05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

116. mál, hagnýting innlendra byggingarefna

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 131 hef ég flutt till. til þál. um aukna hagnýtingu innlendra byggingarefna og hagkvæmni við byggingarframkvæmdir. Í tillögugreininni er skorað á ríkisstj. að gera þetta á þann hátt að láta nú þegar hanna og reisa tilraunahús úr léttsteypu á þessu ári. Með því að setja þetta fram á þennan hátt vil ég leggja alla þá áherslu sem unnt er á að ekki verði frekari dráttur á að hrinda því skrefi í þróun húsbygginga hérlendis í framkvæmd strax. En það er gert með tilliti til þess ástands, sem ríkir í þessum málum nú, og aðdraganda þess síðustu áratugi.

Í grg. er í stuttu máli gerð grein fyrir þeim breytingum, sem orðið hafa á byggingaraðferðum hér síðustu áratugina, og bent á að þær séu ekki í samræmi við tækniframfarir þessa tímabils og þá tækni sem notuð er erlendis. Þegar svo erlendar þjóðir hafa á síðustu árum sótt hingað til lands byggingarefni sem við hagnýtum lítt, á sama tíma og aftur er í vaxandi mæli farið að nota innflutt timbur til húsbygginga, þá hlýtur að vakna sú spurning, hvort við getum ekki staðið hér betur að verki.

Ég hef líka orðið var við það, síðan þessi till. var lögð fram hér á Alþingi, hvað margir, sem við mig hafa rætt, hafa viljað teita nýrra leiða. Þeir hafa sett fram hugmyndir um nýjungar og gert misjafnlega miklar tilraunir með þær. En jafnvel þótt niðurstöðurnar hafi orðið jákvæðar og lofað góðu hafa þær ekki fengið þá viðurkenningu sem nægir til þess að unnt sé að halda lengra áfram.

Á árunum kringum 1950 var vikur notaður í nokkrum mæli við húsbyggingar hér á landi. Um þetta var fjallað í skýrslu iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans fyrir árin 1947 – 1956 í grein sem nefnist „Léttsteypurannsóknir“. Í upphafi greinarinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gjall og vikur eru mjög algeng efni um allt móbergssvæði landsins. Notkun þessara efna til byggingaframkvæmda hefur þó aldrei verið eins mikil og eðlilegt mætti teljast. Ef til vill stafar þetta af of lítilli þekkingu byggingarmanna á því, hvernig hægt er með nægjanlegri framleiðsluvöndun að búa til úr þessum efnum svo góðar byggingarvörur, að hún standist þær hörðu kröfur, sem íslensk náttúra gerir til byggingarefna. Skorturinn á stöðlum og öðrum opinberum gæðamatsreglum hefur líka orðið til þess, að léleg framleiðsla, t.d. á byggingarsteinum úr léttsteypu, hefur keppt við þá vandaðri í verði, og þar sem ekki er gerður greinarmunur á gæðakröfum veldur þetta oft því, að sá framleiðandi, sem meiri vöruvöndun hefur sýnt, slær af gæðakröfum sínum.

Allt fram til ársins 1951 höfðu gjall og vikur eingöngu verið notuð í þurrsteypu, til framleiðslu á holsteinum og öðrum einangrandi byggingarhlutum. Einangrunareiginleikar af þessum steypum eru að vísu miklir, en oft veldur misnotkun skakkaföllum. Algengasta misnotkun er fólgin annars vegar í því, að raunhæfar rakavarnir eru sniðgengnar, og hins vegar, að ekki er tekið tillit til varmaflutnings og rakaflökts í veggjum með loftstraumum.“

