05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

188. mál, langtímaáætlanir um vegagerð

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannson):

Herra forseti. Ég get tekið undir það sem hv. 5. þm. Suðurl. sagði, að aðalatriðið er náttúrlega að staðið verði við það sem verður ákveðið. Ef Alþingi treystir sér til þess að fara hærra, þá fagna ég því. Ég hef engar aths. við það að gera sem hann kom hér með.

Ég get að vísu ekki kallað vegamálastjóra, sem situr hér frammi, inn til vitnis, en ég veit að hv. þm. Sverrir Hermannsson getur rætt við hann um það og fengið staðfest, að það er fullkominn samstaða um þann hundraðshluta sem um er að ræða, og ég hef ekkert dregið úr því. Hins vegar hefur það verið rætt fram og aftur, hver væri eðlilegur og æskilegur framkvæmdahraði. Ég bendi á það, að fjármagnið, sem fer til vega, fer vaxandi með þjóðarframleiðslunni eins og þetta er sett upp, og það tel ég vera mjög skynsamlegt.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst ádeila hv. þm. koma úr hörðustu átt. Á þeim árum sem hann hafði töluverð áhrif, hugsa ég, þ.e. frá 1964–1970, fór framlag til vegamála aldrei yfir 1.9%, þ.e. þegar viðreisnarstjórnin sat. (Gripið fram í). Ja, e.t.v. ekki áhrif fremur en nú, það getur vel verið, en sem sagt þegar hans ágæti flokkur fór með stjórnartaumana fór framlagið aldrei yfir 1.9 og fór niður í 1.5% þjóðarframleiðslunnar. Ég viðurkenni að það var ekki nógu mikið, en sú stjórn hefur ekki treyst sér til að fara ofar með þessar mikilvægu framkvæmdir. Eflaust hefur hún haft vilja til þess, en ekki treyst sér til slíks. Það er ekki fyrr en 1971–1972, þegar önnur stjórn var komin, að þetta hækkar upp í 2.36, 1972. En svo þegar við sátum saman að stjórn fellur þetta aftur niður í 1.64%, þannig að það hafa ekki allar ríkisstjórnir, hvaða nafni sem þær nefnast, treyst sér til að halda jafnvel meðaltali 2%, hvað þá 2.1. Þetta meðaltal hækkar hér verulega, upp í 1.88%, af því að þetta myndarlega átak var gert 1971, 1972, 1973 og við getum tekið 1974 með.

Ég veit að ágætur samgrh. viðreisnar, Ingólfur Jónsson, gerði myndarlegt átak og hafði fullan vilja, en þrátt fyrir hans mörgu ár komst hann þó ekki yfir 1.9%. Ég held því að menn verði að líta raunsætt á þetta og það sé rangt að gera lítið úr 2–2.1% af þjóðarframleiðslu.

Ég vek einnig athygli á þeirri stökkbreytingu sem með þessu yrði í bundnu slitlagi, sem á fyrri árum og allt fram á síðasta ár var 30–40 km á ári, en fór þó upp í 90 km á síðasta ári og gert er ráð fyrir með þessu að verði kringum 150 km, getur orðið meira innan þessa ramma ef þau verkefni eru metin mikilvægari en sum önnur, eins og ég rakti áðan.

Ég ætla ekki nú að ræða till. hv. þm. og fleiri. Ég endurtek að það er von mín, að fjvn. skoði þetta vandlega, og ef fjvn. sýnist ástæða til að auka þennan hundraðshluta mun ég síður en svo harma það.