10.02.1981
Sameinað þing: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

373. mál, málefni hreyfihamlaðra

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 399 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. um málefni hreyfihamlaðra. Fsp. hljóðar svo: „Hvað hefur ríkisstj. látið gera varðandi framkvæmd þál., sem samþykkt var á Alþingi 22. maí 1980, um málefni hreyfihamlaðra?“ En þessi þál., sem samþykkt var um málefni hreyfihamlaðra, hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera úttekt á nauðsynlegum endurbótum á opinberu húsnæði til að auðvelda hreyfihömluðum aðgang, og verði gerð kostnaðaráætlun um þau verkefni sem brýnust þykja. Skal í þessum efnum haft samráð við ferlinefnd fatlaðra. Úttektin skal lögð fyrir Alþingi.

Jafnframt felur Alþingi ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. til l. um fastan tekjustofn í því skyni að tryggja nægilegt fjármagn til framkvæmda, þannig að á næsta ári verði hægt að hefjast handa um breytingar á húsnæði svo sem þál. þessi gerir ráð fyrir.“

Eins og allri vita hefur ekki orðið af því að slíkt frv. væri lagt fyrir það þing, sem nú situr í samræmi við síðari hluta þessarar þál. Mér er kunnugt um að hæstv. félmrh. hefur skipað nefnd til þess að framkvæma fyrri hluta þál., um nauðsynlega úttekt á opinberu húsnæði. Hefur sú nefnd hafið störf í samvinnu við Alfanefnd 1981, sem er að störfum vegna alþjóðaárs fatlaðra, og má ætla að starf þeirrar nefndar muni bera árangur. Hitt er ekki þýðingarminna mál, að til þess að ná árangri á þessu sviði er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, að til þess þarf fjármagn. Eins og oft hefur komið áður fram í sambandi við umræður um þessi mál er meiri hluti opinberra bygginga eða opinbers húsnæðis í landinu þannig, að það er útilokað að fatlað fólk geti komist inn í og athafnað sig í þessum mannvirkjum, sem veldur því stórtjóni og hefur áhrif á daglegt líf þess og jafnframt atvinnumöguleika. Ég áleit því mjög brýnt, þegar þessi till. var lögð fram á sínum tíma, að gera sér grein fyrir því, hvað hægt væri að gera í þessum málum til að ná árangri sem allra fyrst. Og ég verð að segja það, að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum við fjárlagagerðina á s.l. hausti, þegar ekki var gert ráð fyrir sérstöku fjármagni í þessu skyni í sambandi við opinberar framkvæmdir, eins og í sambandi við skólamannvirki, heilsugæslustöðvar og aðrar opinberar byggingar, til þess að ná árangri á þessu sviði strax.

Ég vil þess vegna leyfa mér að bera þessa fsp. nú fram til þess að vita hvernig þetta mál stendur, því að vissulega hlýtur það að vera eitt af viðfangsefnum þeirrar nefndar, Alfanefndar, sem starfar nú að þessum málefnum, að reyna að koma þessum málum í viðunandi ástand. Ég held að þetta sé eitt af stærri hagsmunamálum allra þeirra sem hafa orðið fyrir þeirri óhamingju að vera fatlaðir eða hafa skerta möguleika til þess að ganga að störfum og öðrum þáttum mannlegs lífs eins og heilbrigt fólk. Hér er um að ræða stórmál sem hv. Alþingi hefur þegar lýst yfir vilja sínum til að leysa, og þess vegna tei ég að Alþingi þurfi að vera mjög í takt við þær fyrirætlanir sem hugsanlegar eru í þessu máli. — Ég vænti þess, að ég fái svar við þessari fsp.