09.02.1981
Neðri deild: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2205 í B-deild Alþingistíðinda. (2406)

103. mál, orlof

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Hér er til umr. breyt. á lögum um orlof, og ég ætla að leyfa mér að leggja orð í belg. Ég kem ekki hingað sem fulltrúi Reykjavíkursjónarmiða, þótt dálítið hafi borið á góma landsbyggðarsjónarmið í þessari umr. Ég hef fullan skilning á frv. Ég tel það gott og vera til bóta.

Það munu vera liðin ein 40 ár síðan fyrst voru sett orlofslög á Íslandi. Núna er orlofskerfið tvenns konar. Það á annars vegar við fastráðna menn, sem fá greidd mánaðarlaun þegar þeir eru í orlofi samkv. samningum, og hins vegar lausráðna, sem fá greitt inn á reikning hjá Póstgíróstofunni, sem Póstgíróstofan síðan afhendir Seðlabanka til varðveislu og ávöxtunar. Þetta kerfi kostar hundruð milljóna. Það liggja fyrir upplýsingar um að bara það að keyra þetta kerfi kostar ákaflega mikla peninga, — sér í lagi allar bréfaskriftir, sem m.a. hv. síðasti ræðumaður lýsti fyrir okkur, upplýsingar til Alþýðusambands, til fjórðungssambanda og allar upplýsingar til hvers og eins sem á inni í þessu kerfi, upplýsingar um vaxtastöðu og inneign o.s.frv., o.s.frv. Allt þetta kostar peninga. Allt þetta er borgað af þessu kerfi og veltir upp á sig. Það þekkja þeir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál.

Á liðnum árum hafa ávöxtunarkjörin nokkuð batnað. Fyrir nokkrum árum var til stórskammar hve illa var farið með þetta fé sem daglaunamennirnir í landinu áttu hjá opinberri stofnun. Óþarfi er að rifja þetta upp. Ávöxtunarkjörin eru þó ekki eins góð núna og væru þessir peningar lagðir inn á þá bankareikninga sem til eru, jafnvel eftir að þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur unnið að vaxtalækkun, eins og hún kallar sínar aðgerðir um þessar mundir, en það er brandari sem við skulum ekki fjalla um í umr. um þetta mál þótt hann eðlilega tengist því.

Auðvitað er til aðeins ein eðlileg lausn á þessu máli. Lausnin er í því fólgin að leggja þetta kerfi af, að hætta þessari vitleysu, að hætta þessum sendingum manna á milli. Það er kominn tími til að orlofsfé sé greitt út, 81/3%, ofan á laun þegar laun eru greidd út og síðan hafi hver og einn val um það, hvernig hann varðveiti sína peninga. Þetta er eign þeirra manna sem eru í vinnu. Þeir eiga auðvitað að hafa ráðstöfunarheimild yfir sínum eignum. Það er auðvitað til bóta ef hægt er að kippa þessu úr höndum Póstgíróstofunnar og fá þeim sem standa þeim nær sem eiga þessa peninga. En auðvitað er langsamlega besta lausnin, og sú eina sem ég tel haldbæra í þessu máli, að greiða þessa peninga út eins og aðra þá peninga sem menn eiga þegar þeir hafa skilað vinnudegi sínum.

Ég þekki sjálfur sem atvinnurekandi hvernig það er að þurfa að senda þessa peninga við og við hingað og þangað og reikna þær upphæðir saman. Það kostar atvinnurekendur auðvitað dálítinn skilding að þurfa að brúa þetta nokkurra vikna, jafnvel nokkurra mánaða bil á milli þess sem þeir senda Póstgíróstofunni þessa peninga, en það eru ekki svo háar upphæðir að ekki sé hægt að komast að samkomulagi við atvinnurekendur um þær. Ég ætla að nefna nokkrar röksemdir fyrir mínu máli. Ég bið um að ráðamenn, eins og t.d. hæstv. félmrh., komi með haldbær mótrök við þeim rökum sem ég hef hér fram að færa.

