02.02.1981
Neðri deild: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2066 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

122. mál, verðlag

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þar sem 1. flm. þessa frv. situr ekki á Alþingi lengur mun ég freista þess sem síðari flm. að fylgja frv. eftir og koma því til nefndar.

Í þessu frv., sem er á þskj. 147, er gert ráð fyrir að þjónustufyrirtæki sveitarfélaga og samrekstrarfyrirtæki sveitarfélaga og ríkis fái ekki sömu meðferð varðandi gjaldskrár og aðrir aðilar sem taldir eru í 8. gr. laga nr. 56 frá 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

Eins og kunnugt er var lögum um verðlag, samkeppnishömlur o. fl. breytt tvívegis, fyrst haustið 1978, þegar ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar frestaði gildistöku laganna um hríð vegna ónógs undirbúnings, og síðan voru í lögum nr. 13 frá 1979, sem eru betur þekkt undir nafninu Ólafslög gerðar tímabundnar breytingar á verðlagslögunum. í 5 9. og 60 gr. laga nr. 13 frá 1979 er gert ráð fyrir að verðlag sé bundið nema í undantekningartilvikum, en samkv. verðlagslögunum frá 1978 var gert ráð fyrir miklu frjálsara verðlagi en hér hefur ríkt um áratugi. Útkoman úr þessari þróun allri saman er sú, að ekki hafa um langan aldur verið í lögum jafnþröng ákvæði um verðlag. Má segja að verðlag allt sé bundið hér á landi og er þá ekki verið að ræða um sérstaka löggjöf, eins og lög um verðstöðvun sem hafa verið í gildi nánast allar götur frá 1971.

Með þessu frv. er ekki gert ráð fyrir að breyta lögum nr. 13 1979, heldur aðeins upphaflegu lögunum og þá 8. gr. þeirra. Í grg. er rakið dæmi sem tekur til dagheimila, skóladagheimila og leikskóla, en samkv. lögum og reglugerð um þessa þætti opinberrar þjónustu á ríkisvaldið að greiða ákveðinn hluta kostnaðarins. Sem kunnugt er hefur ríkisvaldið ekki virt viðkomandi lög og má því segja að ríkisvaldið hafi gengið á undan við að brjóta niður þá stefnu sem mörkuð hefur verið á hv. Alþingi.

Fyrir örstuttu kom út á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga 6. hefti Sveitarstjórnarmáta, nr. 6 frá 1980, og í það hefti ritar Kristmundur Halldórsson deildarstjóri í iðnrn. athyglisverða grein um gjaldskrármál og verðlagningu á þjónustu hitaveitna. Þar rekur Kristmundur lögin og jafnframt með hverjum hætti hægt er að afla einkaleyfis til að starfrækja hitaveitu. Í því sambandi er minnt á að gjaldskrár hitaveitna skuli endurskoða eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Mig langar til þess, herra forseti, að vitna til örstutts kafla úr þessari ágætu grein, því að í henni gefur fulltrúi iðnrn. ágæta lýsingu á því, hvernig verðlagningu opinberrar þjónustu, þ.e. hitaveitu sem er á vegum sveitarfélaganna, er háttað. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það mun hafa verið í sambandi við kjarasamninga á árinu 1977, að þáv. ríkisstj. ákvað, að sett skyldi á laggirnar sérstök nefnd, gjaldskrárnefnd, til þess að fjalla um verðákvarðanir opinberra aðila.

Það var kveðið á um, að opinberar verðhækkanir skyldu einungis koma til framkvæmda á síðustu 10 dögum, áður en framfærsluvísitalan væri reiknuð út, þ.e. í byrjun febrúar, byrjun maí, byrjun ágúst og byrjun nóvember ár hvert. Þessar reglur hafa í megindráttum haldið sér fram til þessa og voru ítrekaðar af núv. ríkisstj. með skipunarbréfi þeirrar gjaldskrárnefndar, sem nú starfar, dags. 25. febr. 1980.

Í bréfinu segir, að beiðni um breytingar á verðlagningu vöru og þjónustu opinberra aðila skuli sendar viðkomandi rn., eins og verið hefur. Rn. skulu gera gjaldskrárnefnd grein fyrir framkomnum beiðnum og leggja fram rökstuddar tillögur um afgreiðslu þeirra. Verði samstaða með nefndinni og viðkomandi rn., skal verðbreyting heimiluð og hún tilkynnt viðskrh. (ríkisstj.), enda sé breytingin í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmála.

