04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2106 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh.(Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst að gefnu tilefni gefa hv. þm. gott ráð. Ég held hann ætti að bregða sér á skíði, því að það er staðreynd að það fer saman líkamlegt ástand og andlegt. Og mér heyrist satt að segja eftir þessa ræðu að honum veiti ekki af að bæta a.m.k. sitt andlega ástand.

Staðreyndin er sú, að í sambandi við hörpudisk á Breiðafirði hefur verið mikill ys og þys, það er rétt. Hins vegar er flestallt annað, sem fram kemur í orðum hv. þm., rangt. Það er alveg rétt, að vitanlega ber og er þess gætt að þær vinnslustöðvar, sem hafa verið sérstaklega byggðar til að sinna hörpudiskvinnslu, fái a.m.k. það magn sem þær hafa áður fengið. Það fá þær. Báðar vinnslustöðvarnar í Stykkishólmi fá meira magn en þeim hefur nokkru sinni, eða a.m.k. síðustu árin, verið úthlutað í þessu sambandi. Til Stykkishólms er úthlutað núna 7200 lestum af hörpudiski. Upphafleg úthlutun á síðasta ári var 6000 lestir. Síðan kom viðbótarmagn þannig að þetta hækkaði upp í 7000 lestir, og var þá heildarmagnið til Stykkishólms 6600 lestir með því viðbótarmagni.

Ég verð því að segja að með 7200 lestum er alls ekki verið að stofna atvinnulífi í Stykkishólmi í voða. Atvinnulífið fær meira en það hefur yfirleitt áður fengið. Ég verð hins vegar að taka það fram að mér hefur sýnst ýmislegt annað í Stykkishólmi þannig að það þyrfti að skoða. Til dæmis er ekið með töluverðan fisk úr Stykkishólmi út í Rif og hann unninn þar. Ef atvinnuástand er bágborið, hvers vegna er þetta þá gert? Ég held að hv. þm. ætti að heimsækja fleiri fyrirtæki í Stykkishólmi og fá að kynnast því hvers vegna þau fá ekki fisk.

En ég held að sem betur fer sé atvinnulíf í Stykkishólmi á góðum stoðum og gæti orðið enn sterkara ef menn ynnu þar bæði þann hörpudisk, sem þeir fá, og einnig þann fisk sem bátarnir þaðan afla. Hann á vitanlega að vinna heima, og getur það orðið góður grundvöllur fyrir þau fyrirtæki sem kvarta undan því að þau fái ekki fisk, fyrr sé ekki ekið með hann á brott. Hv. þm. hlýtur að þekkja þetta, hann virðist svo oft koma þarna við.

Ég vísa því algjörlega á bug, að á nokkurn máta sé verið að kippa fótum undan rekstri þessara fyrirtækja í Stykkishólmi. Ég endurtek: Þau fá það magn og ríflega það sem þau hafa áður haft. Ég vil einnig leggja á það ríka áherslu, að það ber að hafa í huga. Það er alveg rétt. Hitt er svo annað mál, að ég starfa alls ekki svo vélrænt að það komi alls ekki til mála að neinir aðrir aðilar við Breiðafjörð, t.d. þar sem atvinnuástand kann að vera erfitt, fái einhvern lágmarksskammt af hörpudiski til að bæta atvinnuástandið. Við þurfum líka að líta á hina mannlegu þætti víðar um Breiðafjörð heldur en í Stykkishólmi.

Ég vil jafnframt upplýsa það, að ranglega er farið með staðreyndir í sambandi við Flóka hf. sem fyrirtækið á Barðaströnd heitir. Áður en þeim var úthlutað þessum lágmarkskvóta, sem ég vil kalla, 400 lestum, var að sjálfsögðu kannað hvernig þar er ástatt. Ég þarf reyndar engan að spyrja að því, þekki það vel, að þar er mikil þörf fyrir einhverja atvinnubót. Fólk vill búa þarna og er þarna, hefur reynt að skapa sér aðra atvinnu með grásleppuveiðum og fleiru. En það vantar eitthvað til að fylla aðeins upp í þannig að fólk geti með sæmilegu móti verið þarna sem það vill vera.

Þarna er fyrirtæki sem er ekki gamalt. Þarna eru ágæt húsakynni. Hv. þm. gæti skroppið yfir fjöllin og skoðað það. Þarna er nýr frystir. Þarna þarf litla fjárfestingu í húsakynnum, eins og gengið var úr skugga um áður en leyfið var veitt, annað en hristara og gufuketil, sem er lítil fjárfesting. Það, sem hv. þm. las úr fréttum áðan er því rangt. Þarna þarf ekki mikla fjárfestingu.

Ég vil jafnframt taka það fram, að í því bréfi, sem Flóka hf. hefur verið skrifað var tekið fram að þetta lágmarksmagn væri veitt til þess að bæta atvinnuástand á staðnum, en skýrt tekið fram að ekki væri til ætlast að það yrði til þess að lagt yrði í nokkra umtalsverða fjárfestingu. Og athygli var vakin á því, að með lögum um samræmingu á veiðum og vinnslu þarf fyrirtæki heimild rn. til þess að leggja í slíka fjárfestingu. Þetta var undirstrikað í því bréfi, og getur hv. þm. fengið það ef það skyldi, auk skíðamennskunnar, lagfæra eitthvað hans sálarró.

