05.02.1981
Sameinað þing: 46. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að tala hér utan dagskrár, og hæstv. heilbr.- og trmrh. þakka ég að hann skyldi gefa sér tíma til að koma niður á þing til að ræða það mál sem ég vil hreyfa, en málið snertir embættisveitingu hæstv. ráðh. nýlega vegna lyfsöluleyfis í Dalvíkurapóteki. Þær fréttir, sem borist hafa, að hæstv. heilbr.og trmrh. hafi sniðgengið þann umsækjanda, sem lyfjafræðinefnd og landlæknir sem umsagnaraðilar mæltu með að veitt yrði embættið, en það var Freyja Frisbæk Kristensen yfirlyfjafræðingur í Kópavogsapóteki, tel ég þess eðlis að nauðsynlegt sé að ræða það hér í þingsölum.

Þegar málið er allt skoðað tel ég, að freklega sé gengið á snið við anda jafnréttislaganna, og bendi þá sérstaklega á 3. gr. þeirra laga, sem ég vil rökstyðja síðar í máli mínu, auk þess sem ráðh. virðist sniðganga það faglega mat sem lagt er til grundvallar í umsögn lyfjafræðinefndar og landlæknis.

Það hefur komið fram að hæstv. ráðh. byggir afstöðu sína m.a. á því, að hann telur að sá, sem embættið hlaut, hafi starfsreynslu fram yfir þann umsækjanda sem mælt var með að fengi embættið af hálfu lyfjafræðinefndar og landlæknis. Nú er mér ekki kunnugt um út frá hverju ráðh. gengur þegar hann metur þann þátt er að starfsreynslu snýr. Ég lít svo á, að þegar metin er starfsreynsla á þessu sviði hljóti að verða að líta á hve viðtæka starfsreynslu viðkomandi hefur innan fagsins. Ef þetta er skoðað nánar hefur Freyja þriggja ára lengri starfsreynslu en sá sem embættið fékk. Hún lauk lyfjafræðiprófi 1971, en Óli Ragnarsson 1974. Ef lítið er eingöngu á starfsreynslu í apótekum hefur sá sem embættið fékk að vísu sex ára reynslu í apóteki, en Freyja tveggja og hálfs starfsreynslu í apóteki.

Í umsögn lyfjafræðinefndar og landlæknis hefur reynsla innan fagsins tvímælalaust verið lögð til grundvallar, því þar kemur fram að nefndin og landtæknir telja Freyju hafa víðtækustu starfsreynsluna. Freyja hefur auk þess að starfa sem yfirlyfjafræðingur í tvö og hálft ár, unnið sjö ár hjá heilbrigðisráðuneytinu danska í lyfjamáladeild og verið sérstaklega með mál sem falla undir lyfjalöggjöfina. Einnig hefur hún verið um tveggja ára skeið fulltrúi í undirnefnd norrænu lyfjanefndarinnar sem fjallaði um mat á lyfjanotkun. Varla fer því á milli mála að Freyja hefur mjög víðtæka og yfirgripsmikla reynslu á þessu sviði sem hlýtur að vera mikilvæg í þessu embætti. Verður að teljast að það sé farið inn á vafasama braut ef slík reynsla og þekking sem Freyja hlýtur að búa yfir, miðað við sín fyrri störf, sem bæði geta flokkast undir vísinda- og stjórnunarstörf í þessu fagi, er ekki metin og lögð til grundvallar slíkri embættisveitingu, enda hafa, eins og ég nefndi áðan, lyfjafræðinefndin og landlæknir lagt það til grundvallar, en ekki eingöngu starfsreynslu í apóteki, eins og allt bendir til að ráðh. hafi gert. Verður því að spyrja ráðh. að því, hvort hann meti ekki þá reynslu, sem Freyja hefur og ég hef hér nefnt, eða hvort hann leggur eingöngu til grundvallar starf í apóteki og sniðgangi þar með víðtæka og yfirgripsmikla reynslu á sviði lyfjafræðinnar. Ég vil leyfa mér að segja, að á meðan annað hefur ekki komið fram verður að draga í efa að hliðsjón hafi verið höfð af faglegu mati í ákvörðun ráðh., og ég tel að hæstv. ráðh. geti engan veginn borið fyrir sig meiri eða víðtækari starfsreynslu Óla Ragnarssonar.

