03.02.1981
Sameinað þing: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

89. mál, áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt hér á þskj. 99 till. til þál. um áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins, en meðflm. að þessari till. er hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir, sem nú situr reyndar ekki á þingi, en var hér sem varamaður fyrir Sjálfstfl.

Till. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að kanna líkleg áhrif tölvuvæðingar á skólakerfi landsins. Bæði verði kannað, hver áhrifin muni verða á skólahaldið sjálft með aukinni tölvunotkun í skólunum svo og hvaða kröfur tölvuvæðing í öllu athafna- og atvinnulífi gerir til skólakerfisins.

Nefndin reyni að meta í grófum dráttum, á hvaða sviðum þjóðlífsins tölvuvæðingin komi til með að hafa áhrif og í hvaða tímaröð þau áhrif muni koma fram. Bæði verði tekið tillit til þeirra, sem starfa munu með tölvum eða í tengslum við þær, og einnig til allra hinna sem verða neytendur tölvuefnis.

Á grundvelli þessara athugana verði gerðar tillögur um, hvernig skólakerfið bregðist við þessum áhrifum og þeim kröfum, sem af þeim muni hljótast. Þess verði sérstaklega gætt, hver verði áhrif tölvuvæðingarinnar á almenna grunnmenntun.“

Eins og öllum er kunnugt um eykst tölvunotkun hröðum skrefum bæði hér á landi og annars staðar. Sumir tala reyndar um byltingu í því sambandi og er þess skemmst að minnast þegar sjónvarpið sýndi s.l. vetur röð þátta um svonefnda örtölvubyltingu. Víða um heim fara fram miklar umræður um hvernig við skuli bregðast, bæði í atvinnulífi og í menntakerfi þjóðanna. Við erum vafalaust allmikið á eftir þeim þjóðum sem lengst eru komnar í þessum efnum, en þó ekki svo langt á eftir að við ættum ekki að eiga þess kost að fylgjast með þróun annars staðar og laga hana að þörfum okkar og aðstæðum. Þótt sjá megi fyrir öran vöxt tölvunotkunar verður að sjálfsögðu litlu spáð um nákvæmustu atriði þess vaxtar. Því er mikil og brýn nauðsyn að draga saman það, sem þó verður séð fyrir, og draga af því ályktanir um nauðsynleg viðbrögð.

Það er greinilegt, að tölvuvæðing mun taka til mikils hluta athafna- og atvinnulífs landsmanna. Augljósast er þetta á sviði þjónustu og viðskipta og á þeim sviðum framleiðslu þar sem nákvæmni í starfrækslu eða stjórnun skiptir mestu máli, svo sem í tæknivæddum iðnaði eða umfangsmiklum úrvinnsluiðnaði. Við slíkar greinar starfar verulegur hluti landsmanna. Er því ljóst að það verður í framtíðinni nauðsynlegur þáttur í nokkuð almennri starfsfærni manna að kunna viðeigandi skil á tölvunotkun.

En sé horft til þess, að allir landsmenn eru neytendur alls konar þjónustu er jafnframt ljóst að mikil þörf er almennrar fræðslu um tölvur. Það eykur enn nauðsynina á almennri fræðslu og almenningsfræðslu um tölvur og tölvumál, að tölvuvæðing veldur verulegri röskun á hefðbundnum eða viðteknum starfsháttum. Almenn fræðsla virðist eðlilegasta og nánast eina leiðin til þess að gera landsmönnum í senn kleift að fylgjast með breytingunum og umbera erfiðleikana sem af þeim hljótast, jafnframt því sem mönnum verði gert unnt að nýta þá miklu og jákvæðu möguleika sem þessi tækninýjung getur haft í för með sér.

Talið er að greina megi nauðsynlega kennslu í þessum efnum í þrjá meginþætti. Það er í fyrsta lagi menntun sérfræðinga, í öðru lagi menntun þeirra sem vinna í nánum tengslum við tölvur, eins og t.d. stjórnendur fyrirtækja, og í þriðja lagi menntun almennings sem notar eða er notandi tölvuefnis í æ ríkari mæli.

