04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2102 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kveð mér hér hljóðs utan dagskrár, eru fréttir sem birst hafa í fjölmiðlum undanfarna daga, í Tímanum í gær og síðan í sjónvarpinu í gærkvöld, og varða úthlutun sjútvrh. á leyfum til skelfiskveiða og vinnslu við Breiðafjörð.

Í Tímanum í gær var frétt sem ég ætla að leyfa mér að vitna hér til, með leyfi forseta:

„Brjánslækur hlýtur leyfi til skelfiskveiða.“ Þar segir síðan: „Sjútvrn. hefur nú að tillögu fiskifræðinga ákveðið að heimila veiðar á 8000 lestum af skelfiski í Breiðafirði á þessu ári, en í fyrra var aflinn aðeins 7000 lestir. Er aukningin komin til af því, að miðin virðast verða gjöfulli með hverju árinu, gagnstætt því sem við mætti búast, því að sókn hefur aukist ár frá ári.“— Síðar í þessari frétt segir: „Hins vegar er ákveðið að Soffanías Cesilsson á Grundarfirði fái 400 lestir í ár, eins og í fyrra, og Brjánslækur 400 tonn, en þaðan hefur ekki verið sótt á skel áður. Mun aðstöðu til vinnslunnar verða komið upp á Brjánslæk innan tíðar. Með því að veita þetta leyfi til Brjánslækjar er stefnt að því að færa veiðina á svæði norðar í Breiðafirði, sem miður hafa verið nýtt en þau syðri, þar sem löng sigling er úr Stykkishólmi norður eftir.“

Í fréttatíma sjónvarpsins í gærkvöld var frétt um þetta sama efni. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Langmestar eru veiðarnar við Breiðafjörð og verður á þessu ári leyft að veiða þar 8000 lestir í stað 7000 lesta í fyrra. Mestur hluti aflans verður verkaður í Stykkishólmi, en á tímabili var Hraðfrystihús Sigurðar Ágústssonar eina vinnslustöðin, sem vann hörpudisk á landinu, og vinnur nú úr um eða yfir helmingi alls hörpudisks sem berst á land á landinu öllu. Auk þess er önnur stór vinnslustöð í Stykkishólmi, Rækjunes, sem vinnur úr u.þ.b. 20% aflans. Tvær aðrar vinnslustöðvar við Breiðafjörð hafa einnig fengið leyfi til vinnslu á hörpudiski, 400 lestir hvor, í Grundarfirði og á Brjánslæk á Barðaströnd. Þetta er í fyrsta sinn sem vinnsla er leyfð við norðanverðan Breiðafjörð, og fer hún fram í húsum Hrefnuvinnslunnar á Brjánslæk.

Fiskifræðingar settu það skilyrði fyrir aukinni veiði á Breiðafirði að nýtt yrðu veiðisvæði sem ekki hafa verið nýtt til þessa, en þau eru aðallega við norðanverðan fjörðinn.“

Og nú bið ég hv. dm. að taka sérstaklega eftir: „Breytingar þarf að gera á vinnslustöðinni á Brjánslæk til þess að hægt sé að vinna þar hörpudisk. Og engir bátar eru til á Barðaströnd sem henta til veiðanna. Þá eru hafnarskilyrði erfið og þarf að sæta sjávarföllum við löndun. Þar hafa menn eingöngu stundað grásleppuveiði til þessa. Fleiri hafa sýnt áhuga á vinnslunni við Breiðafjörð, svo sem í Búðardal. Þar var unninn hörpudiskur um skeið, sem ekið var frá Stykkishólmi.“ — Hér lýkur þessari tilvitnun.

Það er nú rétt, held ég, að það komi fram strax, að það er rangt í þessum fréttum að miðin norðan til á Breiðafirði hafi ekki verið nýtt. Þau hafa vissulega verið nýtt, þó svo kannske að önnur mið, sem nær eru, hafi verið meira nýtt. Hins vegar er mér kunnugt um það, að þeir, sem þessar veiðar stunda frá Stykkishólmi, hafa gert það að tillögu sinni að miðin norðan til í Breiðafirði yrðu einkum nýtt að sumrinu til þegar veður eru góð, en miðin nær, þangað sem styttra er að sækja, yrðu nýtt á vetrum þegar veður eru misjafnari og brælur tíðar.

Nú er það svo um þessar mundir, að það fæst allgott verð fyrir hörpudisk, og þá vilja auðvitað allir njóta góðs af því og allir fara í þessa veiði og þessa vinnslu. Þetta hefur ekki alltaf verið svo. Verð á hörpudiski hefur fallið og verið mjög lágt stundum, og þá hefur enginn haft áhuga á að stunda þessar veiðar nema þeir í Stykkishólmi, enda hafa þeir ekkert annað. Skelfiskveiðin er undirstaða atvinnulífs í því byggðarlagi og beint framfæri og beina atvinnu af skelfiskveiðunum í Stykkishólmi hafa að sögn sveitarstjórans þar kringum 200 manns. Það er óneitanlega býsna stór hópur í ekki stærri byggð og fjölmennari en Stykkishólmur er.

