04.02.1981
Efri deild: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður gat um er það nokkur nýlunda að stjórnarandstæðingar skuli standa hér upp til þess að verja gerðir ríkisstj. Og raunar er það nú svo með Sjálfstfl., að hann er í senn í stjórn og stjórnarandstöðu, þannig að maður veit í rauninni aldrei hverju maður á von á þaðan, og sannaðist það rækilega hér í þessum ræðustóli áðan.

Það getur vel verið að hv. 4. þm. Vestf. þyki þetta lítið tilefni. Mér þykir það hins vegar ekki og þar greinir okkur á. Ég hygg að því fólki, sem við þetta starfar vestur í Stykkishólmi, þeim 200 einstaklingum sem af þessu hafa atvinnu þar, þyki þetta ekkert lítið mál. Og þegar hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson segir að þessi ráðstöfun sjútvrh. sé spor í rétta átt, en talar í hinu orðinu um myndarskap þeirra í Stykkishólmi, hversu mikil undirstaða atvinnulífsins þetta sé, hve myndarlega sé staðið að málum þar, sem er alveg hárrétt hjá honum og ég get tekið undir, þá finnst mér óneitanlega gæta töluverðrar þversagnar í málflutningi hans, að ekki sé meira sagt.

Hv. þm. kaus að snúa þessu upp í umr. um landbúnaðarmál. Það er alveg rétt, að við Alþfl.-menn höfum haft ýmsar aths. að gera við þá stefnu sem fylgt hefur verið í landbúnaðarmátum. Og nú er svo komið, bændasamtökin hafa fallist á þau sjónarmið, sem um langt árabil var haldið fram af Alþfl., að það væri nauðsyn að takmarka framleiðsluna. Á það hefur verið fallist, það sýna verkin. En það er ekki lausn á vandamálum landbúnaðarins að grípa til ráðstafana sem þessara. Það er víðs fjarri öllum sanni. Áreiðanlega hefði mátt finna einhverjar aðrar aukabúgreinar sem þarna hefðu hentað. Það var minnst hér áðan á verkun hjartaskeljar. Áreiðanlega hefði mátt finna eitthvað annað, sem betur hefði hentað, heldur en að skera af því sem aðrir hafa byggt sína atvinnu og afkomu á. Ég hygg að það sé ekki rétta leiðin.: Ég ætla svo ekki að hafa um þetta fleiri orð, vona hins vegar að hæstv. sjútvrh. svari þeim spurningum sem til hans var beint hér áðan.