04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á að það hefur verið slakað á þessari reglu frá því sem var. Áður fyrr urðu menn að taka sér alveg íslenskt nafn, bæði fornafn og eftirnafn. En fyrir nokkrum árum var horfið að því ráði að fara meðalveg í þessu efni og krefjast þess aðeins, að menn skiptu um fornafn, en mættu halda sínu ættarnafni. Það á því ekki lengur við í rauninni, sem hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að gerður væri greinarmunur á þeim, sem hefðu íslensk ættarnöfn, og þessum nýju borgurum. Ættarnöfnin hafa haldist samkv. þeim reglum sem settar eru í nafnalögunum, e.t.v. verið farið dálítið frjálslega með þær í sumum tilfellum, ég skal ekki fullyrða um það. En það er sem sagt gerð sú krafa, að menn taki upp íslenskt fornafn.

Mér sýnist við fljótlegan yfirlestur á skrá yfir það fólk, sem hér er gert ráð fyrir að fái íslenskan ríkisborgararétt, að það sé ekki ýkjaerfitt fyrir það að breyta fornafni sínu þannig að það lúti með eðlilegum hætti íslenskum reglum og verði auðveldlega beygt eins og önnur nöfn. Í fljótu bragði sé ég ekki nema einn eða tvo í hæsta lagi sem ættu eitthvað erfitt með það, annars eru þetta nöfn sem má breyta og gera íslensk án mikillar fyrirhafnar.

Þetta getur sjálfsagt verið viðkvæmt mál fyrir þá sem hlut eiga að máli. En á hitt ber að líta, að enginn er neyddur til þess að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Hver og einn hefur frjálst val um það, og eftir þá löngu venju, sem hér hefur ríkt í þessu efni gerir hann sér ugglaust grein fyrir því að þessu skilyrði verður hann að fullnægja. Samt sækir hann um ríkisfangið.

Það má vel vera að þetta sé sérstakt ákvæði hér að því er varðar ríkisborgararétt. En þá er á það að líta, að nafnavenjur og mannanafnahættir eru hér með öðrum hætti en víðast hvar annars staðar, jafnvel á Norðurlöndum. Ég held að það sé eitt af því sem er sérkennilegt fyrir okkar tungu og við ættum ekki að kasta fyrir róða athugunarlítið.