Síðan er í þessari grein greint frá ýmsum niðurstöðum tilrauna, sem gerðar voru með þetta byggingarefni á þessum árum, og m.a. lýst byggingu húss úr vikursteypu sem reist var hér í Reykjavík árið 1951. En í niðurlagi greinarinnar segir síðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af vikursteypurannsóknum árið 1951 og 1952 voru árið 1952 hafnar rannsóknir á gjallsteypum samkvæmt samningi milli atvinnudeildar háskólans og bæjarverkfræðings Reykjavíkur. Stóðu þessar rannsóknir yfir fram á vorið 1954, er skýrsla um léttsteypurannsóknir var send bæjarverkfræðingi. Yfirleitt leiddu rannsóknir þessar greinilega í ljós, að hægt mun vera að nota innlend léttsteypuefni til þess að framleiða þjálar léttsteypur, sem munu í ýmsum tilfellum vera hagkvæmar við byggingarframkvæmdir. Þessar steypur búa yfir ýmsum eiginleikum, sem steinsteypur hafa ekki í eins ríkum mæli, og má því binda nokkrar vonir við það, að áframhaldandi rannsóknir leiði enn betur í ljós hagkvæmt gildi þeirra. Tilraunir hafa sýnt, að aðgengilegt er að búa til úr innlendum gjall- og vikurefnum það sterkar steypur að þær megi nota við algengustu húsbyggingar. Samanburður á niðurstöðum rannsóknanna og erlendum niðurstöðum er ekki óhagstæður fyrir hin innlendu efni, einkum ef tekið er tillit til þess, hversu lítið sement var notað við framleiðslu á prófsteypunum. Vonandi verður unnt að halda léttsteypurannsóknum áfram í náinni framtíð.“

Þannig lýkur þessari grein. En enn þá eru þær frómu óskir, sem settar voru þarna fram fyrir 25 árum, aðeins brostnar vonir. Ég tel að það sé samt sem áður ríkari ástæða en nokkru sinni fyrr að taka undir þær og vænta þess, að þær geti ræst. Þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið síðan á íslenskum vikri, styrkja þetta líka, þar sem þær rannsóknir staðfesta að vikurinn íslenski er sambærilegur við þann sem bestur er erlendis.

Það er einkum þrennt sem ég tel að hagnýting vikursins geti haft í för með sér:

1) að auka atvinnu við framleiðstu innlendra byggingarefna,

2) að draga úr innflutningi á timbri,

3) að lækka byggingarkostnað.

Mér fannst það athyglisvert þegar forstjóri þýskrar byggingariðju, sem ég ræddi við á s.l. hausti, sagði mér að hann framleiddi blokkir úr vikursteypu í loftplötur með einföldum tækjakosti, sem víða mun vera til hér á landi sambærilegur, og afköst tveggja manna væru 140 fermetrar af slíkum loftplötum á dag. Þegar við berum síðan saman þann tíma sem hér fer í mótauppslátt, járnabindingu, steypu o.fl. á sambærilegum fleti af loftplötum hljótum við að undrast að hér skuli ekki vera farið inn á sömu braut.

Í álitsgerð, sem Guðmundur Guðmundsson forstjóri Sementsverksmiðju ríkisins lét mér í té þegar ég vann að undirbúningi þessarar till., setur hann fram eftirfarandi hugmyndir um tillögur að húsagerðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Grundvallartillögur að húsagerðum, sem vel ættu að standast íslenska veðráttu, en jafnframt eru orkusparandi, minnka hættu á steypuskemmdum, auka val á byggingarefnum og bæta inniloft, byggjast í aðalatriðum á tvöföldum veggjum, bröttu þaki og stóru þakskeggi.

Burðarveggir: Stefnt skal að því að sleppa við mótasteypu. Verksmiðjusteypa gæti verið veggeiningar, helst úr léttsteypu (vikur, gjall, perlusteinn). Hagkvæmari og fjölbreyttari væri þó notkun hleðslusteins úr léttsteypu. Léttsteypuveggurinn getur verið það þykkur að ekki þurfi aðra einangrun, en einnig er auðvelt að festa einangrun (frauðplast eða steinull) utan á hann. Steinar eða einingar væru framleidd í verksmiðju.

Klæðning: Það, sem mest hefur staðið þessari þróun fyrir þrifum, var ætíð vöntun á hentugri vatnsklæðningu. Bárujárn þótti ekki nægjanlega fagurt útlits og ekki þótti gott að klæða steinsteypt hús með timburklæðningu. Nú fást margs konar þunnar klæðningar (ál, stál, plast, eternít), en einnig má nota steyptar hellur.

Þakfrágangur: Auðvelt væri að nota léttsteypu í loft framangreindra veggeininga, sem mundi gefa veggjunum æskilega skýlingu. Þar ofan á mætti koma einangrun, en bratt þak þar yfir. Klæðning á þaki má vera bárujárn eða enn betra: þakplötur gerðar úr sementi, trefjum og fylliefnum (gjarnan vikur, perlusteinn o.s.frv.). Stór þakskegg hjálpa til þess að brjóta vind sem stendur á veggfleti.