Ég vil hins vegar líka taka annað fram. Ég hef ekki úthlutað leyfunum til Stykkishólms vegna þess að ég óskaði eftir að þau fyrirtæki létu rn. í té upplýsingar um hvernig afkastageta fyrirtækjanna hefur þróast, þ.e. hver fjárfesting hefur verið á undanförnum árum. Ég komst að því, að þess hefur ekki verið gætt að krefja slíkra upplýsinga. Ég vil fá að sjá hvort þar hefur verið lagt í fjárfestingu án heimildar. Ég er ekki að segja að svo sé — alls ekki. En ég tel nauðsynlegt að lögum um samræmingu veiða og vinnslu sé framfylgt með því að fylgjast með því og krefjast þess, að leyfa sé leitað til þess að auka afkastagetu þeirra fyrirtækja sem eru í þessari grein.

Hv. þm. segir að augljóst sé að draga þurfi úr hámarksveiði á Breiðafirði. Hann veit þá betur en ég. Þetta sama var sagt um þorskstofninn árum saman og veiðin hefur þó aukist og stofninn styrkst. M.a. hafa fiskifræðingar upplýst mig um það, að á vissum svæðum, þar sem mikið var af skel, stækkaði skelin og afköstin urðu meiri eftir að veiði hófst.

Það er einnig rétt sem hv. þm. sagði, að áhersla hefur verið lögð á að stunda veiðarnar í ríkari mæli norðan til á firðinum, og það hefur verið gert að nokkru leyti. En það réð nokkru um það, að ég taldi ekki óeðlilegt að leyfa þeim stað, sem er næstur þeim miðum, að fá einhvern smávegis aðgang að þeirri hörpuskel sent þar er.

Ég get einnig upplýst hv. þm. um það, að talið er ekki ólíklegt að skel — reyndar kannske önnur skel, svokölluð hjartaskel, sem er allverðmæt einnig — sé út af Rauðasandi, og m.a. annar framleiðandinn í Stykkishólmi hefur boðist til að aðstoða við það, að þá skel mætti vinna á Barðaströndinni. Hann virtist a.m.k. ekki hafa á mót því, að sótt verði í þá skel. Ég fagnaði því og tel sjálfsagt að slíkt verði kannað, ef það gæti orðið einhver stoð atvinnulífi í fátækum og litlum hreppi.

Hv. þm. spurði um aðra staði. Rétt er, að minnst hefur verið á Flatey, og ég teldi mjög æskilegt, ef það gæti orðið til að styrkja veikt byggðarlag, að einhver smákvóti gæti runnið til þess staðar. Þar hagar hins vegar svo til, að þar er lítið vatn sem hægt er að nota, rafmagn af skornum skammti, húsin mjög gömul og sem sagt engin aðstaða til að vinna skel, því miður, svo að ég treysti mér ekki til að veita slíkum stað vinnsluleyfi.

Hv. þm. spyr um bát. Flóki hf. hefur gert ráð fyrir því, það var kannað að sjálfsögðu áður en leyfið var veitt, hvernig þessarar skeljar yrði aflað. Eigendur tjá okkur að þeir séu í viðræðum við eiganda báts á Snæfellsnesinu sem muni verða fáanlegur til að landa þessu magni hjá þeim.

Hv. þm. segir að þarna sé erfið aðstaða, hefur það úr fréttum. Það er að vísu rétt, að við útfiri er erfið aðstaða. En flóabáturinn Drangur kemur þarna að og hefur ekki átt í vandræðum með það. Það þarf að sæta sjávarföllum að nokkru, en þau eru mörg tilfellin hér á landi að slíkt þarf að gera jafnvel á stærri stöðum en þarna er. Við teljum að þetta sé ekki því til fyrirstöðu, að þessu magni megi landa þarna á Barðaströndinni.

Hv. þm. spyr um framtíðina. Hún er að sjálfsögðu mjög háð því, hvort hans slæmu dómar eða spár um framtíðina rætist eða ekki. Ég endurtek það, að að sjálfsögðu verður fyrst og fremst að tryggja að þau fyrirtæki, sem hafa byggt sig upp til þessarar vinnslu, fái það magn sem gerir þeim reksturinn arðbæran og mögulegan, og þess mun verða vandlega gætt. Ástæðan fyrir því, að ég taldi mér fært að veita fleirum leyfi, var sem sagt sú, að um viðbótarmagn er að ræða. Það er hægt að handvinna það magn með mjög lítilli fjárfestingu á þeim stöðum, sem leyfi fengu, og áhersla lögð á að slíkt leiði ekki til viðbótarfjárfestingar.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að það er ekki lítið sem á gengur í kringum skelina. Hún er arðbær og menn seilast í það sem mestan arðinn gefur, og kannske ekki óeðlilegt, en mér finnst satt að segja í því sambandi hafa verið þyrlað upp æðimiklu moldryki. Mér finnst nokkuð hart gengið eftir hjá þeim aðilum sem að þessu hafa setið einir. Þeir eru góðra gjalda verðir. Þeir hafa byggt myndarlega upp sín fyrirtæki og þau þarf að tryggja. En mér finnst ansi hart eftir gengið að heimta allt magnið. Ég hef einnig bent á að þarna er annar sjávarafli, sem má nýta og á að nýta, og ég hef fullan hug á því í sambandi að skelfiskleyfin, sem veitt verða til Stykkishólms, að leggja drög að því að sá afli verði unninn á staðnum. Og þá er það ekki síður til þess að efla atvinnulíf í Stykkishólmi heldur en þótt þeir hefðu fengið öll þessi 800 tonn sem aðrir fá að njóta af atvinnuástæðum. Ég vil gjarnan leita samvinnu við hv. þm. um að sá fiskur, sem hefur verið fluttur á brott, verði unninn á staðnum. Eigum við ekki að sameinast um það og reyna þannig að styrkja atvinnulífið þarna?