09.02.1981
Neðri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

103. mál, orlof

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Reyndar kom ekkert fram hjá hv. þm. Karvel Pálmasyni sem hrakti þau rök sem ég færi hér fram. Það var aðeins eitt atriði sem hv. þm. — væntanlega af misskilningi rangtúlkaði.

Hann hafði eftir mér að það væri hægt að láta verkalýðsfélög innheimta þetta í einstökum byggðarlögum og ávaxta það í heimabyggð. Það, sem ég var að leggja áherslu á, var heildaryfirsýn, að á einum stað væru til upplýsingar um greitt og ógreitt orlofsfé. Væri hins vegar ofangreint frv. samþykkt er hætt við að fljótlega kæmist í gang fjöldi innheimtuaðila, allir bankar og bankaútibú, auk allra sparisjóða á landinu, og yrði úr því hrærigrautur svo að enginn vissi lengur hvað sneri upp og hvað sneri niður og það yrði alfarið á valdi hvers og eins verkalýðsfélags og viðkomandi lánastofnunar. Á hverjum mundi þetta bitna? Það, sem ég var að benda á, var að Póstgíróstofan yrði að hafa þetta heildaryfirlit.

Hitt væri til athugunar, að hún ávaxtaði fé í viðkomandi byggðarlagi.

En eins og hæstv. félmrh. kom inn á held ég t.d. að ef Seðlabankinn væri fluttur til Bolungarvíkur mundi hv. þm. vera ákaflega hress yfir því, að nú væri þetta fjármagn komið í hans kjördæmi. Ég held að af því fjármagni, sem þarna kemur til Seðlabankans fari minnst til Reykjavíkur. Ég held jafnvel að þeir, sem högnuðust mest og best á breytingunni, séu í Reykjavík. (Gripið fram í: Á að losna við Seðlabankann?) Ég efast ekkert um að sú fyrirgreiðsla og sú heildarstjórn, sem Seðlabankinn hefur, kemur Reykjavík alls ekki mest til góða. Það er algjör lágkúra að reyna að egna byggðarlög upp hvert á móti öðru og halda því fram, að af því að Seðlabankinn sé í Reykjavík muni hann verja öllu fé í Reykjavík.

Ég veit satt að segja ekki hvort tekur því — ég held að það sé ekki ástæða til — að ræða sérstaklega fjandskap við byggðastefnu eða halda því fram að þetta sé byggðastefnusjónarmið. S.l. ár var þetta fé 10 milljarðar og mundi verða væntanlega eitthvað um 15 milljarðar 1. maí eða þegar kemur að greiðslu orlofsfjár. Ég er smeykur um að þessu fé sé ekki ausið út í Reykjavík. En ég vildi aðeins segja, að mér er mjög til efs að bankastjórar viðskiptabankanna tækju þetta að sér. Það væri rétt að sú nefnd, sem um þetta mál fjallar, spyrði aðalbankastjóra viðskiptabankanna hvort þeir væru reiðubúnir að taka að sér að greiða t, d. 15 milljarða út á fyrstu þrem vikunum í maí — 90% er greitt út fyrstu þrjár vikurnar í maí. Mér er mjög til efs að þeir svöruðu játandi.

Ég veit að einstakir útibússtjórar eru að suða í hv. þm. og biðja hann um að auka eitthvað sparifjármyndun í viðkomandi kjördæmi, það gæti jafnvel orðið til einhverrar fyrirgreiðslu. Ég hef áður bent á, og er ekki að saka hv. þm. um það, að byggðarlag hans stendur ákaflega illa á þessu sviði. Reykjavík stendur mun betur. Ekkert fyrirtæki í Reykjavík skuldar jafnmikið og eitt fyrirtæki skuldar í Bolungarvík. Er það þó yfirleitt góður og traustur atvinnurekstur, og taki enginn orð mín svo að ég sé að leggja gegn stað eins og Bolungarvík. (Gripið fram í.) Ég efast um að hv. þm. hafi í innheimtu á öðrum sjóðum gengið svo rösklega fram að hann geti gerst sjálfboðaliði í þessum efnum. Þær aðgerðir, sem Póstgíróstofan hefur haft í frammi — reyndar víðar á Vestfjörðum — dreg ég mjög í efa að varaformaður Alþýðusambands Vestfjarða, hv. þm., væri fær um að leika eftir.

Ég legg ríka áherslu á hverjir verða úti. Við skulum taka t.d. Verkamannafélagið Dagsbrún. Það gæti náð samningum við bankastofnanir um ákveðin fyrirtæki. Eftir og út undan yrðu þau fyrirtæki sem erfitt væri að innheimta hjá. Hvað yrði um allan þann fjölda fólks sem er á ferð um landið, fylgir afla og framkvæmdum og gæti átt orlofsfé í 20–30 sparisjóðum eða bönkum? Innheimtan verður að vera á einum stað. Ég held að hv. þm. hafi nú skilið þetta. Ég held að svona mál hrífi vel í ákveðinni kjördæmapólitík, ákveðinni haturspólitík, að Reykjavík arðræni landið o.s.frv., sem gefst sumum þm. nokkuð vel. En það, sem ég legg áherslu á, er það, að fyrir mér vakir það eitt að tryggja hag allra launþega og þeir verði ekki útundan. Ég efast ekkert um að einstök verkalýðsfélög geta náð um þetta nokkuð sæmilegum samningum, önnur ekki. Það verkafólk, sem breytir oft um vinnustað, yrði þarna mjög afskipt og út undan. Þess vegna eigum við að efla stofnun sem hefur yfirsýn yfir hvar greitt er og hvar ekki greitt. Ég vil jafnframt upplýsa að margumrædd Póstgíróstofa sendir mánaðarlega til aðildarsambanda ASÍ skrá yfir þá sem hafa greitt og þá sem hafa ekki greitt og sendir jafnframt til fjórðungssambanda skrá yfir þetta. Hv. þm. ætti ekki að koma þetta á óvart. Það er jafnframt sent yfirlit til stærri verkalýðsfélaga hér í Reykjavík. Til dæmis hefur Verkamannafélagið Dagsbrún mjög náið samstarf við þessa stofnun.

Ég held nú ekki, eftir þeim reikningum sem ég sé, og vil ég ekki vera að teygja þetta mál yfir í neinn skæting, að hv, þm. hafi aðstoðað Póstgíróstofuna mikið. Ef hann hefur eitthvað gert hefur ekki munað um það.