03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Vitaskuld er það að verða óviðunandi hve fiskverðsákvörðun hefur dregist lengi og stefnir í algert óefni. Ég heyri það hins vegar á yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. hér að það standi ekkert upp á ríkisstj. í þessum efnum. Það er nú í fyrsta skipti sem maður fær að heyra það, og er það kannske frekar boðskapur til þeirra, sem standa í þessum samningum, en beinlínis til okkar sem hér erum staddir á þessum fundi.

En það er annað atriði sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni.

Eins og komið hefur fram hér í ræðum manna var talað um það í svonefndri efnahagsáætlun ríkisstj., að Verðjöfnunarsjóði yrði útvegað fjármagn til að standa undir góðri afkomu fiskvinnslunnar. Menn hafa spurt hvaðan þetta fé kæmi. Þm. Alþb. hafa ekki verið í neinum vafa um hvaðan þetta fé kæmi. Þeir sögðu að þetta kæmi úr gengismunarreikningi eða m.ö.o. úr gjaldeyrisvarasjóði. Viðskrh. hefur svarað því einu, að það mundi aldrei koma þaðan. Ég veit ekki hvort ber að skilja þær yfirlýsingar, sem sjútvrh. gaf hér áðan, þannig, að Alþb.menn hafi horfið frá því stefnumiði sínu, að þessir peningar kæmu úr gjaldeyrisvarasjóðnum. Það virtist a.m.k, ekki vera það sem hæstv. sjútvrh. vildi gefa í skyn. En æskilegt væri að fá skýrari svör um þetta efni. Það væri æskilegt líka vegna þess að Alþb.-menn hafa sagt að atvinnuvegirnir eigi þetta fé. Það sé þess vegna alls ekki um það að ræða að þetta sé styrkur, lán eða neitt slíkt, því að varla verður farið að styrkja menn með peningum sem þeir eiga. Varla fara menn að lána mönnum peninga sem þeir eiga. Er það þá orðin niðurstaða í ríkisstj. núna, spyr ég, að það sé rangt að atvinnuvegirnir eigi þetta fé, og er það þá orðið rangt að peningarnir skuli koma úr þessari áttinni?

Hæstv. sjútvrh. sagði í sjónvarpsþætti nýlega að það fé, sem útvegað yrði með þessum hætti, yrði auðvitað að endurgreiða. Þetta gengur þvert á þær yfirlýsingar sem borist hafa frá ýmsum öðrum talsmönnum ríkisstj., Alþb.-mönnum, um að menn ættu þetta fé. Ég vildi að það kæmi skýrt fram hjá talsmönnum ríkisstj. hvern veg þessu er farið, því að þjóðin öll hefur spurt: Hvaðan kemur þetta fé? Verður um að ræða styrki, lán eða gjöf? Og þjóðin á auðvitað heimtingu á að vita hvað af þessu þrennu það verður. Ef það verður gjöf verður þjóðin skattlögð fyrir því. Ef það verður lán viljum við líka fá tryggingu fyrir því, að þjóðin verði ekki skattlögð til að kosta atvinnurekendur með þessum hætti, heldur fá að vita með hverjum hætti þessir peningar skuli greiddir til baka.

Í annan stað vil ég vara við því að taka nú upp að nýju einhverja misnotkun á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Það var hárrétt, sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var misnotaður í ríkisstjórnartíð Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Bjarnasonar. Þá var ávísað á tóma sjóði. Það var ekki beinlínis rétta leiðin til að hafa hemil á verðbólgunni. Sem betur fer tókst að komast út úr þessum farvegi og hætta því og reka Verðjöfnunarsjóðinn í samræmi við markmið sitt, sem hv. þm. Matthías Bjarnason rakti hér mjög greinilega hvert væri. Og ég vil vara við því, að það verði nú aftur farið inn á þá braut að ávísa á tóma sjóði með bakábyrgðum ríkissjóðs eða einhverjum öðrum hætti því að það verður ekki til þess að auðvelda hagstjórn hér í landi að gelda Verðjöfnunarsjóðinn með þeim hætti að láta hann hverfa frá markviði sínu og láta hann búa til peninga. Ég vil benda mönnum á að reynslan af því á árunum 1976–1977 fram á árið 1978 var mjög slæm og það hafði vaknað almennur skilningur innar greinarinnar jafnt sem meðal almennings á að þetta væri ekki leiðin. Ég vara eindregið við því, að inn á þessar brautir verði farið aftur því að þær liggja til ófarnaðar.