Einnig hefur komið fram, þegar ráðh. ákvað þessa embættisveitingu, að hann talar um að margir á Dalvík hafi farið þess á leit við hann, að Óli Ragnarsson yrði ráðinn. En í ljós hefur komið í blöðum í dag, að varla er um mikinn fjölda að ræða frá Dalvík þar sem einungis tuttugu manns í umdæmi sem telur á fjórða þúsund hafa með undirskrift sinni óskað eftir ráðningu Óla Ragnarssonar í embættið. Ef hæstv. ráðh. metur meira óskir þessa fámenna hóps en hið faglega mat og lætur þær hafa áhrif á afstöðu sína tel ég að hann hefði átt að kynna sér afstöðu annarra Dalvíkurbúa áður en hann veitti embættið, ef óskir íbúa Dalvíkur hafa haft áhrif á embættisveitingu ráðherra.

Mér er ekki kunnugt um að Jafnréttisráð hafi fjallað um þetta ákveðna mál, en ég held að Jafnréttisráð hljóti að láta þetta mál til sín taka. Kvenréttindaráð Íslands hefur þegar sent mótmælabréf vegna þessa sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, en þar er einnig fjallað um aðra embættisveitingu, á vegum menntmrn., og er það nokkuð hliðstætt mál sem auðvitað væri ástæða til að ræða hér einnig. Bréf Kvenréttindafélagsins er svohljóðandi:

„Á fundi stjórnar Kvenréttindafélags Íslands 3. febr. 1981 var samþykkt eftirfarandi ályktun:

„Stjórn Kvenréttindafélags Íslands lýsir undrun sinni og óánægju yfir því að menntmrh. og heilbrrh. skuli við embættisveitingar nýlega hafa sniðgengið þá umsækjendur, sem sérfróðir umsagnaraðilar mátu hæfasta til starfa.

Þar sem umræddir umsækjendur voru konur, hlýtur sú spurning að vakna, hvort nauðsynlegt sé að lögbinda tímabundin forréttindi konum til handa til þess að útiloka slíkt misrétti í framtíðinni.

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands beinir því til Jafnréttisráðs, að það taki þessi mál til meðferðar, eins og það tvímælalaust hefur heimild til samkvæmt 11. gr. laga nr. 78/1976, um jafnrétti kvenna og karla.“

Ályktun þessi verður send viðkomandi ráðh., umsækjendum, Jafnréttisráði og fjölmiðlum.“

Eins og ég sagði hlýtur Jafnréttisráð að láta þetta mál til sín taka, en í 3. gr. jafnréttislaganna segir: „Atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði, og gildir það m.a. hvað varðar ráðningu og skipun í starf, stöðuhækkun, stöðuheiti, uppsögn úr starfi, veitingu hvers konar hlunninda og almenn vinnuskilyrði.“

Á það verður að líta, að hér hafi verið brotin þessi grein jafnréttislaganna, þar sem í fyrsta lagi er um að ræða að lyfjafræðinefnd og landlæknir mæla með ráðningu Freyju í þessu tilfelli og telja hana hæfasta, og ég tel mig einnig hafa sýnt fram á víðtækari og fjölbreyttari starfsreynslu hennar en annarra umsækjenda, en umsagnaraðilar byggja afstöðu sína líka á því. Meðan ekki liggja önnur og skýrari rök fyrir því, að sá, sem embættið hlaut, hafi verið með meiri starfsreynslu eða víðtækari þekkingu á þessu sviði en Freyja, og engin önnur viðhlítandi skýring fæst hjá ráðh., tel ég að verið sé að ganga í berhögg við anda jafnréttislaganna, og vitna ég þá sérstaklega til 3. gr. þeirra laga. Ef ráðh. hefur farið eftir faglegu mati verður hann að færa skýrari rök fyrir því, annars er ótvírætt, eins og ég segi, verið að ganga gegn anda þeirra laga.

Í 5. gr, þeirra laga kemur einnig — ég er alveg að verða búin, herra forseti — fram, með leyfi forseta:

„Nú er umsækjandi um auglýst starf kona, en það hefur verið veitt karlmanni, og skal þá Jafnréttisráð, ef umsækjandi óskar þess, fara fram á það við hlutaðeigandi atvinnurekanda, að hann veiti því skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika sá hefur til að bera, er ráðinn var í starfið.“

Þegar lítið er til þessarar greinar og ef umsækjandi óskar þess hlýtur ráðh. að verða að færa rök fyrir sinni embættisveitingu. Tel ég þetta mál allt þannig vaxið, að sá umsækjandi, sem hæfastur var talinn, en gengið var fram hjá, hljóti að leita réttar síns samkvæmt þessum lögum, enda hefur og Jafnréttisráð heimild samkvæmt 11. gr. þessara sömu laga til að höfða mál í umboði viðkomandi til viðurkenningar á rétti hans. Hvernig sem Jafnréttisráð tekur á þessu máli og sá umsækjandi, sem hér hefur verið um rætt, hlýtur allt velsæmi að krefjast þess, að ráðh. gefi skýrari svör við og rök fyrir þessari stöðuveitingu sinni.