03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um fiskverðsákvarðanir og önnur mál í því sambandi og gera um leið nokkrar fsp. til hæstv. sjútvrh. eða þá annarra þeirra ráðh. sem telja sig frekar eiga því að svara.

Almennt fiskverð átti að liggja fyrir um síðustu áramót, en þó kominn sé 3. febr. bólar ekki á almennu fiskverði. Verðlagsráð sjávarútvegsins á við ákvarðanir sínar um lágmarksverð á sjávarafla m.a. að hafa hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum svo og framleiðslukostnaði þeirra og skal Verðlagsráð leitast við að ná samkomulagi um lágmarksverð fisktegunda fyrir eitt ár í senn og aldrei fyrir skemmri tíma en eitt veiðitímabil. Það hefur líka verið í gildi að ákvarðanir Verðlagsráðsins hafa náð yfir eitt veiðitímabil, en aldrei fyrir eitt ár í senn.

Nú er svo komið að almennt fiskverð hefur ekki verið til og er ekki til frá áramótum. Og það er ekki nóg að það sé eingöngu almenna fiskverðið, það er ekki heldur til verð á loðnu, það er ekki heldur til verð á rækju og það er ekki heldur til verð á hörpudiski. Allt er látið bíða þrátt fyrir að þjóðin fékk þann boðskap á gamlárskvöld að allir gátu reiknað með því og ætlað að sjaldan yrði fiskverð almennt jafnsnemma tilbúið og einmitt eftir stefnuræðu eða réttara sagt tilkynningu ríkisstj. um áramótin, en þá segir hæstv. forsrh. í fjölmiðlum:

„Að undanförnu hefur ríkisstj. reynt að búa þannig um hnúta að útflutningsatvinnuvegir geti lifað og dafnað við stöðugt gengi. Nú í árslok hefur það gerst í fyrsta sinn um alllangt skeið að allar greinar fiskvinnslunnar hafa jákvæða afkomu. Frystiiðnaðurinn, sem átt hefur á þessu ári í alvarlegum erfiðleikum, hefur nú að mati Þjóðhagsstofnunar um 3.5% í afgang.“

Síðan segir hann: „Til þess að greiða fyrir úrlausn þessa vandasama máls hefur ríkisstj. ákveðið að útvega Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar. Á hliðstæðan hátt verður útvegað fjármagn til að tryggja afkomu samkeppnis- og útflutningsiðnaðar. Útgerð og fiskvinnslu verður gert kleift að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í lengri lán og vextir af gengisbundnum afurðalánum atvinnuveganna verða lækkaðir.“

Með þessum orðum er sagt að ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um að tryggja Verðjöfnunarsjóði að útgerð og fiskvinnsla geti snurðulaust haldið áfram, en samt er nú liðið á annan mánuð og ekkert fiskverð er ákveðið af Verðlagsráðinu. Af hverju hefur Verðlagsráðið ekki ákvarðað fiskverð? Það er vegna þess að það hefur ekkert fengið að vita frá ríkisstjórn Íslands um það, á hvern hátt eigi að tryggja fiskvinnslunni að geta tekið á sig hækkun fiskverðs. Útgerðin hefur heldur ekkert fengið að vita, hvorki í sambandi við rekstrarstöðu sína, hvar hún stendur, né hvað er hugsað í sambandi við framhald olíugjaldsins. Í þessu sambandi má nefna að 27. okt. í haust er meðaltalshækkun launa í landinu 10 –11 % og frá 1. des. eru 9.5% verðbætur á laun. M.ö.o.: Milli 21 og 22% launahækkanir hafa orðið frá því að fiskverð var síðast ákveðið. En fiskverð gildir frá 1. jan. svo að sjómenn og auðvitað um leið útgerðarmenn fá ekki hækkun á fiskverði fyrr en 1. jan. Aðrir launþegar fengu sínar hækkanir 27. okt. og 1. des.

