04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það má vel vera, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, að kominn sé tími til þess að endurskoða lög um íslensk mannanöfn, að þau séu orðin úrelt. Ég verð að játa fáfræði mína um þessi lög. Aftur á móti er mér ljóst að ráðh. sagði það satt að misjafnlega hefur þeim verið framfylgt. Nú er ekki þar með sagt að lög séu slæm þótt landslýðurinn eigi bágt með að fylgja þeim. En á þetta er sjálfsagt að líta.

Ég vil ekki tengja hugmyndina um endurskoðun laganna um íslensk mannanöfn því máli sem við ræðum hér nú. Aftur á móti vil ég aðeins víkja að því, sem hæstv. utanrrh. sagði, að því lútandi, að allir vissu þessir menn undir hvað þeir gengjust ef þeir sæktu um íslenskan ríkisborgararétt, að þeir hlytu að skipta um nafn þar með. Það er nú svo, að ekki er þetta algilt. Nefnt get ég dæmi þess, að okkur þótti umsækjandi um ríkisborgararétt svo mikils háttar og eftir svo miklu að slægjast, þar sem hann var, að gera hann að íslenskum ríkisborgara, að honum var við þessu hlíft. Kveðið er á um þetta í lögum hverju sinni. Dæmið, sem ég vil nefna, er Vladimir Ashkenazy, sem var svo heimsfrægur píanisti og músíkmaður að sjálfsagt þótti að hlífa honum við þessu.

Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt. Hitt er svo annað mál, að hann var varla fyrr búinn að fá ríkisborgararéttinn og búið að byggja yfir hann hús hérna heldur en hann sagði að íslenska sinfóníuhljómsveitin væri slæm hljómsveit, og fór svo burt með sitt gamla nafn.

Ég hygg að í hópi þeirra manna, sem við höfum veitt íslenskan ríkisborgararétt á liðnum árum, séu a.m.k. allmargir sem ekki hefðu reynst okkur spönninni verr sem íslenskir þegnar þótt þeir hefðu fengið að halda nafninu sínu. Ég þekki líka erlenda ríkisborgara sem hér hafa dvalist árum saman og reynst hinir nýtustu þegnar, afbragðsmenn í samfélagi sínu, sem hafa veigrað sér við því að taka íslenskan ríkisborgararétt vegna þess að þeir vildu ekki ganga undir þetta jarðarmen. Þeir hafa vitnað til bréfa varðandi þessi skilyrði sem undirrituð voru í dómsmrn. af Möllerum, Björkunum, Hafsteinum, Walterum og Thorsurum, svo aðeins sé vikið að hinni íslensku nafnahefð í þessu sambandi.

Ég er alveg óhræddur um það, að svo verði þeir margir erlendu ríkisborgararnir, sem við veitum hér ríkisborgararétt með annarlegum nöfnum, að þau út af fyrir sig fái raskað íslenskri nafnhefð, sem er nátengd þeirri íslensku þjóðaríþrótt að rekja ættir að hún stendur býsna traustum fótum í vitund fólksins.

Aðeins aftur í lokin þetta sem lýtur að endurskoðun á lögum um íslensk mannanöfn. Ég hlakka til þeirrar stundar, að skipuð verði nefnd til þess að fjalla um þá löggjöf, þó ekki sé nema vegna þess fróðleiks sem ég á von á að verða aðnjótandi við umræður um það mál, ef vera kynni sérstaklega að manni kynni að áskotnast efni í nýjar sögur úr íslensku þjóðlífi um framkvæmd laga á löngum tíma í því sambandi.

En brtt. við 2. gr. frv. höfum við Eiður Guðnason þegar orðað og munum leggja hana fram nú á eftir.