Veiðikvótinn hefur verið aukinn nokkuð í ár. Frétt Tímans má skilja sem svo, að miðin gefi meira og meira af sér eftir því sem meira er sótt. Þetta er nú auðvitað svolítið hjákátlega eða hjárænulega komist að orði. Hitt er rétt, að samkvæmt upplýsingum fiskifræðinga hefur afli á sóknareiningu aukist, og til þess kunna að vera einkum tvær ástæður: Í fyrsta lagi að komið hafi inn einn eða tveir mjög góðir árgangar. Það verður auðvitað skammgóður vermir nema fleiri fylgi á eftir. Í öðru lagi virðist svo sem afköst veiðarfæranna hafi aukist án þess að þau hafi beinlínis stækkað, en menn hafa náð betri tökum á þessari veiðitækni.

Fiskifræðingar þeir, sem gerst hafa fylgst með ástandi skelfiskstofnsins á Breiðafirði, telja að stofnstærðin sé 50 – 80 þús. tonn, úr því megi veiða 10% á ári. Sá 8 þús. tonna hámarksafli, sem settur hefur verið núna, er því algjört hámark. Það er öllum ljóst og það segja fiskifræðingar. Hér er því boginn spenntur til hins ýtrasta.

Þess ber að geta, að í Stykkishólmi einum er vinnslugeta fyrir allt þetta magn. Það er auðveldlega hægt að vinna þar allt það magn sem veiða má. Og ég undirstrika það, að þar er skelveiðin undirstaða atvinnulífs.

Sjútvrh. hefur hins vegar, að því er virðist, valið þá leið að skipta þessum afla milli æ fleiri. Hann hefur veitt leyfi í Grundarfjörð. Nú hefur hann veitt leyfi á Brjánslæk. Þetta leysir engan vanda. Þetta flytur vandann milti staða. Þegar leyfið var veitt til Grundarfjarðar — það hafði verið staðið gegn slíkri leyfisveitingu áður — bar ekki brýna nauðsyn af atvinnulegum ástæðum til að veita slíkt leyfi þangað. Þá var, ef mér skjátlast ekki, töluvert mikið af erlendum stúlkum í vinnu þar við fiskvinnslu. Það var því ekki það sem knúði á um leyfisveitingu. Nú er samkvæmt þessum fréttum búið að veita leyfi til vinnslu á Brjánslæk. Þar er ekki hafnaraðstaða, þar er ekki bátur sem getur annað þessum veiðum, og þar er ekki vinnsluaðstaða. Hvað er þá hér á bak við? Og hvað er hægt að réttlæta mikla fjárfestingu til þess að veiða og verka 400 tonn af skel. Ég hygg að það sé ekki há tala.

Það hefur því miður einkennt alla stefnu í sjávarútvegsmálum í tíð hæstv. núv. ráðh., að þar sem á hefur verið þrýst, þar hefur verið undan látið. Jafnframt segist hæstv. ráðh. oft og einatt vera algjörlega andvígur því sem hann sjálfur er að gera. Einhvers staðar stendur skrifað: Það góða, sem ég vil, geri ég eigi En í framhaldi af þessari ákvörðun sjútvrh. tel ég nauðsynlegt að fá svör hans við nokkrum spurningum.

Er þessi ákvörðun, að dreifa þessum veiði- og vinnsluleyfum út um hvippinn og hvappinn, í samræmi við stefnu ríkisstj. eins og hún birtist í stjórnarsáttmálanum? Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Fiskveiðar og fiskvinnsla verði samræmd eftir því sem tök eru á, þannig að hagnýting fiskiskipastóls og fiskvinnslufyrirtækja verði sem best. Í þeim efnum verði komið á samstarfi þeirra aðila, sem mestra hagsmuna eiga að gæta, um löndun afla og dreifingu milli staða með það markmið í huga að tryggja jafnan og stöðugan rekstur og atvinnuöryggi þess fólks sem við fiskveiðar og fiskvinnslu starfar.“

Þessi ráðstöfun hæstv. ráðh. er ekki til þess fallin að tryggja atvinnuöryggi fólks í Stykkishólmi a.m.k. Við þetta bætist svo að í framhaldsstjórnarsáttmála, sem gefinn var út og fluttur í sjónvarpinu ásamt öðrum grínþáttum á gamlárskvöld, segir orðrétt.

„Meðal meginþátta slíkrar atvinnustefnu verði samræming veiða og vinnslu í sjávarútvegi, athugun á fjölda fiskvinnslufyrirtækja í einstökum byggðarlögum og samvinna milli þeirra, svo og áætlun um endurnýjun fiskiskipastóls.“

Er það samræming veiða og vinnslu sem sjútvrh. er hér að fylgja fram? Þessu verður hæstv. ráðh. auðvitað að svara. En það er fleira sem ég hef í hyggju að spyrja um hér. Nú kemur örugglega að því að mati fiskifræðinga, að draga verður úr þessum aflakvóta á Breiðafirði. Það er næsta ljóst. Hvernig verður það gert? Verða þá afturkölluð leyfi þeirra, sem síðast fengu leyfi, eða verður dregið jafnt að tiltölu úr veiði hjá öllum? Þetta skiptir verulegu máli.