Ég heyrði í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum að talsmaður Framsfl. nefndi 15% hækkun á fiskverði. Vitaskuld sagði hann ekki að hann væri skuldbundinn eða það væri ákveðið, heldur nefndi hann þessa tölu. Ég sé einnig að annað sterkasta málgagn ríkisstj., Þjóðviljinn, nefnir 15% fiskverðshækkun í leiðara í dag og klæðir sig nú aftur í sjómannapeysuna á sama tíma og aðrir launþegar eru með 21 – 22%. Í þessu sambandi er rétt að minna á að skerðing verðbóta á laun 1. des. 1978 var 8%, sem var gerð í eitt skipti fyrir öll. Miðað við hækkun framfærsluvísitölu hefðu verðbætur á laun átt að hækka um 14.12% frá 1. des. 1978, en launin hækkuðu aðeins um 6.12%. 8%, sem á vantaði, átti að bæta launþegum með skattalækkunum, niðurgreiðslum á vöruverði og félagslegum aðgerðum eða félagsmálapakka, eins og það heitir nú á dögum. Ég held að sjómenn almennt telji sinn félagsmálapakka fremur rýran. Hækkun framfærsluvísitölu frá 1. febr. 1979 til 1. nóv. 1980 nemur 38.3%, en hækkun verðbótavísitölu á laun á sama tíma 32.8%. Þarna vantar á 5.5%. Það er eftirtektarvert, að alltaf þarf slíkt að ske þegar vinstri flokkar ráða ríkjum.

Hvernig er svo staða útgerðarinnar? Þolir hún að bíða lengur? Hefur ekki útgerðin og hefur ekki m.a. Þjóðhagsstofnunin bent á að bátar á loðnu eru nú um áramót með mínus 8.7%, minni skuttogarar eru með mínus 11.9%, stærri skuttogarar eru með mínus 17.01% og samtals er útgerðin eða þessi hluti útgerðarinnar með mínus 11.2%. En ef fiskverð breyttist mundi staða útgerðarinnar við 20% breytingu fiskverðs fara á bátum á loðnu í plús 1.51%, minni skuttogarar yrðu áfram í mínus, en færu upp í mínus 0.8%, og stærri togararnir í mínus 6%. Ekki er nú beysnari afkoma útgerðarinnar en þetta. En þá verðum við einnig að hafa í huga að allar þær takmarkanir, sem hafa verið teknar upp og hafa verið í gildi á undanförnum árum, hafa auðvitað geysimikil áhrif á afkomu bæði útgerðar og ekki síður á afkomu sjómanna.

Skuldabyrði útgerðarinnar einnar var um síðustu áramót talin vera um 30 milljarðar kr. Hefur verið gefið loforð um að breyta henni að verulegu leyti í lán til lengri tíma, en þau tilboð eru m.a. fyrir hendi, eins og vegna olíuskulda, að taka þar upp vexti sem eru um 54– 57%. Það bætist ofan á. Þetta er súpa sem útgerðin veltir á undan sér. Það er dæmi sem Þjóðhagsstofnunin tekur ekki með í sína útreikninga.

Þá komum við að fiskvinnslunni. Allir gera nú ráð fyrir að hækkun verði, enda munu ekki nást endar saman nema bæði útgerð og sjómenn fái verulegar hækkanir og það nálægt því sem ég hef hér verið að nefna, að ég tel. Hins vegar er komin upp hjá Þjóðhagsstofnun staða hinna ýmsu greina fiskvinnslunnar.

Þjóðhagsstofnun telur að skreiðarverkunin sé með 25% hagnað og söltunin með 10% hagnað, en staða frystingar sé um 1.6% hagnaður nú um áramótin fyrir fiskverðshækkun. Heildarniðurstöður af ofangreindum tölum telur Þjóðhagsstofnun vera um 7% tekjuafgang fyrir fiskvinnsluna þegar á heildina er lítið. Hins vegar er ekki inni í þessu dæmi neitt í sambandi við loðnuveiðar og loðnuvinnslu og að því er ég best veit liggur það ekki fyrir enn þá þó þetta sé nú liðið frá því. að fiskverðsákvörðun átti að liggja fyrir. Allir geta þó sagt sér að ekki getur verið mjög beysin afkoma þar, miðað við þann mikla samdrátt sem er í veiðum, sem auðvitað gengur þá einnig út yfir loðnuverksmiðjurnar í samdrætti og uppsögnum hjá starfsfólki, sem auðvitað er afleiðing þess mikla samdráttar sem hefur verið í loðnuveiðum.

