05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (2372)

188. mál, langtímaáætlanir um vegagerð

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni orða hæstv. samgrh. Ég verð því miður að vísa ábyrgð frá mér á framkvæmdum í vegamálunum árin 1964–1970. Ég gat engin áhrif haft á þau mál af skiljanlegum ástæðum. Ég átti ekki sæti á hinu háa Alþingi þessi ár. Hins vegar var upplýst með frammíkalli af manni, sem gerst ætti að vita um þá hluti, að stórátakið, sem gert var á árunum 1971 o.s.frv., hafi allt verið undirbúið af Ingólfi Jónssyni. Fagna ég þeim upplýsingum, því að það hlýtur að vera byggt á söguskoðun.

Þó að hæstv. samgrh. vísi til þess, að laklega hafi verið staðið að málum hér áður fyrrum, þá afsakar það ekkert drumbshátt í þessu nú, þegar öllum er loksins ljóst hvað í boði er og hvað mikilvægt þetta er. Menn höfðu ekki gert sér það ljóst þá eins og nú, hvað hér var um arðgefandi framkvæmdir að tefla, þannig að það afsakar ekkert að draga lappirnar nú þó að menn hafi gert það einhvern tíma áður. Það er bara venjuleg viðbára áhugaleysingjans.

Hér er verið að leggja til 2% af vergri þjóðarframleiðslu og það er lægra á árunum 1971–1974. Það er næstum því jafnhátt 1975, það er ívið hærra en núna, 1980. Þetta er að mínum dómi allt of hæg framvinda mála. Ég er sannfærður um það, að við getum og eigum að hraða okkur miklu meira í þessu máli. Að öðru leyti fagna ég auðvitað fram kominni till. um langtímaáætlun um vegagerð.