04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins með nokkrum orðum taka undir þá hugmynd sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Stefáns Jónssonar, varðandi það atriði sem hér er um að ræða, þ.e. nöfn þeirra manna erlendra sem hér fá ríkisborgararétt. Mér hefur alltaf fundist þetta ákvæði fremur hæpið. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið viss málverndar- eða máthreinsunarstefna sem lá að baki þeirri hugmynd að láta menn taka sér íslensk nöfn um leið og þeir fengju íslenskt ríkisfang. Hins vegar held ég að það sé alveg rétt, að nafn er svo ríkur hluti af persónu hvers einstaklings að það er hreint út sagt ósanngjarnt að ætlast til þess, að menn kasti nafni sínu fyrir róða ef þeir öðlist íslenskt ríkisfang. Mér finnst hins vegar eðlilegt að um börn þeirra einstaklinga, sem öðlast íslenskan ríkisborgararétt, fari að íslenskum venjum um mannanöfn.

Mér hefur alltaf fundist gæta töluverðs tvískinnungs í þessu efni hér hjá okkur, þar sem töluvert mikið er um ættarnöfn í íslensku þjóðfélagi. Sömuleiðis er töluvert mikið um nöfn sem strangt tekið geta varla kallast íslensk, þó það geti í mörgum tilvikum verið álita- og áhorfsmál. En mér finnst eðlilegt að einstaklingar fái að halda nöfnum sínum. Það eru veruleg skerðing á persónurétti þeirra og persónufrelsi að skylda þá til að kasta nafni sínu.

Mér er ekki kunnugt um að ákvæði þessa efnis séu í löggjöf annarra landa. Þó má vel vera að svo sé. Um það eru væntanlega aðrir menn hér mér fróðari. En ég lýsi stuðningi við þá hugmynd sem felst í þeirri till. er hv. þm. Stefán Jónsson boðaði að hann mundi flytja.