Enn spyr ég, því að vitað er að það er víðar áhugi á skelfiskvinnslu. Tillaga hefur komið hér fram um að leyfa slíka skelfiskvinnslu í Flatey. Ég álít að sú tillaga sé jafnvanhugsuð og sú ráðstöfun sjútvrh. að leyfa þessa vinnslu á fleiri stöðum. Vitað er að í Búðardal hefur verið verkaður skelfiskur sem fluttur hefur verið frá Stykkishólmi, eins og fram kom í máli mínu áðan. Verður vinnsla leyfð nú í Búðardal? Mér þætti ekkert ólíklegt að sótt yrði á um það. Og fleiri staðir koma til greina. Ekki er ólíklegt að beiðni kynni að berast annars staðar frá, t.d. frá Ólafsvík eða Hellissandi. Ætlar sjútvrh. að veita fleiri leyfi til veiða og vinnslu? Við þessu verða einnig að fást skýr svör. Er það stefna ríkisstj., sem ráðh. er hér að framfylgja, eða eru þetta einkaskoðanir ráðh. sem hér sjá dagsins ljós? Á það var minnst hér áðan, að skelfiskurinn væri undirstaða alls atvinnulífs í Stykkishólmi. Ég hygg að ekki sé of djúpt í árinni tekið þó sagt sé að með þessum aðgerðum sé veríð að grafa undan atvinnulífi í Stykkishólmi. Og það er kannske verið að gera annað í leiðinni. Það er verið að undirbyggja það, að nauðsynlegt reynist að fá skuttogara, einn eða tvo, til Stykkishólms til að tryggja þar atvinnu ef atvinnulífið á ekki að hrynja. Sá bátafloti, sem menn í Stykkishólmi eiga, er ekki til neinna úthafsveiða. Það eru gamlir bátar, litlir bátar sem duga til skelfiskveiðanna, en þeir eru ekki til þeirrar sjósóknar sem annan afla getur flutt þar að landi. Bátafloti þeirra er ekki þannig úr garði gerður. Ef á að taka burt úr Stykkishólmi þessa atvinnugrein, sem hefur sérhæft sig í vinnslu þessara sjávarafurða, þá kallar það auðvitað á aðrar ráðstafanir ef ekki á að leggja þar allt atvinnulíf í rúst.

Ég hef orðið var við það mjög áþreifanlega vestur í Stykkishólmi, að fólk þar hefur nú áhyggjur af hag sínum. Og það hefur áhyggjur af þeirri stefnu sem því sýnist sjútvrh. vera að framfylgja. Ég var þar á ferð fyrir stuttu og heimsótti þá báðar vinnslustöðvarnar þar sem skelfiskur er unninn. Konurnar, sem þá voru að vinna í Rækjunesi, höfðu orð á því, að gaman væri nú að fá hæstv. sjútvrh. þangað í heimsókn svo að þær gætu skýrt fyrir honum sín atvinnusjónarmið, sína hagsmuni. Og þær bættu því við, að hann gæti kannske skroppið á skíði í leiðinni, ef það mætti verða til þess að lokka hann vestur. Þessum skilaboðum er hér með komið á framfæri.

Hjá sjómönnum er vissulega líka uggur núna. Þeir hafa séð hvaða aðferðum menn beita, hvaða aðferðum er helst að beita til þess að fá sitt fram við núverandi stjórnarfar. Þeir menn, sem hafa boð og bönn að engu, fara sínu fram, veiða þrátt fyrir veiðibann, þeir fá sitt fram. Auðvitað veldur þetta því, að menn hugsa sitt.

Mér sýnist að það leyni sér ekki, að hæstv. sjútvrh. vill ekki hafa stjórn á þessum veiðum. Hann lætur ævinlega undan þegar á er þrýst, hann vill ekki hafa stjórn á veiðunum vegna þess að þá þarf að segja nei. Og það virðist hæstv. núv. sjútvrh. eiga afskaplega erfitt með. Jafnvel þegar hann segist vilja segja nei, þá er hann jábróðir hvers manns þegar til kastanna kemur í þessum efnum. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég ítreka það, að hér er að mínu mati um mjög atvarlegt mál að ræða. Hér er í rauninni um „prinsip“-mál að ræða, þ.e. hvort á að hafa stjórn á þessum veiðum eða ekki, og hvort atvinnulíf á stað eins og Stykkishólmi, sem hefur sérhæft sig í þessari grein sjávarafurða, á að halda áfram að vera blómlegt eins og verið hefur, eða hvort sjútvrh. ætlar sér með aðgerðum sínum að leggja það atvinnulíf í rúst.