03.02.1981
Sameinað þing: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

134. mál, kaup á togara til Þórshafnar og Raufarhafnar

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég var fjarstaddur í öðrum löndum, að sinna opinberum störfum samt, þegar fyrri hluti þessarar umr. fór fram og hef því ekki fylgst nema lítillega með síðustu ummælum manna í þessu máli.

Meðferð þessa máls er afar einföld: Þm. Norðurl. e. snúa sér til ríkisstj. með beiðni um að úrbætur séu ráðnar á atvinnuástandi á norðausturhorninu, Þórshöfn sér í lagi. Ríkisstj. sendir þetta erindi áfram til Framkvæmdastofnunar, sem sendir síðan álit sitt til baka um að líklegasta leiðin til að ráða framtíðarbót á þessu, líka vegna nýs frystihúss á Þórshöfn, sé sú, að þeim og Raufarhafnarmönnum verði gefinn kostur á að eignast annan togara sem yrði gerður út af félaginu sem fyrir var. — Tillit var líka tekið til Raufarhafnar í þessu sambandi vegna þess að það er erfitt að gera út togara á þeim stað vegna langrar sóknar á miðin. Þar er fiskiðjuver sem aðeins nýtur afla af einum togara. Það kæmi miklu betur út að þeir væru tveir, og þar við bætist að hagkvæmni í rekstri beggja skipanna yrði meiri og ódýrari samfélagsútgerð.

Þetta var skoðun Framkvæmdastofnunar og 1. ágúst samþykkir ríkisstj. að gefa þessum aðilum, útgerðarfélaginu við Þistilfjörð, heimild til að kaupa togara erlendis frá án þess að sigla öðru skipi út í staðinn og gerði Framkvæmdastofnuninni að vera í fyrirsvari fyrir fjármagnsútvegun. Síðan er það, að ríkisstj. ákveður eða fjmrh. notar sér heimild í lögum frá 1972 um að ábyrgjast 80% af kaupverði togarans. Rétt fjórum dögum seinna gerði Framkvæmdastofnun ríkisins þá ályktun, að hún liti svo á að ríkisstj. hefði gert Framkvæmdastofnuninni að útvega 20% af andvirðinu sem á vantaði. Aðilar nyrðra gerðu kaupsamning upp á 2.1 milljarð og miðað við að þarna var um hér um bil alveg nýtt skip að tefla þurfti það ekki að vaxa mönnum í augum. Gert var ráð fyrir að viðbótarkostnaður vegna breytingar, þar sem þetta var rækjuveiðitogari, mundi verða um 300 – 400 millj. kr. Síðan hefur átt sér stað húrrandi gengissig í rykkjum og stökkum, ef svo má segja, sem a.m.k. ríkisstjórnarmenn þurfa ekki að vera undrandi á, en allt að einu er þarna orðinn illskýranlegur — kannske má orða það svo — umframkostnaður við kaupin á þessum togara þannig að nú má gera ráð fyrir að hann kosti um 3.5 milljarða gkr.

Þetta er öll sagan og menn geta haldið áfram að kenna hverjir öðrum um eins og þeim sýnist, en menn geta fengið að kynna sér, ef þeir vilja, eftir bréfaskriftum og öðru alla meðferð þessa máls.

Ég bið forseta minn forláts. Ég hafði ekki haft tækifæri til að ræða þetta mát, en taldi nauðsynlegt að þetta, sem ég nú hef sagt, kæmi fram við umr. um málið.