Ef við víkjum fyrst að menntun sérfræðinga á þessu sviði er þess að geta, að ýmsar þjóðir hafa reynt að leggja mat á hver muni framtíðarþörf fyrir sérfræðinga á tölvusviðinu. Menn hafa reynt að nálgast það á þann hátt að meta, hversu marga sérfræðinga þurfi á hverja tölvu, og reyna síðan að spá um hver verða muni fjöldi tölva í notkun nokkur ár fram í tímann. Allar slíkar spár eru hins vegar mjög erfiðar því að notkunin breiðist mjög ört út og nær til æ fleiri sviða. Ég hef t.d. séð spá, svo gripið sé til fjarlægs lands, frá háskólanum í Tókíó í Japan, en þar telja þeir að nú í ár sé þörf hjá þeim fyrir um 500 þús. sérfræðinga á þessu sviði. Nú verður auðvitað að taka slíkum tölum með fyrirvara og erfitt að ætla að yfirfæra þær yfir á okkar aðstæður, en ef við hins vegar gerum það mundum við nú þurfa ekki færri en um 500 sérfræðinga og jafnvel allt upp í 1000 sérfræðinga á þessu sviði.

Ég held að allir þeir, sem með þessi mál fara og starfa við þau, geri sér grein fyrir að það er mikill skortur á sérfræðimenntun hér á þessu sviði nú og eftirsókn er mikil í þá menn sem sérstaklega hafa menntað sig sem sérfræðinga á þessu sviði.

Þetta atriði á þó aðeins við um menntun sérfræðinga, en þá eru hin atriðin eftir, þ.e. menntun og þjálfun þeirra, sem vinna í nánum tengslum við tölvur, þ.e. stjórnendur stofnana og fyrirtækja sem nota tölvur að einhverju eða öllu leyti, og svo menntun almennings, þ.e. hins mikla fjölda almennra borgara sem eru notendur tölvuefnis í daglegu lífi.

Ýmsar þjóðir hafa á undanförnum árum tekið nám í þessum fræðum þegar inn í skyldunámið. Ég nefni sem dæmi að þegar fyrir 1970 var þetta gert í Ísrael, og jafnframt mun þetta þá að einhverju leyti hafa verið tekið inn í skyldunám í Bretlandi. Enn fleiri þjóðir hafa þó tekið þetta inn í framhaldsnámið eða framhaldsskólastigið, þ.e. hafa fært almenna kennslu í þessu af háskólastigi á framhaldsskólastig. Ýmsar þjóðir höfðu

þegar gert þetta á árinu 1970. Sem dæmi um það má nefna Bretland, Frakkland, Júgóslavíu og Ungverjaland, svo að gripið sé til nokkurra þjóða sem hafa ólíkt þjóðskipulag, og aðrar þjóðir hafa síðan fylgt á eftir. Mér er ekki kunnugt um að nein heildarúttekt hafi farið fram um þetta efni á vegum íslenskra yfirvalda menntamála eða áætlun hafi verið gerð um hvernig rétt sé að standa að þessum efnum.

Ég vil að lokum vekja athygli á einu atriði til viðbótar, en það er notkun tölva sem kennslutækis. Tölvur gefa tilefni og tækifæri til kennslu sem mjög er sniðin að sérstökum þörfum einstakra nemenda. Tölvur hafa verið reyndar sem kennslutæki í héruðum þar sem um mjög dreifða byggð er að ræða, þar sem skólahald er afar dýrt vegna fjarlægðar og dreifðrar byggðar, og tölvur hafa í þessu efni reynst mjög nytsamleg kennslutæki í öðrum löndum. Þá hafa tölvur enn fremur reynst mjög mikilvægar til kennslu ýmissa hópa, sem eiga erfitt með að fylgjast með venjulegum kennsluháttum, t.d. kennslu fyrir heyrnardaufa og hreyfihamlaða. Í þessu efni hefur mjög margt verið gert erlendis sem ég hygg að væri mjög gott fyrir okkur að geta fylgst með og tekið til gaumgæfilegrar athugunar.

Vegna smæðar okkar eru líkur á að við getum haft og fengið sérstök tækifæri til hagkvæmra nota á tölvum og því grundvöllur fyrir örri þróun hér á landi í þessum efnum. Hitt skulum við einnig hafa í huga, að tölvurnar hafa vissar hættur í för með sér. Menn mega ekki trúa um of á þær og því nauðsynlegt að fara að með stakri gát. Þessi till. er hér flutt til að hreyfa þessu máli fyrst og fremst, til að vekja menn til umhugsunar um það og til að fela ríkisstj. að skipa nefnd til að kanna hvernig best verði að þessum málum staðið í allra nánustu framtíð, en ég hygg að það sé mjög brýnt að taka þetta mál upp til skipulegrar athugunar.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni eða þessum hluta hennar verði till. vísað til allshn.