30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

8. mál, aukning orkufreks iðnaðar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þessi þáltill. hefur fengið hér í umr. í Sþ. Það gefur auga leið, að það eru ekki allir sammála um þær aðferðir og þær leiðir sem okkur ber að fara í sambandi við iðnaðaruppbyggingu og orkuframleiðslu í þessu landi. Um það munum við deila um langan aldur, hvaða leiðir skuli fara.

Það er hins vegar alveg augljóst, að ef Íslendingar ætla að skjóta styrkum stoðum undir atvinnurekstur í þessu landi, þá er iðnaðurinn sú leið sem fara skal, og líklegastur til árangurs er orkufrekur iðnaður, þó svo að okkur beri að hyggja að öðrum iðngreinum meðfram.

Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson ræddi um það, að hér væri á ferðinni einhvers konar áróðurstillaga Alþfl. Þessu mótmæli ég algerlega. Þetta er ekki áróðurstillaga að nokkru leyti. Þessi till. er borin fram til þess að opna umr. um þetta mikilvæga mál, og það kemur í ljós, að aðrir flokkar hafa fullan hug á því að halda þessari umr. áfram, enda hefur Sjálfstfl. flutt hér á þingi till. sem er nánast ljósrit af þessari. (Gripið fram í: Ekki nöfnunum.) Nöfnin hafa breyst eilítið, það er rétt.

Ég vil aðeins segja það vegna ræðu hæstv. iðnrh., sem hann flutti þegar mál þetta kom fyrst til umr., að hann flutti þá stefnu, sem hann hefur í huga og hans flokkur, af þeim krafti, sem honum er laginn, og kom þar fram með margt sem vakti verulega og verðskuldaða athygli í sambandi við iðnþróun og það sem er unnið að í iðnrn. Hins vegar hefur eiginlega yfirskyggt umr. að mörgu leyti sá ágreiningur sem fyrir hendi er um hina svokölluðu stóriðju. Ég vil nú ekki gera allt of mikið úr þessum ágreiningi, vegna þess að ég lít svo á að menn geti túlkað orðið stóriðju á margvíslegan hátt. Ég held að þeir, sem andsnúnir eru stóriðju, séu henni andsnúnir vegna svokallaðs erlends áhættufjármagns, sem ég tel hins vegar æskilegt að renni til hennar ef við ætlum einhverjum umtalsverðum árangri að ná. Eigi að síður vil ég leggja mikla áherslu á það sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson nefndi, að miðlungsstór iðnfyrirtæki, sem hann gat um, væru einnig það sem koma skyldi. Í þeim efnum nefndi hann saltverksmiðju, stálverksmiðju og steinullarverksmiðju. Steinullarverksmiðja veitir 80 manns atvinnu, hún er ekki stóriðja, hún notar 6 mw. Þar er því á ferðinni iðnþáttur sem ekki flokkast undir þá hræðilegu stóriðju sem margir hafa mikinn ótta af.

Það má nefna sykurverksmiðju í Hveragerði. Það má nefna græðlingaverksmiðju, sem mjög kom til umr. hér á árum áður og nýtir jarðhita til græðlingaframleiðslu til útflutnings. Það má nefna það stórkostlega fyrirtæki sem nú er kannske að komast á undirbúningsstig, þ.e. pappírsverksmiðja í nágrenni Húsavíkur, en þar er á ferðinni hið merkasta mál í alla staði þar sem notaður er jarðhiti. Þessi verksmiðja er þannig áætluð, að hún jafnvel framleiði eigin raforku sjálf. Ég vil minna á fyrirtæki eins og Kísiliðjuna við Mývatn, sem hefur reynst arðbært fyrirtæki og hefur fært íbúum byggðarlaganna í kring umtalsverða fjármuni, t.a.m. Húsvíkingum og þeim Mývetningum sjálfum. Ég held að enginn dragi í efa hvaða áhrif álverksmiðjan í Straumsvík hefur haft fyrir þróun Hafnarfjarðar, þ.e. þær tekjur sem Hafnfirðingar hafa haft af henni. En ég skal taka undir það og undirstrika hvar og hvenær sem er, að það er þjóðinni til háborinnar skammar hvernig háttað er raforkusölu til átverksmiðjunnar.