Komi til ágreinings, skal honum skotið til fullnaðarafgreiðslu viðskrh. (ríkisstj.) Opinberar hækkanir skulu aðeins koma til á síðustu 10 dögum, áður en framfærsluvísitala er reiknuð út.

Gjaldskrárnefnd skal reglulega senda verðlagsráði yfirlit yfir ákvarðanir nefndarinnar.

Í bréfi gjaldskrárnefndar til iðnrh., sem kynnt hefur verið öllum hitaveitum, kemur m.a. fram, hvaða upplýsingar hún telur nauðsynlegt, að orkufyrirtæki leggi fram sem grundvöll að mati á hækkunarþörf. Er þar vikið að eftirtöldum atriðum:

1. Verðhækkun.

2. Upplýsingum og samanburði frá fyrri árum.

3. Rekstrarhagkvæmni.

4. Sveigjanleika.

5. Þjóðhagslegri hagkvæmni.

Í bréfinu er einnig lögð áhersla á, að beiðnir um hækkanir þurfi að hafa borist gjaldskrárnefnd eigi síðar en 10. þess mánaðar, áður en verðákvörðun á sér stað.

Eins og af þessu sést, er ákvörðun um hækkun þjónustufyrirtækja orðin mjög þung í vöfum, þegar haft er í huga, að um er að ræða allt að 50 orkufyrirtæki í landinu, þ.e. rafveitur og hitaveitur. Flestar þeirra hafa orðið að hækka gjaldskrár sínar á þriggja mánaða fresti að undanförnu.

Auk þess er hér oft á tíðum um að ræða hækkanir, sem beinlínis leiðir af hækkun á verðlagi undanfarins tímabils en til að þær nái fram að ganga þurfa þær umfjöllun viðkomandi sveitarstjórnar, ráðuneytis, gjaldskrárnefndar og jafnvel ríkisstj.

Æskilegt er, að afgreiðsla á hækkunarbeiðnum, sem beinlínis stafa af hækkun verðlags, væri gerð einfaldari og að þær næðu fram að ganga án svo flókinnar umfjötlunar, a.m.k. meðan verðhækkanir eru svo örar sem raun ber vitni. Öðru máli gegnir um hækkanir, þar sem um er að ræða endurmat á verðlagningu, þ.e.a.s. leiðréttingu á gjaldskrá umfram verðhækkanir.“

Hér lýkur tilvitnun í grein Kristmundar Halldórssonar í Sveitarstjórnarmálum þar sem hann lýsi núverandi verðlagningarkerfi.

Það er einmitt í þessari grein sem því er lýst mjög vel hvernig verð er í raun og veru ákveðið með þrælpólitískum hætti. Þekkt dæmi eru um að ríkisstjórnir hafi heimilað hækkanir á vissum kostnaðarþáttum, en haldið öðrum niðri beinlínis vegna vísitölunnar.

Með þessu frv. vilja flm. hverfa frá hinni brengluðu verðmyndun, sem tíðkast og á sér stað, og benda á máli sínu til stuðnings að það sé eðlilegra að þeir, sem kosnir eru í sveitarstjórnarkosningum til að fara með málefni sem snerta neytendur í viðkomandi sveitarfélagi hafi fullt vald yfir því, hvert verð sé á þjónustu sem þeir eru ábyrgir fyrir. Þetta sé miklu líklegra til árangurs en að ríkisvaldið notfæri sér slíkt verð í pólitísku skyni og valdi með þeim hætti sveitarstjórnum gífurlegum erfiðleikum.

Þetta er áhugamál sveitarstjórnarmanna um land allt, og ég vonast til þess, herra forseti, að fjh.- og viðskn. sjái sér fært að taka á þessu máli með jákvæðum hætti og afgreiða það þannig að það geti orðið að lögum áður en þing er úti.

Að allra síðustu vil ég geta þess, að það er áhorfsmál hvort töluliðurinn 5 á að vera í 1. gr. frv. eða hvort frv. á að vera sérstök málsgrein, sem mundi þá bætast við 8, gr. eins og hún er nú orðuð.