04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

203. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég get ekki svarað fsp. hv. 5. þm. Vesturl. nákvæmlega. Á hinn bóginn get ég tekið það fram, að reynt er að framfylgja þeim reglum, sem settar eru í þessum efnum, á sem þægilegastan hátt fyrir viðkomandi aðila.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að ég geri ekki ráð fyrir að menn vilji yfirleitt raska þeim meginreglum sem hér gilda um nöfn og nafnhefðir. Hins vegar verð ég að halda fast við það sem ég sagði áðan, að ég tel fulla þörf á að endurskoða gömlu mannanafnalögin. Og sé litið í þjóðskrána og athugað hvaða nöfnum börn hafa verið skírð t.d. á undanförnum áratugum, þá kemur ýmislegt í ljós sem fróðlegt er að líta yfir.

Það er alkunna, að 1. gr. nafnalaganna hljóðar eitthvað á þá leið, að hver maður skuli heita einu íslensku nafni eða tveim og kenna sig til föður o.s.frv. Ég hugsa að við þekkjum allir einhvern sem heitir þrem nöfnum eða jafnvel fleirum, og svona mætti lengi telja. Einmitt vegna þess að þetta eru viðkvæm mál þarf að athuga þau gaumgæfilega og reyna að skapa þjálar reglur sem þægilegt er að fylgja og menn geta almennt unað við.