03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ummæla hæstv. sjútvrh. um hvaða þm. hygðust nú skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem þeir hefðu tekið á sig. Ég tók það skýrt fram í því sem ég sagði, að það mundi ég ekki gera því að með undirskrift á slíkt bréf hlýt ég að taka á mig ábyrgð. Ég vil bara að skýrt sé í huga sjútvrh. að ekki sé um það að ræða.

Það, sem ég gagnrýndi var einfaldlega þetta:

Þm. sem undir þetta bréf skrifuðu höfðu ekki hugmynd um þróun mála frá upphafi og þar til fyrir nokkrum dögum að lagt var á borðið fyrir framan þá bréf um að togarinn mundi kosta um 3.5 milljarða kr. Þetta er ekki af sambandsleysi við útgerðina. Ástæðurnar eru allt aðrar. Það er prýðilegt símasamband þarna norður hjá okkur og við höfum gott samband. En ég vil segja það, að málið hefur tekið mjög óvænta stefnu og það kemur ekki aðeins okkur þm. á óvart, það kemur á óvart stjórnendum Framkvæmdastofnunar, Ríkisábyrgðasjóði o.fl.