Þjóðhagsstofnun byggir á rekstraryfirliti 1979, rekstrarreikningum 63 frystihúsa og 43 saltfisk- og skreiðarhúsa. Í rekstraryfirliti frystingar er undanskilin hörpudisks- og rækjufrysting og nokkrar breytingar hafa orðið á úrvinnslu rekstrarreikninga miðað við árið 1979 og fyrri ár. Í tekjuhlið þessarar áætlunar eru liðirnir „selt af hráefni“ og „aðrar tekjur“ ekki að öllu leyti sambærilegir við áætlanir.um fyrri ár. En það er annað sem breytir tölunum í þessum dæmum Þjóðhagsstofnunar. Þó að gengissig hafi verið með miklum heljarstökkum síðustu daga ársins 1980, og með þeim stökkum öllum gat forsrh. sagt í áramótaávarpi sínu að fiskvinnslan væri rekin með hagnaði, miðað við stökkin síðustu daga ársins, er ekki tekinn með hallareksturinn sem orðið hefur, einkum í frystingunni, á árinu 1980, og sú skuldasúpa sem er velt á undan sér af frystihúsunum með þeim vaxtakjörum sem eru af slíkum vanskilum. Dæmið, sem liggur fyrir frá hendi Þjóðhagsstofnunar, er því í reynd ekki nálægt því eins gott og það lítur út fyrir að vera. En þó að dæmi Þjóðhagsstofnunar sé tekið eins og það er lagt fram getur fiskvinnslan ekki tekið nema hluta af væntanlegri fiskverðshækkun.

Þá komum við að því: Hvað er það sem tefur þær ákvarðanir ríkisstj. sem hún segist vera búin að taka á gamlársdag?

Þar er sagt að það eigi að gera Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins kleift að standa undir þessari hækkun að svo miklu leyti sem til hans þarf að grípa. Hlutverk Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins er að draga úr áhrifum verðsveiflna er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Verðjöfnunarsjóðnum er skipt í deildir eftir tegundum afurða og skutu deildirnar hafa aðskilinn fjárhag. Þegar lögin voru sett — og þannig hefur það verið — var ekki hægt að færa á milli deilda. Ef vel gengur í þessari grein, en illa í annarri, er ekki hægt að taka fé sjóðsins og færa það á milli deilda. Ég veit að framleiðendur allir eru þeirrar skoðunar, að slíkt komi ekki til mála. Greiðsla framleiðenda á hverjum tíma til hinna einstöku deilda sjóðsins er framlagt fjármagn sem leggja á til hliðar þannig að hægt sé að mæta áföllum vegna verðfalls erlendis þegar það kemur fyrir þá deild sem um er að ræða. En ef á að færa á milli verður Verðjöfnunarsjóðurinn auðvitað aldrei neinn sjóður. Við höfum séð að frystideildin er alltaf algerlega fjármagnslaus vegna stöðu frystiiðnaðarins um nokkurra ára skeið. Hins vegar hefur verið töluverður tröppugangur í öðrum deildum. Á sínum tíma var skelfiskdeildin algerlega tóm. Nú eru þar verulegar innstæður af því að verðlag þar hefur verið gott og ekki orðið sveiflur niður á við á erlendum mörkuðum, heldur frekar upp á við, sem hafa gert kleift að leggja töluvert á þá framleiðendur sem greiða til þessarar deildar. Það getur svo komið að því, eins og hefur oft komið að áður, að útgreiðslur þurfi að vera miklu meiri en inngreiðslur, eins og hefur verið í flestum deildunum.

