05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég óska eftir því að beina fsp. til hæstv. sjútvrh. varðandi útgerð þeirra Efnahagsbandalagsmanna, og þá fyrst og fremst Þjóðverja, á Grænlandsmið og þau mál sem þeirri útgerð eru tengd. Nú er mér ljóst eigi síður en öðrum, hver vandkvæði eru á því fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa beint og formlegt samband við þá Grænlendinga í sambandi við þetta mál. Hitt er ljóst, að útgerð sú, sem nú hefur verið ákveðin við Austur-Grænland, er ákvörðuð í trássi við vilja Grænlendinga og að hér er um að tefla mjög svo ríka hagsmuni Íslendinga, eigi síður og jafnvel enn þá fremur en Grænlendinga í bili.

Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh., hvort ekki hafi verið haft formlegt samband við Grænlendinga þrátt fyrir þá erfiðu pólitísku stöðu sem þeir eru í varðandi þessi mál, og þá e.t.v. fyrst og fremst, hvort við megum ekki treysta því, að Íslendingar bjóði ekki Efnahagsbandalagsríkjunum aftur sérstaka aðstöðu til þess að gera við veiðiskip sín við Austur-Grænland í íslenskum höfnum gegn því að Íslendingar fái, í umboði Efnahagsbandalagsins og þrátt fyrir stöðu Grænlendinga, að gera út á þessi sömu mið, sem hér er deilt um. Ég ítreka það, að mér er ljóst að staða ríkisstj. er formsins vegna ekkert þægileg í þessu sambandi. En hitt má vera ljóst, að ef við Íslendingar sýnum Grænlendingum nú í verki stuðning í þessu viðkvæma máti kynnu þeir að bregðast við álíka og við Íslendingar brugðumst við þegar Færeyingar neituðu breskum og þýskum skipum viðgerð í færeyskum höfnum meðan á landhelgisstríðinu stóð. Og ég efast ekkert um að það kynni að skaða mjög samband okkar við Grænlendinga, jafnnauðsynlegt og það er, ef við héldum tilboðum af þessu tagi til streitu.

Nú þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess af hálfu Alþingis — sem ég hygg að sæmd sé að — að stofna sjóð til þess að treysta menningartengsl við Grænlendinga. Flutt hefur verið hér till. af Árna Gunnarssyni og nokkrum öðrum þm. úr öðrum flokkum á þá lund, að tekið verði upp samband milli þjóðþinganna um meginhagsmunamál. En það er ákaflega þýðingarmikið að mínu mati að ríkisstj. gæti þess í viðræðum við Efnahagsbandalagið að taka ekki stöðu sem túlkuð yrði eins og hún væri gegn Grænlendingum í þessu meginhagsmunamáli. Upp á þetta hljóðar spurning mín til hæstv. sjútvrh., hvort gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að taka upp eðlilegt og vingjarnlegt samband við Grænlendinga um þetta mál.