03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2073 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég sé fulla ástæðu til að taka undir orð hv. síðasta ræðumanns. Það mun mála sannast, að þegar þm. Norðurl. e. undirrituðu hið víðfræga bréf, sem síðan var sent ríkisstj., höfðu þeir í huga togara nokkurn franskan sem átti að kosta um 1.5 milljarða kr. Það er líka mála sannast, að þingmannahópurinn, kannske með einhverjum undantekningum, fékk ekkert tækifæri til þess að fylgjast með þróun þessa máls. Það, sem næst gerist, eftir að ríkisstj. heimilar togarakaupin og búið er að taka ákvörðun um málið í stjórn Framkvæmdastofnunar, er að þm. úr kjördæminu fá nokkuð óvæntar fréttir á borðið hjá sér, en þær eru að togaraverðið sé komið upp í rösklega 3.5 milljarða kr. Nú hefði ég viljað beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh., af því að hann er staddur hér í salnum, hver hafi af ríkisstj. hálfu fylgst með framvindu þessa máls, hvort það hafi verið einhver þm. úr þingmannahópnum, hvort það hafi verið fulltrúi sjútvrn. fulltrúi Framkvæmdastofnunar eða hver hafi gert það.

Það verður að segjast eins og er, að hér hefur verið skrifað upp á allmarga „blankótékka“ eins og oft vill gerast hjá stjórnmálamönnum og þeim sem fara með fjármuni almennings. Fyrsti „blankótékki“ kemur raunverulega frá þm. Norðurl. e., annar „blankótékki“ kemur frá ríkisstj. og sá þriðji frá Framkvæmdastofnun, þannig að „blankótékkarnir“ eru orðnir þrír, og það er síðan hlutverk Þórshafnarmanna og Raufarhafnarmanna að útfylla þá tékka.

Ég sagði það á fundi með fulltrúum Framkvæmdastofnunar fyrir nokkrum dögum, að ég teldi að það hefði verið farið freklega á bak við þm. kjördæmisins og ég áskildi mér allan rétt í þessu máli. Hins vegar mun ég ekki skjóta mér undan þeirri ábyrgð sem það bréf, er ég skrifaði undir ásamt öðrum þm. í Norðurl. e., leggur mér á herðar.