30.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

22. mál, félagsleg þjónusta fyrir aldraða

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till., sem hér er fram komin, að sumu leyti, en ekki þó að öllu. Grg., sem henni fylgir, er auðsjáanlega tekin annaðhvort upp úr grg. eða erindi lækna sem hafa allt annað markmið en það sem kemur fram í till. sjálfri. Markmið lækna, sem hafa skipt sér af öldrunarvandamálum Reykjavíkurborgar, er að gera allar slíkar stofnanir að umráðasvæði lækna og heilbrigðisþjónustunnar, en ekki þjónustustofnanir á borð við þær sem Reykjavíkurborg hefur verið að byggja upp. Ég tel það miður.

Það var samkv. tillögu þáv. borgarstjórnarmeirihl. að hafist var handa 1973 um verulegt átak í byggingu dvalarheimila og þjónustumiðstöðva fyrir aldraða í Reykjavíkurborg, en Reykjavíkurborg hefur tekið á móti öldruðu fólki víðast hvar að af landinu til umönnunar, og núv. borgarstjórnarmeirihl. hefur af miklum sóma haldið áfram því starfi sem þá var hafið. Það er alveg rétt að langt er frá því, að þessi málaflokkur hafi náð fullkomnun í umhugsun og uppbyggingu. En það er unnið og unnið dyggilega.

Það er ekki nema eitt heimili sem hægt er að kalla að hafi verið byggt upp af einstaklingum í þessum landshluta, þ.e. elliheimilið Grund. Ég skal ekki segja neitt um aðra landshluta. DAS-heimilið er byggt af félagasamtökum með verulegri aðstoð opinberra aðila og aðstöðu sem aðrir hafa ekki haft aðgang að, eins og t.d. með landshappdrættum og framlögum á fjárl. og víðar, þó að fjárlög hafi ekki styrkt dvalarheimilið fyrr en eftir till. sjálfstæðismanna við gerð síðustu fjárlaga ef ég man rétt.

Ég vil benda máli mínu til stuðnings á sérstakt orðalag sem ég hef mótmælt hvað eftir annað í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem kalt læknasjónarmið kemur fram, um heimavist aldraðra. Markmið læknanna er að halda gömlu fólki frá sjúkrahúsunum, frá öllum þjónustustofnunum, eins lengi heima við og mögulegt reynist að pína viðkomandi heimilisfólk eða ættingja til að hafa sitt fólk nálægt sér, án þess þó að nokkur aðstaða sé til á staðnum. — Það þýðir ekkert að hrista höfuðið. Hér tala ég af reynslu sem borgarfulltrúi. Ég stend í því daglega að taka á móti fólki og reyna að leysa vandamál aldraðra sem ekki geta lengur verið utan stofnana, en eru það þó. Mikið af bestu árum ungs fólks fer einmitt í að hugsa um aldraða sem eiga rétt á umhugsun annars staðar. Það er því miður ekki tekið tillit til þarfa þessa unga fólks.

Ég get nefnt hér sömu dæmi — ætla þó ekki að gera það — og ég hef nefnt í borgarstjórn Reykjavíkur um miskunnarleysi þess kerfis sem ríki og læknar drottna yfir, afstöðu ráðamanna sjúkrahúsa gagnvart öldruðu fólki, hvernig það er sent í burtu, hvaða erfiðleikum það á í með að komast á sjúkrahús, hvaða sérstöðu þarf til að koma því inn, ef það er veikt og horfur á að það taki upp sjúkrarúm lengur en læknar telja góðu hófi gegna, og hvernig það er síðan sent heim. Allt þetta þarf að athuga.

Reykjavíkurborg hefur komið á stofn þeirri þjónustustofnun sem þetta frv. gerir ráð fyrir að komið verði á stofn á landsvísu, geri ég ráð fyrir. Byggingarnefnd fyrir aldraða hefur starfað á vegum Reykjavíkurborgar frá 1973 og á hennar vegum hafa verið byggðar íbúðir fyrir aldraða og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Íbúðir og hjúkrunarheimili blandast að nokkru leyti með Dalbrautarframkvæmdunum, en í Furugerði 2, Norðurbrún og Lönguhlíð eru fremur íbúðir fyrir aldraða. Það er verið að reisa vistheimili eða hjúkrunarheimili sem á að hýsa þá sem geta ekki hugsað um sig sjálfir á þessum stofnunum Reykjavíkurborgar, aðallega til þess að losa þær fyrr en nú er möguleiki á þegar elli sækir að og fólk þarf á hjúkrun að halda. Allt þetta, sem gert er á vegum Reykjavíkurborgar, er gert eftir ákveðnu fyrir fram hugsuðu skipulagi.

