09.02.1981
Neðri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

103. mál, orlof

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á lögum um orlof, sem hér er til umr., gæfi í sjálfu sér tilefni til langrar umræðu um orlofsmál, framkvæmd orlofslaga og misrétti í orlofsmálum. Ég sé ekki ástæðu til þess við 1. umr. að rekja þessi mál jafn ítarlega og freistandi væri, en ég vil grípa á örfáum þáttum þessa máls því að mér sýnist brtt., sem hér er á ferðinni og í frv. felst, vera meira en lítið vafasöm þó að ég efist ekki um að fyrir flm. vaki í sjálfu sér gott eitt.

Við skulum stuttlega fara yfir — og reyna að fara fljótt yfir sögu — það sem kemur fram í grg.

Áður en núverandi kerfi var tekið upp var greitt með merkjum og var það kerfi algjörlega búið að ganga sér til húðar. Reyndin var sú, að í yfirgnæfandi meiri hluta var orlof greitt með launum. Í einni stærstu verstöð landsins voru síðasta árið sem gömlu lögin voru í gildi greiddar innan við 100 kr. í orlofsmerkjum. Með hinum nýju lögum, sem sett voru 1972 og komu fyrst til framkvæmda á orlofsárinu 1973–1974, urðu á allverulegar breytingar. Ég held að það megi fullyrða, — ég held raunar ekkert um það, reynslan hefur skorið úr því, — að það er gjörólíkt nú og þá hvað orlof er mun meira tekið í samræmi við samninga núna. Hins vegar hafa verið nokkrar deilur og nokkur óánægja með framkvæmd þessara laga, hvort Póstur og sími, Póstgíróstofan sem kölluð er, hafi staðið sig nægilega vel í þessum efnum og hvort hagur launþega hafi þar verið nægilega tryggður. Þess er skemmst að minnast, að fyrsta eða annað árið sem Póstgíróstofan var að störfum varð hún að leita til þáv. hæstv. forsrh. og óska eftir að ríkissjóður útvegaði henni milljarð, sem Póstur og sími hafði eytt í eigin starfsemi.

Forsrh. bjargaði þessum málum, sem ef ég man rétt var þá hv. 1. þm. Reykv. Geir Hallgrímsson, og fékk þetta fé að láni hjá Seðlabanka. Það var á engan hátt hann um að saka, heldur frekar þakkarvert hvað hann brást rösklega við á sínum tíma. Síðan hefur féð, sem innheimt hefur verið, verið í vörslu Seðlabanka Íslands. — Ég hygg að það vaki helst fyrir flm. að freistandi væri að ávaxta þetta fé heima í héraði og mundi það jafnvel örva bankastarfsemi eða lánastarfsemi í viðkomandi byggðarlögum.

Það er kannske ástæða til að geta þess, að fyrstu tvö árin voru engir vextir greiddir af orlofsfé. 1977 eru í fyrsta skipti greiddir vextir, — sömu vextir og voru á ávísana- og hlaupareikningum, 5%. 1978 hækka vextir á ávísana- og hlaupareikningum, en áfram eru sömu vextir á orlofsfé.

Ég minnist þess mjög vel, að á þessum árum var það ærin vinna fyrir þá, sem voru starfsmenn verkalýðsfélaga, að tryggja að orlofsfé kæmist til skila. Ég minnist þess, að ég eyddi í það mörgum dögum að reyna að reka á eftir Póstgíróstofunni. Sennilega gæti ég nefnt 10, 20, 30 dæmi þess, að menn fengu orlof, sem þeir áttu að fá greitt 1. maí, öðru hvorum megin við jól það ár og jafnvel síðar. Mönnum var því ekki gert mjög hægt um vik að fá þetta orlof á lögboðnum orlofstíma. 1979 eru vextir af orlofsfé hækkaðir í 11.5% og þá er tekin merkileg stefna sem gjörbreytir allri þessari framkvæmd. Þá er — í þeim félagsmálapakka sem var á þeim tíma þó að margir hafi viljað gera lítið úr honum — tekin ríkisábyrgð á innheimtum orlofslaunum, þannig að þó Póstgíróstofan hafi ekki innheimt viðkomandi orlof verður hún að greiða það. Síðan þessi þýðingarmiklu ákvæði komu inn í lög, sem ég held ég fari rétt með hafi verið í fyrsta skipti á árinu 1979, — ég held það hafi verið um áramótin 1978–1979 sem þessi lög gengu í gildi, — hefur hagur orlofsþega gjörbreyst. Þeir gátu eftir þetta treyst á reglulega greiðslu orlofsfjár. Þó það hefði ekki verið heimt fengu þeir það greitt engu að síður.

