05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

116. mál, hagnýting innlendra byggingarefna

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka undir þess þáltill., sem mér finnst mjög tímabær og í alla staði þannig að við ættum að standa að því í hv. Alþingi að reyna að hafa áhrif á þessa þróun, sem allir viðurkenna að hafi ekki verið nægjanlegu góð hér á landi í sambandi við byggingariðnaðinn.

Ég minnist þess, að fyrir mörgum árum — það var í kringum 1955 — komu hingað til lands sænskir verkfræðingar. Þeir voru búnir að gera tilraun með íslenskt hraungjall, móta úr því byggingarplötur. Þeir fluttu erindi á opinberum vettvangi þar sem ég var staddur. Voru þeir undrandi yfir því á þeim tíma, hvað við Íslendingar hefðum lítið hugað að því, hvað við ættum gífurlega mikla möguleika í sambandi við byggingariðnaðinn. Þetta var á aðalfundi Sambands ísl. samvinnufélaga á þeim tíma. Það var viss bjartsýni sem ríkti þá um að hefjast handa um að framleiða þetta byggingarefni og þar með gera mögulegt að nýta innlent hráefni og fá vandaðar byggingar og ódýrar. Því miður rann þetta út í sandinn eins og margt annað hjá okkur á þessu sviði.

Mér finnst að það sé kominn tími til nú, með allri þeirri tækni sem við höfum yfir að ráða, að það verði skorið úr því, hvort ekki er möguleiki á að framleiða hér ódýr hús úr innlendu byggingarefni. Það er viðurkennt meðal annarra þjóða, að það efni, sem við eigum, bæði hraungjall og vikur, er með því besta sem hægt er að fá í byggingariðnaði.

Um leið og ég tek undir þessa þáltill., sem mér finnst tímabær og nauðsynlegt að sjá svo um að komist til framkvæmda, get ég ekki látið hjá líða að geta þess, að ég hef mikla tilhneigingu til að gagnrýna mjög að sú stofnun sem er hér allsráðandi eða mikilvirk í sambandi við byggingu íbúðarhúsa, Húsnæðisstofnun ríkisins, hefur sáralítið sinnt þessu hlutverki. Við vitum að það er fjöldi einstaklinga og jafnvel fyrirtækja í landinu núna og hefur verið svo á undanförnum árum sem hefur viljað taka upp nýjungar á þessu sviði og gert tilraunir, en þær hafa verið kæfðar í tilrauninni sjálfri vegna þess að menn hafa ekki fengið það liðsinni sem þurfti til þess að geta haldið áfram þessum tilraunum, hafa bókstaflega gefist upp fyrir fjárskort og áhugaleysi opinberra aðila.

Ég verð að segja það einnig, að þegar við tökum með í reikninginn að við starfrækjum mjög góða stofnun, sem er Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, sem hefur það hlutverk að sannprófa ýmsa möguleika á þessu sviði, sjáum við að það vantar eitthvað í stofnanir okkar til þess að til skila komi sú þekking og sú tilraunastarfsemi sem þær hafa með höndum,- komi þannig til skila að það sé hægt að sjá árangur. Þetta hefur því miður farið verulega út í sandinn hjá okkur. Ég legg þess vegna mikla áherslu á að ef þessi þáltill. verður samþykkt hér á hv. Alþingi verði því fylgt eftir og bæði Húsnæðisstofnunin og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði látmar fylgja málinu þannig eftir til framkvæmda að það verði raunverulega hægt að nýta þann árangur, sem af þessu yrði, sem er ekkert vafaatriði, í sambandi við svona tilraunahús, þannig að það kæmi þá almenningi til nota í næstu framtíð.

Ég tel að þarna sé um stórt mál að ræða. Mér er t.d. kunnugt um einn múrarameistara sem lagði í það stórvirki fyrir 23 árum að byggja sér hús úr hraungjalli og rauðavikri. Hann gerði þetta á eigin spýtur, steypti steina og hlóð upp húsið. Þetta hús er með betri húsum í því byggðarlagi enn í dag. En hann fékk engan stuðning til þessa og það var hafnað á þeim tíma öllum umsóknum um lán úr opinberum sjóðum því að þetta þótti fikt sem væri ekki þess virði að tala um það.

Það er kominn tími til að við tökum raunhæft á þessum málum. Við eigum nóg efni í landi okkar eins og fram hefur komið, og ég vil þess vegna styðja heils hugar þessa tillögu.