02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2056 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh.(Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að ég hafi gefið kost á að vera almennt til svara í skattamálum undir þessari umr. Þvert á móti hef ég lagt á það ríka áherslu, að við erum að fjalla um einn þátt skattamálanna í Ed. þessa dagana og ég vænti þess að báðar fjh.- og viðskn. geti fjallað um þann þáttinn sameiginlega næstu dagana, þar á meðal það mál sem var tilefni þessarar utandagskrárumræðu. Að öðru leyti tel ég eðlilegt að umræður um skattamálin bíði þar til að tóm hefur gefist til þess að undirbúa tillögur.

Varðandi spurningar þær, sem hv. þm. lagði hér fram, vil ég segja það eitt, að skattvísitala hefur vissulega verið ákveðin í fjárlögum, en það er ekki þar með sagt að frádráttarliðir eða skattþrep hafi verið endanlega ákveðin. Við höfum gert ráð fyrir að á því yrðu breytingar, m.a. með því að við tókum ekki inn alla þá fjárhæð í áætlunartölu fjárlaga sem hefði átt að taka inn ef miðað væri við skattvísitölu 145. Þar urðu afgangs um 4 milljarðar, eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. En það hefur hins vegar ekki verið ákveðið með hvaða hætti þeim yrði ráðstafað í skattakerfinu, að hvað miklu leyti þeir ganga til sérstakrar ívilnunar á sérstökum sviðum eða að hvað miklu leyti þeir koma til hækkunar almennt á frádráttarliðum. Þetta eru allt atriði sem bíða nánari umræðu og frekari ákvörðunar.

Varðandi þá skattalækkun, sem um er rætt í yfirlýsingu ríkisstj. um efnahagsaðgerðir nú um áramótin er það rétt, sem hv. þm. benti á áðan, að þá skattalækkun á fyrst og fremst að miða við lág laun og meðallaun og er hún upp á 1.5%. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá honum, að í því sambandi hafa verið nefndir 6–7 milljarðar, vegna þess að það er verið að stefna að því, að það séu fyrst og fremst þeir, sem eru í neðri hluta launastigans, sem njóti góðs af þessari lækkun.

Að lokum vil ég taka það fram varðandi spurninguna um framtalsfrestinn að engar ákvarðanir hafa verið teknar um það atriði, en mér sýnast vaxandi líkur á að það verði nú gefinn nokkurra daga frestur. Mér sýnist að það sé ekkert stóratriði að framtalsfrestinum ljúki 10. febr., og vegna þess að Alþingi er hér að fjalla um einn þátt þessara mála, þ.e. vaxtafrádrátt og verkfærapeninga, og ég teldi eðlilegt að Alþingi lyki umfjöllun um þetta atriði áður en framtalsfresti lýkur, þá finnst mér afar sennilegt að framtalsfrestur framlengist um nokkra daga. En það hefur enn ekki verið ákveðið og ég vil því ekki segja neitt nánar til um það atriði.