Hvernig er svo háttað innheimtu orlofsfjár hjá Póstgíróstofnuninni? Ef til vill er óeðlilegt, þegar jafnstór stofnun á í hlut, að vera að nefna sérstaka starfsmenn. En þegar ráðinn var til þessarar stofnunar ungur maður, lögfræðingur, Guðmundur Óli Guðmundsson, síðla árs 1977, gjörbreyttist innheimta þessarar stofnunar. Að vísu var lögum breytt þannig að þessi stofnun gat krafist aðgangs að bókhaldi viðkomandi fyrirtækja og þessi áðurnefndi fulltrúi og lögfræðingur Póstgíróstofunnar hefur lögtaksheimild í Reykjavík frá borgarfógeta. Innheimta er 95%. Ég dreg mjög í efa að nokkurt sveitarfélag eða ríki nái 95% innheimtu eins og þessi stofnun hefur gert.

Hinu er engu að síður ekki að leyna, að vextir hafa, eins og áður hefur verið frá skýrt, verið óeðlilega lágir. En í stjórnarsáttmálanum — ég heyrði ekki betur en um helgina væri verið að minnast eins árs afmælis hans — var tekið fram að hækka skuli vexti af orlofsfé. Vextir, sem greiddir voru á síðasta orlofsári, 1. maí 1980, voru 24%. Meðalbankavextir af sparisjóðsbók 1. maí 1979 til 1. maí 1980 voru 2.4% hærri. Að vísu má halda því fram með réttu, að þarna þyrftu að vera hærri vextir, og ég legg það mjög eindregið til. Hins vegar ber að geta þess sem gott er hjá núv. ríkisstj., þar sem þetta bil hefur verið verulega stytt og meðalvextir, miðað við bankabækur, eru aðeins 2.4% lægri.

Rétt er að upplýsa það líka, þegar þetta frv. er lagt fram, að í síðustu kjarasamningum voru kröfur uppi um að fá hærri vexti af orlofsfé, og í það hefur Alþýðusambandið að ósk félmrh. kosið tvo menn sem eru annaðhvort byrjaðir eða eru að hefja viðræður við Seðlabankann um hærri vexti en verið hafa og um breytt fyrirkomulag.

Hinu er hins vegar ekki að leyna, að það eru einstök fyrirtæki, þrátt fyrir 95% innheimtu, sem skera sig þarna allverulega úr. Það eru níu fyrirtæki sem skulda yfir 20 millj. Þar á meðal eru tvö í kjördæmi hv. þm. Karvels Pálmasonar. Þar á meðal eru einnig tvö í kjördæmi hv. þm. Páls Péturssonar. Þar eru skuldir það miklar, að mér er mjög til efs að sparifé hefði aukist í því byggðarlagi ef ríkissjóður hefði ekki hlaupið þar undir bagga. Að vísu hafa verið gerðar viðeigandi ráðstafanir og mikið af þessu fé hefur verið innheimt, en í einstaka tilfellum er ástund mála slæmt. Þar heggur ansi nærri hv. 1. flm. þessa frv.

Hitt er líka athyglisvert og styður kannske þá kenningu sem hv. 1. þm. Vestf. hélt hér fram fyrr í vetur, að tæp 90% af þessum vanskilum eru í sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækjum. Ég vil ekki á neinn hátt vera að gera flm. það upp að fyrir þeim vaki annað en gott eitt. En með því að hafa samræmt innheimtukerfi um land allt, yfirlit yfir landið, er mikið unnið. Hvað um það fólk sem nú vinnur kannske á fjölmörgum vinnustöðum yfir landið, fylgir afla og framkvæmdum? Þetta fólk gæti átt innistæður í bönkum og sparisjóðum um land allt. Ég er ekki farinn að sjá bankakerfið taka sömu ábyrgð og ríkisvaldið á þessu. Ég vil nefna sem dæmi um hvað þetta heildaryfirlit hefur mikið gildi, að á skyldusparnaði, sem búið er góðu heilli að breyta lögum um og hækka vexti af og gera skyldusparnað mun eftirsóknarverðari fyrir ungt fólk, hefur innheimta verið hörmulega slæm. Hún hefur verið í höndum Landsbanka Íslands. Það er dregið í efa að undanfarin ár hafi það losað nema rösklega helming. Nýráðinn forstjóri Veðdeildar Landsbankans, frábær bankamaður og traustur, er formaður í nefnd um hvernig skuli koma fyrir innheimtu á skyldusparnaði. Það er ákaflega fróðlegt hvað þessi nefnd leggur til og hvað þessi þrautreyndi bankamaður leggur til sem er formaður í nefndinni. Hann segir: Eina kerfið, sem hefur heildaryfirlit yfir allt landið, eina stofnunin, sem virkilega væri hæf til að annast þessa innheimtu, væri Póstgíróstofan.

