30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

16. mál, rafknúin samgöngutæki

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það gætir nokkuð mikils misskilnings í orðum hv. síðasta ræðumanns, hv. 12. þm. Reykv., þegar hann lætur í það skína í orðum sínum að ég hafi verið með þungan og nokkuð tómlegan tón í garð Gísla Jónssonar prófessors. Hann hefur þá alvarlega misskilið mín orð. Þótt hann sem slíkur komi auðvitað inn í þetta mál var ég að benda á þá aðferð sem viðkomandi ráðh. notaði, þ.e. orkumálaráðherra. Alþ., sem hafði fengið formlega till. um rannsókn á þessu máli, gat ekki leyft sér að afgreiða málið og útvega fé til þess og sækja fjárveitingu til þess. Samt sem áður tekst prófessor við Háskólann að fá ráðh. til að ná þessu fé. Hvernig má vera að þetta fari svona fram hjá hv. Alþingi? — Ég er alls ekki að gera lítið úr verkum þessa ágæta prófessors við Háskólann, Gísla Jónssonar, og ég þekki hann að góðu einu í störfum hans. Hann hefur meira að segja gefið mínum pólitíska flokki margar mjög gagnlegar ábendingar í málum sem hann hefur hvað mesta þekkingu á. En það breytir því ekki, að þessi aðferð við að ná fé til slíkra rannsókna er ekki að þingræðisvenju, svo ekki sé meira sagt.

Ég veit ekki hvar hv. þm. hefur verið á ferð. Mér skildist að hann hefði verið í Bandaríkjunum og rætt við menn þar — bílaframleiðendur — sem lögðu helst upp úr því að þeir þyrftu að fá að vita hvað snjókrap og frost væri. Það hlýtur að hafa verið í Flórida hjá einhverjum mönnum sem aldrei hafa komið út úr því ríki, því að ég hef sjálfur séð hátt á þriðja tug ára rafmagnsbíla hjá stórfyrirtækjum og stofnunum í Bandaríkjunum í notkun og hef lesið um byrjunarörðugleika sem menn hafa lent í þar m.a. vegna þessara atriða. Þetta þekkist líka í Bretlandi. Ég veit til þess þar hjá stórfyrirtækjum. Ég man ekki hvort það eru slíkir opinberir aðilar sem Póstur og sími sem þar eiga í hlut, en sjálfsagt eru þeir menn, sem erlendis hafa dvalist lengi og þekkja vel til, betur kunnugir því en ég og aðrir.

Það er rétt, sem hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson sagði og ég tek heils hugar undir, að íslensk yfirvöld ættu að gera athugun á smábílum með því að kaupa þá í nokkrum mæli og láta opinber fyrirtæki nota þá og þá hreinlega að hafa hug og þor til þess að við getum leyft okkur að rannsaka þetta, ekki á einum litlum smábíl sem notaður er til heimilisnota, heldur þá í slíku skyni sem hann benti á.

Ég benti hér fyrr á árum á þessa smábíla eða minni bíla, sem eru þó alls ekki þýðingarminni en aðrir, og þegar við hugleiðum hina gífurlegu bensineyðslu einkabílanna, sem við notum t.d. hér á stór-Reykjavíkursvæðinu, þar sem nær allt er orðið malbikað, er rétt að gera sér grein fyrir því, að flestir þessir menn aka innan við 100 km á degi hverjum sem er sú vegatengd sem núverandi kerfi þessara rafmagnsbíla leyfir að keyrð sé, eða alla vega 70–80 km. En það, sem ég hef aðallega bent á, eru almenningsvagnar. Ég hef líka bent á það, að það eru auðvitað fleiri þættir sem hyggja þarf að, t.d. í þéttbýlinu, en eingöngu orkusparnaðurinn. Hér í miðborginni í Reykjavík erum við farnir að verða áþreifanlega varir við þá mengun sem stafar af stóru bílunum sem eru notaðir til almenningsflutninga hér innanbæjar. Og verstir eru þeir að sjálfsögðu sem koma úr okkar nágrannabyggðum, enda ekki vandað til legundavalsins þar.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir hans. Ég veit að hann meinar það heils hugar, að þetta beri að skoða atvarlega hjá okkur. Við höfum töluverða reynslu í notkun rafknúinna vinnutækja. Ég bendi t.d. á að hér við höfnina hjá skipafélögum okkar, hefur um margra ára skeið verið notað mikið af rafknúnum tækjum, bæði krönum og lyfturum, sem að sjálfsögðu eru hreyfanlegir og aka um og gera allt annað vinnuumhverfi fyrir þá, sem í kringum þá vinna, heldur en gömlu tækin bensínknúnu. Það er því fleira á að líta en aðeins þáttur orkunnar. Það er líka vinnuumhverfið fyrir þá sem vinna á staðnum, og þá, sem í kring búa.