05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

96. mál, vegagerð

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. samgrh. lét þau orð falla að till. okkar sjálfstæðisþingmanna væri óskalisti stjórnarandstöðu. Ég vil benda honum á að verði þetta kallaður óskalisti er hann líka óskalisti þeirra Sjálfstfl.-manna sem eiga aðild að þessari hæstv. ríkisstj., vegna þess að þeir — ég tala nú ekki um varaformann Sjálfstfl. — voru með í því að móta þá stefnu, sem afgreidd var formlega í Sjálfstfl., sem þessi útfærsla í tillögugerð okkar er afleiðing af, þannig að hér er ekki um neinn óskalista stjórnarandstöðu að tefla. Hér er skýrt mótuð stefna, sem Sjálfstfl. hefði verið skyldugur að fylgja ef hann hefði fengið til þess aðstöðu um stjórn þjóðmála. Ekkert hefði verið gefið eftir í þeim efnum.

Ég veit ekkert hvað hæstv. samgrh. á við þegar hann talar um að hver maður fái sitt óskaverkefni. Það er auðvitað farið yfir öll kjördæmin, því að svo vill til að það eru mikilvæg verkefni í hverju einasta, en ég veit ekki hvernig ætti að setja saman áætlun um eitthvert átak í vegamálum án þess að fullnægja óskum þm., því að maður skyldi halda að að öðru jöfnu beindu þeir huga sínum og atkvæði að mikilvægustu verkefnunum. Þetta er út í hött þetta tal.

Hæstv. samgrh. hefði getað sleppt meginhlutanum af þessari ræðu sinni ef hann hefði hlustað á það sem ég sagði, því að í upphafi orða minna tók ég það fram að hér væri um rúman ramma að tefla. Í inngangi orða minna tók ég fram, að þótt hér væri gert ráð fyrir áætlun 1981–1992 væri komið þar málum nú að þetta yrði að færa fram um heilt ár vegna undirbúnings hjá Vegagerð.

Allt þetta tók ég skýrum stöfum fram, þannig að hér er ekki verið að rasa um ráð fram. Þessi till. var hins vegar flutt á haustdögum, þannig að það var ekkert óeðlilegt við það þá þó að áætlunargerðin miðaðist við þau ár sem þar segir. Þetta tók ég fram. Og ég tók líka fram það sem hann lagði megináherslu á og var inntak orða hans, að það yrði vitanlega um röðun framkvæmda að taka sem mest tillit til arðseminnar. Undir arðsemina kemur umferðarmagnið, fjallvegirnir, umferðarþunginn og hvað eina sem þar liggur til grundvallar. Í orðum mínum fólst því allt það sem hann þykist vera að vara við að sé óraunsæi af hálfu flm. þessarar till. Því vísa ég því á bug.

Ég verð að segja að það, sem hann tæpti á hér og átti að heita álit Vegagerðar, finnst mér allt bera augnaþjónustu vitni, — ég verð að segja það eins og er — að þeir hafi ekki framkvæmdaafl þegar svo stendur á að við eigum stórvirkar vinnuvélar í landinu og höfum ekki verkefni nálægt því í dagvinnu fyrir þau tæki sem við eigum nú þegar á að skipa og fjölmargir bíða eftir verkefnum fyrir tæki sín. Auðvitað þyrftum við að auka við tæki. Auðvitað þyrftum við að kaupa einhver stórvirkari tæki. En þetta fer auðvitað þyrftum við að kaupa einhver stórvirkari tæki. En þetta fer auðvitað allt eftir því, hvort menn hafa einhvern framkvæmdahug og sóknarhug í þessu máli.

Því miður verð ég að segja það eins og er, að mér finnst hæstv. samgrh. daufur í þessu máli. Hann hefur náttúrlega sem mest að vinna í sjávarútvegsmálum og þau eru fjarskyldust þessum málum. Það er að vísu rétt. En allt að einu er heldur dapurlegt til þess að vita að við skulum ekki hafa framkvæmdamann í þessu embætti nú um tíðir, svo mikilvægt sem það er að hrinda fram verkefnunum. Það er varað við stökkbreytingum. Það gerði hæstv. samgrh. Úrtölumönnunum ofbýður. Þeim vex allt í augum. Þeir kalla helst allt byltingar, ef eitthvað á að breyta til og taka til höndum sem um munar, og þeir eru ekki líklegir til þess, eins og ég segi, að vinna að þessum málum sem nú ber brýna nauðsyn til. Því miður er þetta svona og við höfum auðvitað búið við slíkt lengi.

Ef miðað er nú við það sem innheimt er hjá landslýðnum í ríkissjóðshítina af umferðinni og af bílainnflutningnum er óviðunandi með öllu hve litlu ríkið ver á hverjum tíma til þessara stórmikilvægu framkvæmda. Það er innheimt meira og hærra hlutfall í ríkiskassann en þekkt dæmi eru til um, en skilað miklu minna aftur til þessara framkvæmda en víðast þekkist. Jafnvel sárfátækar þjóðir skilja mikilvægi samgangnanna. Hér er þó áreiðanlega ekki um að tefla mál sem mun valda togi á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þvert á móti er hér um að tefla byggðamál sem allir geta sameinast um, enda er það svo, að greinilegur meiri hl. hv. alþm. er fylgjandi stórátaki þessu og stökkbreytingu fram á við. Ég vænti þess fastlega, að þegar fjvn. fær þessar tillögur báðar til athugunar muni hún mjög vanda til málatilbúnaðar.

Eins og ég sagði: Um markmið þál. till. hæstv. ríkisstj. er allt gott að segja. Það, sem á vantar, er hugur til framkvæmda. Þetta á að taka allt of langan tíma.

Það er of litlu fé varið og alveg sérstaklega þegar haft er í huga hversu arðgefandi vegaframkvæmdir eru.