Ég held, þó að það væri freistandi fyrir einstök verkalýðsfélög að gera um þetta sérsamninga, að það gæti hefnt sín því grimmilegar á öðrum. Ég er sannfærður um það, að t.d. hér í Reykjavík getum við gert samninga við banka um fyrirtæki, eins og t.d. Eimskipafélag Íslands, SÍS og önnur álíka fyrirtæki, sem eru skilvís og má nokkuð reiða sig á greiðslur frá. En fyrir þá, sem stunda hlaupavinnu um land allt, fylgja afla og framkvæmdum, — hverjir yrðu vextir þeirra, hver yrði heildaryfirsýnin yfir hvað þeir ættu inni? Ég er hræddur um að þarna sé verið að fara braut sem í fljótu bragði virðist líta vel út, en í reynd væri ákaflega óheppileg og mundi fjarlægjast það kerfi sem eitt hefur yfirsýn yfir innheimtu á orlofi á landinu öllu. Það mundi bitna harkalegast á þeim sem síst skyldi.

Ég held að það væri hins vegar, þó að um það megi deila, mun hyggilegra, ef ætti að koma á móts við hv. flm., að Póstgíróstofan væri skyldug til að ávaxta það fé, sem hún innheimtir, í viðkomandi lánastofnun í viðkomandi heimabyggð, en brjóta ekki niður heildaryfirsýnina og heildarkerfið.

Ég lofaði í upphafi að ég skyldi ekki fara jafnítarlega út í þessi mál og ástæða væri til. En fyrst rætt er um orlofsmál er vissulega þörf á því að hækka vexti frá því sem nú er. Félmrh. hefur til þess heimild, og viðræður við Seðlabankann með aðstoð ríkisstj. ættu að geta tryggt það.

En þó ótrúlegt virðist er þetta ekki mesta misréttið í orlofsmálum. Maður, sem er á föstum orlofslaunum, tekur sitt sumarfrí, sitt orlof, í júní, júlí eða ágúst, fær þau laun greidd sem gilda á því tímabili sem hann tekur orlofið. En tíma- og vikukaupsmenn hafa meðalkaup yfir orlofsárið frá 1. maí. Við skulum taka t.d. 1. maí 1979 til 1. maí 1980. Þá eru vísitöluhækkanir, ef ég man rétt, eitthvað um 31% á því tímabili. Vextir eru 24%. Með öðrum orðum: Það fólk, sem vinnur hér í loðnuverksmiðjum, sem gengur hér á vertíð, sem gengur hér í framkvæmdir, en ekki er ráðið til lengri tíma, skortir 18% upp á að hafa sömu laun í orlofi og þeir sem eru á föstum orlofslaunum. Það er þarna sem misréttið er hvað magnaðast. Að vísu hefur það samkomulag náðst í seinni tíð, að sá sem hefur verið í eitt ár hjá atvinnurekanda 1. maí n.k., á rétt á orlofslaunum fyrir dagvinnu. En þarna er höfuðmisréttið, að þeir sem eru í ótryggustu vinnunni, þeir sem verða við þetta að búa eru með 18 % lægra orlof á síðasta orlofsári. Nú fer þetta náttúrlega eftir verðbólgunni og væri hægt að taka þetta dæmi um hvað launafólk tapaði á verðbólgu. Ef verðbólga væri minni væri þetta tap náttúrlega að sama skapi minna. Orlof þyrfti að hækka í 10% af dagvinnutekjum til þessa fólks til þess að jafnrétti næðist við núverandi verðbólgustig.

Hitt held ég, að lagasetning sú, sem unnin var að af Verkamannasambandinu og Alþýðusambandinu og hæstv. fyrrv. félmrh., Magnús H. Magnússon, kom mjög ötullega hér í gegnum þingið á sínum tíma, sé gífurleg og ótrúleg réttarbót. Hækkun á vöxtum til orlofsþega, sem kom til framkvæmda hjá núv. félmrh., greiddi þar til muna úr.

Ég skal ekki ræða þetta mál öllu lengur. Ég gæti þó haldið um það langan fyrirlestur. Ég vil benda hv. flm. á, að það væri mjög varhugavert að hverfa frá þeirri heildaryfirsýn, sem Póstgíróstofnunin hefur, og þeim góða árangri sem hún hefur náð. Ef þeir vildu ná markmiði sínu væri miklu nær að skylda viðkomandi stofnun til að ávaxta þetta fé í sparisjóðum eða bankaútibúum í viðkomandi byggðarlögum. En eins og ég hef sýnt fram á með skýru dæmi: Þegar það á að fara að koma lagi á skyldusparnaðinn, og hefði mátt vera fyrr, er einróma tillaga sérfræðinga að gera það á vegum Póstgíróstofu.

Að sjálfsögðu samþykki ég að málið fari til nefndar, eins og ég býst við að aðrir þm. geri, en hitt væri að rasa um ráð fram, að gefa einstökum félögum færi á að brjóta niður þetta kerfi því að það kæmi harðast niður á þeim sem versta aðstöðuna hefðu og síst skyldi. Það held ég að sé ekki tilgangur flm.