverðið, eins og áður var.

Ef við förum fimm eða tíu ár aftur í tímann voru vextir langt undir verðbólgunni og til viðbótar því nutu menn margs konar fríðinda varðandi öll sín lán í skattalegum skilningi. Nú á að skera á þetta allt saman, nema menn geti fullnægt mjög ströngum ákvæðum í skattalögum. Enginn vafi er á að eina ráð skattstjóranna til að úrskurða frádráttarbærni vaxta verður að krefjast afdráttarlausra sannana um það, að beint samhengi sé milli viðkomandi lántöku og húsakaupa eða húsbyggingar. Það er líka enginn vafi á því, að skilgreiningin á húsbyggingum mun verða mjög þröng. Við getum hugsað okkur t.d. teppi út í öll horn eða eitthvað því um líkt. Það er mjög hæpið að skattstjórar mundu fallast á að framkvæmdir af því tagi teldust húsbyggingar í þessum skilningi skattalaga.

Það liggur því alveg ljóst fyrir í fyrsta lagi, að margir húsbyggjendur, sem ekki hafa komið sínum lánum í rétt horf, ekki hafa gætt þess að lánið sé þriggja ára verðtryggt lán, sem er skilyrði fyrir frádráttarbærninni, munu verða að greiða skatta eins og þeir hefðu engin lán tekið vegna þess að þeir uppfylltu ekki þetta formsatriði laganna, hvað sem um ráðstöfun lánsfjárins er að segja. Það skiptir ekki máli, heldur eru þarna viss formsatriði sem verður að uppfylla. Þar munu húsbyggjendur ekki sitja allir við sama borð. Ég hef haft reynslu af því, að ýmsir menn hafa ekki gætt þessa í sambandi við lánsútveganir sínar.

Í öðru lagi er ljóst að margt fólk hefur orðið fyrir fjárhagslegum áföllum og hefur bundið sér mikla skuldabagga. Við getum tekið sem dæmi fólk sem lendir í skilnaði. Það er segin saga, og vita það menn sem eru kunnugir þjóðlífi hér, að þegar um slit á samvistum er að ræða fylgir því mjög mikil röskun í fjárhag viðkomandi. Þetta fólk hefur fram að þessu notið nokkurrar leiðréttingar hjá skattayfirvöldum, hefur fengið byrðarnar ögn léttar með frádráttarbærni vaxta, en nú er það sem sagt úr sögunni.

Þannig mætti lengi telja. Það má tala um námsfólk og ýmsa aðra. En á þetta verður ekki hlustað og um þetta fær Alþingi ekki að fjalla í tíma af því að þröngsýnir stjórnarsinnar í fjh.- viðskn. fást ekki til að afgreiða frv. sem löngu er komið fram og nauðsynlegt er að fái afgreiðslu hér í deildinni.

Vilja er allt sem þarf. Því var lýst yfir um áramótin að ríkisstj. og stuðningsmenn hennar mundu lækka skatta sem svarar til 1.5% í kaupmætti lægra launa og meðallauna. Samkvæmt áætlun, sem ég hef í höndum frá Þjóðhagsstofnun, er gert ráð fyrir að beinir skattar hækki úr 14.5% í 15.1%, miðað við tekjur greiðsluárs, sem hv. 12. þm. Reykv. segir að sé eini samanburður sem taka á mark á. Samkv. þessari töflu, sem sá þm. leggur mikið upp úr, munu beinir skattar í hlutfalli við tekjur greiðsluárs hækka úr 14.5% í 15.1% á milli ára nú. Hér er reiknað með áætlun 1980 og svo miðað við fjárlög 1981. Ég skal ekki segja neitt um réttmæti þessarar niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar, en hins vegar liggur alveg ljóst fyrir samkvæmt þessari áætlun að þessi ríkisstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu, að nú sé ákveðið að þyngja skattbyrðina umtalsvert frá s.l. ári, þegar við tölum um beina álagða skatta. Ef við tölum um óbeinu skattana liggur það líka fyrir, að þar verður ekki létt neinu af. Það liggur því alveg á borðinu að heildarskattbyrðin muni aukast frá árinu 1980 til 1981.

Vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur nú gengið í salinn vil ég beina til hans einni fyrirspurn, sem ég tel afskaplega mikilvæga í þessu sambandi, og hún er þessi: Hefur fjmrn. gert úttekt á heildarskattbyrðinni á árinu 1980, beinum og óbeinum sköttum, og hyggst ríkisstj. gera samsvarandi úttekt á heildarskattbyrðinni eins og hún hefur verið ákveðin nú samkvæmt fjárlögum og fjárhagsáætlunum einstakra sveitarfélaga, gera samsvarandi úttekt á heildarskattbyrðinni á árinu 1981 áður en tillögur verði um það gerðar hvernig eigi að lækka skatta til að auka kaupmáttinn um 1.5% frá s.l. ári? (Gripið fram í.) Ég skal gera það. Hefur fjmrh. gert ráðstafanir til þess að rn. hans mæli hver var heildarskattabyrðin, bæði í óbeinum og beinum sköttum, á árinu 1980 og reynt að gera sér grein fyrir því í framhaldi af því, hvernig þessari heildarskattbyrði verði háttað á þessu ári samkv. þeim lögum og ákvörðunum sem nú liggja fyrir?

Ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér að standa við það að lækka skattana um 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna er náttúrlega nauðsynlegt að gera sér fyrst grein fyrir hver skattbyrðin var á s.l. ári og hver hún verður á þessu ári. það er algerlega út í hött að taka einstaka skatta út úr. Þegar rætt er um skattamál verður að sjálfsögðu að taka heildarskattbyrðina. Ég efast ekki um að hverjum einasta þm. hér er þetta ljóst. Það er ekki einn einasti þm. hér inni sem ekki gerir sér grein fyrir því, að þegar talað er um skattamál í samanburði við kaupmátt launa, ráðstöfunartekjur heimilanna, erum við að hugsa um hvað ríkið tekur í heild og sveitarfélögin af þjóðartekjunum, því sem til ráðstöfunar er.

Hv. 3. þm. Austurl. kvartar oft undan því, að sjálfstæðismenn vilji eyðileggja uppbyggingu skattalaganna, tekjuskattsins og eignarskattsins, sem samþykkt voru hér á vordögum 1978. Ég hef oft tekið eftir því í ummælum hans hér á Alþingi, að hann lætur sem skattstiginn skipti engu máli í uppbyggingu þeirra laga. Þetta er vitaskuld rangt. Auðvitað er skattstiginn afgerandi atriði í skattamálum og margar þær misfellur, sem við erum nú svo mjög að tala um hér á Alþingi, eru einmitt sprottnar af því að skattstiginn er allt of þungur, allt of krappur.

Ef við miðum aftur við þá mælistiku sem hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, telur þá einu réttu í þessu sambandi, þ.e. álagða skatta í hlutfalli við tekjur greiðsluárs, kemur í ljós að álagðir skattar voru á árinu 1977 11%, 1978 12.6%, og höfðu þá bæst við tekjuskattsaukarnir haustið 1978, 197913.8, 198014.5% og 1981 15.1%. Ég veit að hv. 3. þm. Austurl. man jafnvel og ég að það var yfirlýstur tilgangur þeirra skattalaga, sem samþykkt voru 1978, að þyngja skattbyrðina ekki frá því sem verið hefði. Það var yfirlýstur tilgangur þeirra skattalaga og í raun forsendan fyrir því að þau voru eins byggð upp og þá var gert. — Ef við rifjum þær tölur upp, sem ég talaði áðan um, er þar um 11% af tekjum greiðsluárs að ræða á árinu 1977 á móti 15.1% á árinu 1981. Það er að vísu ekki tekjuskatturinn einn og þar kemur náttúrlega fram skekkja, en þetta eru álagðir skattar og ef við tækjum tekjuskattinn einan út af fyrir sig hef ég margsinnis sýnt fram á að hann hefur stórlega hækkað, bæði hlutfallslega miðað við tekjur fyrra árs og tekjur greiðsluárs.

Herra forseti. Ég vonast svo til að hæstv. fjmrh. treysti sér til að svara spurningu minni eða a.m.k. geti tekið af allan vafa um eitt smávægilegt atriði. Þegar ríkisstj. talar um skattalækkun býst ég við að hún eigi við skattana eins og þeir voru á s.l. ári, og ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það réttur skilningur?