Í fyrsta lagi mundi það að leggja niður þetta kerfi verða til þess, að hver og einn hefði frjálsan yfirráðarétt yfir þeim peningum sem hann hefur unnið fyrir. Það er vitað mál, að þegar lausráðnir starfsmenn taka út orlofsfé sitt er engin trygging fyrir því, að þeir noti þessa orlofspeninga í orlofi sínu. Að vísu var gert ráð fyrir slíku í upphaflegu lögunum, og má vera að slíkt sé enn þá í núgildandi lögum, en auðvitað er engin trygging fyrir því. Það hefur meira að segja komist upp um menn, að þeir taki sína peninga og borgi fyrir bíl með þessum peningum. Sér er nú hver glæpurinn að taka eigin peninga og kaupa bíl eða sjónvarp! Auðvitað er það í lagi vegna þess að þetta eru peningar sem fólk á. En við erum svo bundnir við þann hugsunarhátt, að það þurfi einhver stóri bróðir í þessu þjóðfélagi að hugsa um smælingjana. Þetta er fyrsta röksemdin.

Önnur röksemdin er sú, að það eru til betri ávöxtunarkjör annars staðar í bankakerfinu, t.d. á heimaslóðum verkamannanna. Þetta er röksemd númer tvö.

Röksemd númer þrjú er sú, að yfirleitt er um tvær eða fleiri fyrirvinnur fjölskyldna að ræða. Þess vegna er eðlilegt að aðeins hluti af þeim fjármunum, sem kallast orlofsfé, fari til þess að standa undir kostnaði þegar orlof er tekið.

Röksemd númer fjögur er sú, að við mundum losna við mjög mikinn kostnað, sem við höldum úti í þessu kerfi. 4–5–6 hundruð millj. gkr. eru tölur sem nefndar hafa verið. Þessi kostnaður mundi hverfa. Fólkið sjálft mundi hafa þessa peninga eins og annað fjármagn sem það sjálft á. Það þarf engan stóra bróður til þess að fylgjast með þeim peningum.

Í fimmta lagi mundum við líka leysa það vandamál, sem hv. síðasti ræðumaður var að nefna, þ.e. farandverkafólkið — það fólk sem fer úr einum stað til annars til að stunda atvinnu, tekur laun hjá mörgum atvinnurekendum og er svo í vandræðum með að smala þessum fjármunum saman. Þetta fólk mundi auðvitað fá orlofsféð greitt um leið og það fengi greidd önnur laun, enda er orlofsféð hluti af laununum.

Hér hef ég nefnt nokkrar röksemdir. Ég bendi á að það einfalda er oftast best. Þetta er einfaldasta lausnin og besta lausnin, þótt hæstv. félmrh. sé að vinna að þessum málum með einhverjum forkólfum verkalýðshreyfingarinnar sem ætla að slá sig til riddara með því að hjálpa sínum umbjóðendum. Þessir menn, sem yfirleitt aldrei eru kjörnir af sínum umbjóðendum, taka hver við af öðrum. Við höfðum Eðvarð í fyrra og höfum Guðmund þetta árið. Þessir menn ætla að semja við hæstv. félmrh., taka þann samning, setja hann í pakka. Svo á hæstv. félmrh. að koma inn á hv. Alþingi Íslendinga færandi hendi með böggulinn, með félagsmálapakkann, og segja: Háttvirtir þingmenn. Ég hef allra náðarsamlegast komist að raun um að verkalýðnum sé fyrir bestu að fara eftir þeim tillögum sem ég og hinir hv. launþegaforingjarnir höfum komið okkur saman um. — Þetta er skrípasagan sem í gangi er á hverjum einasta degi. Er ekki mál að linni? Er ekki kominn tími til að fólkið, sem á þessa peninga, fái ráðstöfunarrétt yfir þeim? Það er eins og aftan úr grárri forneskju að hlusta á þessar umr. hérna. Ég skora á menn að ræða þær röksemdir, sem hér hafa komið fram, gera það af alvöru og hreinskilni og viðurkenna þá staðreynd, sem ég held að sé öllum fyrir bestu, að sá, sem á fjármagnið, er áreiðanlega sá sem fer best með það og best er trúandi fyrir varðveislu þess.