Sömuleiðis liggur ekkert fyrir um hvað ríkisstj. hyggst gera í sambandi við olíugjaldið. Olíugjald til fiskiskipa var ákveðið hér í októbermánuði eða frá 1. okt. 7.5%. Þá sagði hæstv. sjútvrh. að hann væri algerlega á móti því að leggja olíugjald á með þessum hætti. Hann var einnig þeirrar skoðunar litlu eftir að hann tók við sjútvrh. embættinu að þegar breytingin yrði gerð í marslok eða aprílbyrjun teldi hann að það ætti að gerbreyta tilhögun þessa olíugjalds. Samkv. því hlýtur hann að hafa, nú þegar hann hefur haft næstum því ár til stefnu, mótað sér skoðun um hvernig hann ætli að koma þessum málum fyrir. Um það verður ekki deilt að útgerðin þarf sannarlega á niðurgreiðslu olíu að halda í einhverri mynd. Við fulltrúar Sjálfstfl. í sjútvn. lýstum okkur reiðubúna til samráðs og samvinnu við ráðh. og stjórnvöld um aðra leið í þessum efnum hér á haustdögum. Við okkur hefur ekki verið talað eitt einasta orð. Það er því sjáanlegt að hæstv. sjútvrh. þarf ekki neitt á ráðum eða samstarfi við stjórnarandstöðu að halda. Það ætti því að vera enn frekari ástæða til að ætla að þessi mál liggi fyrir alveg afgreidd. Því vil ég leyfa mér að spyrja spurninga í sambandi við efnahagsmálastefnu ríkisstj. Þar segir hún:

„Þær aðgerðir í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur undirbúið, mótast af þrem aðalmarkmiðum:

Í fyrsta lagi að efla atvinnulífið og tryggja öllum landsmönnum næga atvinnu.

Í öðru lagi að draga svo úr hraða verðbólgunnar að hún lækki í um 40% á árinu 1981.

Í þriðja lagi að tryggja kaupmátt launafólks, um leið og gjaldmiðli þjóðarinnar verður breytt.“ — Ég veit ekki hvað átt er við með því, hvort það verður með kjaraskerðingunni.

Í fjórða lagi hætti ríkisstj. gengissigi um síðustu áramót, eftir að hafa beitt því vopni mjög myndarlega frá 8. febr. til áramóta þannig að verð á dollarnum hækkaði gagnvart íslenskri krónu um 52% eða fór úr 401.70 dollarinn í 614.70, að mig minnir.

Þá segir í þessari efnahagsstefnu að viðræður verði hafnar við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um framkvæmd samræmdrar stefnu í kjaramátum, atvinnumátum og efnahagsmálum til næstu tveggja ára. — Það er myndarlega af stað farið. Samt held ég að sjómenn, útvegsmenn og aðrir vilji fá fiskverð út vertíðina áður en farið er að leggja í að móta stefnu til tveggja ára, þó að það sé líka mjög gott. Hvenær hófust þessar viðræður, vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. Hvað hefur verið rætt um í þessu sambandi við samtök sjómanna, við samtök útvegsmanna og fiskvinnslu og hverjar eru helstu hugmyndir ríkisstj. um framkvæmd samræmdrar stefnu í kjaramálum, atvinnumálum, efnahagsmálum. Hvernig hafa hagsmunaaðilar atvinnulífsins tekið hugmyndum ríkisstj.? Hér er ekki verið að spyrja á fyrsta degi eftir að ákvörðun er tekin. Það er komið nokkuð á annan mánuð svo að mér finnst nú ekki nema sanngjarnt og eðlilegt að Alþingi fái eitthvað um það að heyra.

Það er líka talað um að gera kleift að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í föst lán og fróðlegt væri að fá að vita einnig um það.

Í sjöunda lagi er sagt að Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins skuli útvegað fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar, eins og til var vitnað í ræðu forsrh. Ég spyr: Hvernig á að útvega Verðjöfnunarsjóði þetta fjármagn til að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar og þar með þessarar atvinnugreinar í heild? Nú er ekki um að ræða neitt lán í því sambandi. Það verður þá að vera framlag eða ábyrgð. Er það ætlun sjútvrh. og ríkisstj. að breyta lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins á þann veg að fara að færa á milli deilda? Það væri fróðlegt og gagnlegt að fá upplýsingar um hvort slíkt hafi nokkurn tíma komið til mála.