Byggingarplötur: Æskilegt væri að hægt væri að framleiða byggingarplötur bundnar með sementi, trefjum og fylliefnum sem nota mætti sem þakklæðningu, útveggjaklæðningu og í innveggi.

Og hvernig væri heppilegast að þróa byggingariðnaðinn í þessa átt? Æskilegast er að byrja í smáum stíl, en ekki þó of smáum. Sérstaklega skal varast að líta á hlutalausnir, en heldur reyna að leysa heilar húsagerðir í einu átaki. Til stuðnings þessu skal bent á þau timbureiningahús sem farið er að bjóða uppsett og fullfrágengin af húseiningaverksmiðjum víða um land. Hvað þessum húsum hefur verið vel tekið sýnir að markaðurinn æskir eftir tilbúnum húsum sem reisa má á skömmum tíma.

Hugmynd væri t.d. að byrja á því að reisa tilraunahús úr innfluttu efni hliðstæðu því sem framleiða mætti hér á landi úr innlendu efni. Nefna mætti sem dæmi að flytja inn þýskan vikurstein (hliðstætt Þjórsárvikri) í burðarvegg sem væri það þykkur að einangrun þyrfti ekki. Klæðning væri æskileg, annaðhvort sementsbundnir hleðslusteinar eða sementsbundnar klæðningarplötur (t.d. permít frá Norcem og tilraunaplötur frá Iðntæknistofnun). Þessar plötur mætti einnig nota sem þakklæðningu.

Frekari tillögur um útfærslur yrðu að vinnast af arkitektum og byggingarfræðingum. Kostnað af tilraunahúsinu væri eðlilegt að Húsnæðisstofnun bæri, jafnvel að hún gerði einnig hönnunina. Slík hús gætu þá farið inn í byggingarkerfi Húsnæðisstofnunar. Með hliðsjón af þeirri reynslu, sem tilraunahús, eitt eða fleiri, gæfu, yrði athugað hvort hagkvæmt væri að reisa byggingarefnaverksmiðju fyrir þessar húsagerðir. Væntir undirritaður þess, að það gæti orðið vísir að meiri þróun bættra byggingarhátta, lækkun byggingarkostnaðar og varanlegri bygginga.“

Þannig er hugmynd Guðmundar Guðmundssonar forstjóra að því, hvernig þarna mætti standa að verki. Hér er bent á þá leið að hraða málum með því að flytja inn verksmiðjuframleiddar einingar frá Þýskalandi. Eins og áður sagði eigum við hér úrvalshráefni til að framleiða slíkar einingar innanlands, en það gæti flýtt málinu að fá það í þetta tilraunahús. Þarna kemur einnig fram að Iðntæknistofnun hefur hannað klæðningarplötur, sem nota má bæði utanhúss og innan, úr innlendu hráefni.

Eins og fram kemur í grg. till. er nauðsynlegt að við þessa framkvæmd komist á samstarf Húsnæðisstofnunar ríkisins, rannsóknastofnana og annarra tæknifróðra aðila svo að byggingaraðferðin njóti nauðsynlegrar viðurkenningar um gæði og styrkleika vegna lánamöguleika og byggingarleyfa.

Það er engin ástæða að eyða tíma í frekari rannsóknir áður en fyrsta húsið verður byggt. Það fást heldur aldrei einhverjar endanlegar niðurstöður í slíkum rannsóknum þar sem sífellt hljóta að koma fram nýir möguleikar, en þá má nota síðar, enda tel ég svo sjálfsagt, að ekki þurfi að nefna það í till., að opinberir aðilar hafi áfram forustu um slíkar byggingar, þegar fyrsta húsið hefur verið reist, og hagnýti þá reynslu sem þar fæst til endurbóta.

Að lokinni þessari umr. í dag óska ég þess, að till. verði vísað til atvmn., og vænti þess, að n. hraði svo afgreiðslu hennar að hún nái fram að ganga á þessu þingi og ríkisstj. hraði síðan framkvæmd á till. þannig að markmið hennar náist á þessu ári. — En mér finnst að segja megi að staðreyndir í þessum málum hrópi á að þegar verði hafist handa.