Í allri þeirri umr., sem fram hefur farið um orkufrekan iðnað, minnist ég þess ekki heldur, að einn einasti ræðumaður hafi talað um stóriðju eða orkufrekan iðnað í sambandi við fullnýtingu sjávarafla. Ég minnist Lúðvíks Jósepssonar sem þess baráttumanns hér á þingi sem ævinlega og ávallt, þegar nýting sjávarafla kom til umr. hér, ræddi það mál og þá skömm sem við okkur blasir þegar Íslendingar flytja hráefni sín á þann hátt sem þeir gera, í fiskblokkum og fiskflökum, til útlanda án þess að reyna að gernýta þessa dýrmætu vöru.

Ég vil minna á fiskrækt. Í henni felst viss legund af stóriðju. Það er kannske rétt að upplýsa það hér í þessari umr., að ekki alls fyrir löngu var hér á ferð bandarískur maður sem sýndi mikinn áhuga á hreinni stóriðju í fiskræktarmálum. Ég veit ekki hvaða undirtektir hann fékk.

Ég vil líka minna á mjög svo tímabært umhugsunarefni sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson minntist á, en það er framleiðsla á eldsneyti, þær hugmyndir sem komið hafa fram og miklar rannsóknir hafa verið gerðar á í sambandi við vetnisframleiðslu. Framleiðsla vetnis er dýr og enn þá borgar sú framleiðsla sig ekki gagnvart bensínverði og verði á öðru eldsneyti, en þar getur komið vegna verðhækkana á eldsneyti að vetnisframleiðsla verði verulega arðbær.

Ég mun ekki fara mjög mörgum orðum um þetta mál. Ég er þeirrar skoðunar, að sú röðun orkuframkvæmda, sem nú er fyrir hendi, sé á nokkurri skammsýni byggð. Við deilum núna hart um það, hvort næsta stórvirkjun á Íslandi eigi að vera Blönduvirkjun eða Fljótsdalsvirkjun. Ég er þeirrar skoðunar, að við eigum að fara í báðar þessar virkjanir í einu. Undirbúningur að báðum þessum virkjunum er á svipuðu stigi og rannsóknir eru komnar langt á veg. Hér er spurningin því um fjármagnið, og ég held að enginn geti neitað því, að orkuframkvæmdir af því tagi, sem hér er talað um, réttlæta fullkomlega erlendar lántökur í stórum stíl. Ég tel að hér sé þvílíkt stórmál á ferðinni, að það eigi raunverulega ekki að draga menn í dilka eftir flokkum, heldur beri þinginu í heild að vinna að framgangi þessara mála. Í skátaræðum hafa menn gjarnan mörg og fögur orð um iðnaðinn, sem eigi að taka við öllu vinnuaflinu sem bætist á vinnumarkað hér á næstu árum. En við höfum ekki mikið gert til þess að mæta þeirri atvinnuþörf sem fram undan er. Ég vil minna á að það hefur verið reiknað út, að á Norðurlandi einu muni á næstu 10 árum skorta 100 atvinnutækifæri í iðnaði á hverju einasta ári eða 1000 atvinnutækifæri á 10 næstu árum. Ég sé ekki fram á það, að verið sé að stofna til þeirra iðngreina eða þess iðnaðar í því kjördæmi, að það sé einhver glóra í því, að iðnaðurinn geti tekið við þessu vinnuafli. Þetta er auðvitað mál af því tagi að okkur ber öllum að sameinast um að hrinda í framkvæmd öflugri orkustefnu, að kappkosta að virkja þá orku sem við eigum mjög mikið af. Og ég er sannfærður um að með því móti tækist okkur að koma í veg fyrir þær alvarlegu sveiflur, sem verða bæði í efnahagsog atvinnumálum þessarar þjóðar á nokkurra ára fresti og gætu kannske verið fram undan á næstu dögum.

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra manna sem um þessa till. hafa fjallað. Ég tel að það hafi verið gert á jákvæðan hátt og á þann hátt, að menn séu fyllilega sammála um það hér á hinu háa Alþingi, að þessum málum beri að gefa mikinn og verulegan gaum. Ég vil einnig þakka hæstv. iðnrh., þó hann sé ekki staddur hér við þessa umr., fyrir undirtektir hans, þrátt fyrir agnúana sem hann sá á till., og getur verið réttlætanlegt að ýmsu leyti. Annað, sem kom fram í ræðu hans, er þó ekki réttlætanlegt frá sjónarmiði okkar flm. þessarar till., en út í þá sálma ætla ég ekki að fara vegna þess að grundvallaratriðið er það, að við sameinumst um þá stefnu sem í þessari till. felst. Orkufrekur iðnaður eða stóriðja, menn geta deilt um merkingu orðsins til eilífðarnóns, en engu að síður er þetta það sem kom skal.