02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Mér er kunnugt um að margir verða loðnir í hugsun af nokkurri setu á Alþingi, en þó þykir mér nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn ef menn rugla gersamlega saman þessu tvennu: annars vegar því, að ekki sé víst að heimild verði notuð og svo hins vegar, að heimild verði alls ekki notuð, og telja þetta alveg nákvæmlega það sama, að þetta merki nákvæmlega það sama. Auðvitað merkir þetta tvennt ólíkt, eins og vonandi flestir aðrir þm. gera sér fulla grein fyrir.

En í sambandi við þetta mál er auðvitað rétt að minna á að fyrir skattalækkun þeirri, sem áformuð er í tengslum við efnahagsaðgerðir ríkisstj., er, eins og ég nefndi áðan, ráð gert á fjárlögum undir liðnum Efnahagsaðgerðir. Við höfum því ekki gert ráð fyrir að það væri bráðnauðsynlegt að skera niður útgjöld ríkissjóðs í þessum tilgangi. Við höfum reiknað með að fjárlagadæmið rúmaði slíka skattalækkun. Hins vegar vitum við auðvitað ekki hver þróunin verður. T.d. getur þróunin í ríkisfjármálum orðið önnur en við eigum von á í ársbyrjun. Það eru alltaf miklar sveiflur í ríkisfjármálunum. Tekjur geta t.d. skilað sér verr en áætlað er. Sérstaklega gildir það um aðflutningsgjöldin og söluskattinn. Ef svo fer, að fjárhagur ríkissjóðs er allmiklu þrengri en hann virðist vera, en um leið jafnvel enn meiri þörf á skattalækkun en við gerum ráð fyrir nú, er ljóst að óhjákvæmilegt er að nota þær sérstöku heimildir sem aflað hefur verið. Hvort óhjákvæmilegt verður að nota þessar heimildir kemur hins vegar ekki í ljós fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Það verður því að bíða síns tíma.

Ég vænti þess fastlega, að orð mín áðan verði ekki mistúlkuð á þann veg að það sé alls ekki ætlunin að nota þessa heimild. En það hefur bara ekkert verið ákveðið um það enn þá.