Þá er sagt í efnahagsáætluninni að samhliða þessum aðgerðum verði mörkuð atvinnustefna sem tryggi stöðugleika í hagkerfinu, aukna framleiðni og framleiðslu og hagkvæmni í fjárfestingu. Hvað er þessu langt komið? Þetta er að vísu nákvæmlega sama og sagt er í stjórnarsáttmálanum frá 8. febr., svo að þeir hafa haft ár til stefnu, og það er sannarlega kominn tími til þess, að einhverjar upplýsingar séu gefnar í þessum efnum.

Enn segir í efnahagsáætlun ríkisstj.: „Meðal meginþátta slíkrar atvinnustefnu verði samræming veiða og vinnslu í sjávarútvegi, athugun á fjölda fiskvinnslufyrirtækja í einstökum byggðarlögum og samvinna milli þeirra, svo og áætlun um endurnýjun fiskiskipastólsins.“

Ég held að yfirleitt hafi þetta gengið á þann veg, að hér hafi ekki verið neinar samræmdar aðgerðir. Það hefur verið gripið til þess að setja meiri takmarkanir á veiði og þar með um leið takmarkanir á vinnslu og jafnframt hefur endurbygging á fiskiskipastólnum eða kaup nýrra skipa haldið áfram á nokkuð hraðri ferð. Með hverju skipi, sem bætist við, fjölgar því þeim dögum sem skip eru bundin eða eru dæmd til að stunda hið svokallaða skrapfiskirí.

Ekki verður hægt að segja að hægt sé að kenna Verðlagsráði sjávarútvegsins um að hafa ekki gengið frá verðlagningu á sjávarafurðum. Það er ríkisstj. sem hefur stöðvað með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi að þessi ákvarðanataka geti farið fram. Í fyrsta lagi stöðvar hún gengið. Þar með segir fiskvinnslan: Við vitum ekkert hvað við fáum. Við getum ekki tekið á okkur hækkun. Við höfum ekkert útspil fengið. Ríkisstj. hefur sagt: Við ætlum að gera Verðjöfnunarsjóði kleift að standa undir fiskhækkunum. Vitaskuld vilja menn vita á hvern hátt þetta á að gerast. En það hefur ekkert komið fram. Sama er að segja með útgerð og sjómenn. Þeir hafa heldur ekkert fengið að vita og þess vegna hafa þeir beðið. Þess vegna spyr ég: Hvenær ætlar ráðh. að upplýsa yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins um þessi áform ríkisstj. þannig að yfirnefndin geti gengið til verka þegar í stað þegar vitað er hvað það er sem ríkisstj. ætlar að gera til að skapa þessari mikilvægustu grein atvinnulífsins starfsskilyrði? Útgerðin getur ekki beðið lengur. Fiskvinnslan verður að fá að vita sitt, og það verður einnig að fá að vita skoðanir ráðh. Hvað ætlar hann að gera í sambandi við olíugjald eða niðurgreiðslu á olíu til fiskiskipa? Hver eru áform hans í þeim efnum?

Allt þetta er forsenda þess, að hægt sé að ræða saman í fullri alvöru um kjarasamninga á milli sjómanna og útgerðarmanna. Það dettur engum manni í hug að ætla að útgerðarmenn geti rætt kröfur sjómanna um nýja samninga á meðan þeir vita ekkert hvar þeir standa með sinn rekstur. Það er því allt sök ríkisstj. að þetta er í því óefni sem það hefur verið í allt frá áramótum og raunar allt árið 1980 með stórfelldum hallarekstri. Það er því kominn tími til að hæstv. ríkisstj. geri hreint fyrir sínum dyrum. Nú er ekki lengur hægt að ganga fram hjá Alþingi, því að það situr og við fulltrúar þess fólks sem hefur kosið okkur úr útgerðar- og sjómannabæjum og kauptúnum þessa lands, en jafnframt er sjávarútvegurinn ekki minna atriði fyrir verkafólkið og raunar fyrir allar greinar atvinnulífsins aðrar því að hann er burðarásinn undir óðrum atvinnugreinum eða það sem aðrar atvinnugreinar byggja sitt á. Það er það sem sjávarútvegurinn getur í té látið. Þess vegna finnst mér kominn tími til að gera þessi mál hér að umræðuefni og fá skýr svör frá hæstv. sjútvrh. eða þá öðrum ráðh. sem telja sig frekar eiga að svara sumum atriðum þessa máls.