Í upphafi starfa sinna hélt nefndin opinbera fundi, auglýsta borgarafundi, þar sem hún fékk viðkomandi lækna, alla lækna sem þá voru starfandi í borginni að málefnum aldraðra, til að fjalla um vandamál aldraðra og uppbyggingu á þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Þangað fengust líka menn með mikla reynslu af rekstri elliheimila eins og Gísli Sigurbjörnsson og starfsfólk frá honum, yfirhjúkrunarkonur og fleiri. Það var sem sagt öllum boðið. Þeir, sem komu, höfðu að sjálfsögðu mikinn áhuga á þessum málaflokki og lögðu ýmislegt til málanna. Skipurit var sett á blað, og eftir því hefur verið starfað síðan og sú áætlun er enn þá í gangi.

Í stórum dráttum er hugsað til smærri þjónustueininga en áður hafa verið fyrir aldraða, þannig að byggt verði víðar en áður var gert, byggt úti í hverfunum. Hugsunin bak við það er að aldraðir geti verið sem næst vinum sínum og kunningjum eða ættingjum og sem næst þeim borgarhluta sem þeir síðast bjuggu í.

Að beiðni byggingarnefndar fyrir aldraða samþykkti borgarstjórnarmeirihl. á þriðjudaginn var að hefja hönnun og forsögn að einni slíkri þjónustumiðstöð í Breiðholti, þ.e. raðhús fyrir hjón, nokkuð stóra stofnun þjónusta fyrir aldraða. 358 með íbúðum, en hluti af þeirri stóru byggingu yrði hjúkrunarheimili og í þessu bákni öllu saman yrði heilsugæslustöð fyrir það hverfi Breiðholts sem næst er þessari þjónustumiðstöð. Mig minnir að það hafi verið rúmlega 12 þús. eða eitthvað á 13. þús. fermetra sem var ætlað í lóð undir þessa þjónustumiðstöð á fegursta stað í nýju borgarhverfi Breiðholts.

Þjónustustofnun var sett á stofn, þegar íbúðirnar fóru að koma til úthlutunar, og er í gangi á nákvæmlega þann hátt og þetta frv. gerir ráð fyrir. Hún fer líka eftir þeirri fyrirmynd sem þeir sérfróðu menn, sem við kölluðum til í upphafi, lögðu til að fylgt yrði, en þeir höfðu kynnt sér slíkt erlendis, í Bretlandi og víðar. Þeir helstu voru Þór Halldórsson, Arinbjörn Kolbeinsson, Halldór Steinsen, Gísli Sigurbjörnsson og Páll Sigurðsson. Ég man það núna, þegar ég sé okkar ágæta fyrrv. heilbrmrh., að Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri kom líka í þessa skipulagningu og lagði mikið og gott til málanna. Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar var að sjálfsögðu með tillögur og með í þessari skipulagningu frá upphafi ásamt borgarlækni og borgarverkfræðingi. Þessir embættismenn Reykjavíkurborgar hafa síðan starfað náið með byggingarnefndinni og þessari upphaflegu áætlun er haldið mjög stíft.

En nú kem ég aftur að því sama og áður. Heilbrigðisstjórnin í borginni sér þarna rísa upp húsnæði sem mætti hugsanlega hafa gott af að nota á sama hátt og menn yfirtóku bókstaflega Hafnarbúðir án þess að ég sem borgarráðsmaður gerði mér nógu snemma grein fyrir. Þær voru ætlaðar öldruðu fólki, skyldu verða dvalarheimili fyrir aldraða, en áður en nokkur vissi um var húsið orðið að sjúkrastofnun, og það er meiri sjúkrastofnun núna en það var upphaflega hugsað. Svona seilast þeir miskunnarlausu menn eftir aðstöðu. Ég kalla þá miskunnarlausa af því að ég er með mörg dæmi í huga sem gefa fullan rétt á að segja það. Svona vinna þeir.

Ég harma að þessari góðu till. skuli fylgja grg. sem er byggð að miklu leyti á sjúkrahúsasjónarmiðinu. Ég er reiðubúinn til að nefna dæmi á eftir, ef tilefni gefst til, orðum mínum til stuðnings. En þetta er það sem er að gerast, og fyrirmyndin að þessu frv., ef á að rýmka þessa starfsemi á ríkisvísu, er til og í gangi í Reykjavíkurborg. Ég fagna því, að fulltrúar Alþfl. skuli á þessu sviði eins og á mörgum öðrum, t.d. í orkumálum, taka á þennan hátt undir hugmyndir og tillögur sjálfstæðismanna.