10.02.1981
Sameinað þing: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

373. mál, málefni hreyfihamlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. 22. maí s.l. var samþykkt hér á Alþingi þál. um málefni hreyfihamlaðra sem hafði hlotið meðferð eins og venja er til. Við meðferð málsins hér var till. nokkuð breytt frá því sem hún var upphaflega. Bætt var við síðari málsgr. þar sem Alþingi fól ríkisstj. að undirbúa frv. til l. um fasta tekjustofna í því skyni að tryggja nægilegt fjármagn til þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru til þess að auðvelda hreyfihömluðum aðgang að opinberum byggingum. 5. ágúst s.l. beindi ég þeim tilmælum til framkvæmdanefndar alþjóðaárs fatlaðra 1981, að nefndin athugaði möguleika á framkvæmd fyrri atriða framangreindrar þál., þar sem nefndin hafði ákveðið að eitt af verkefnum hennar yrði umræða og aðgerðir í ferlimálum fatlaðra. Nefndin ákvað á fundi sínum 18. ágúst s.l. að setja á fót sérstakan samstarfshóp um ferlimál sem m.a. fengi það verkefni að athuga möguleika á framkvæmd fyrri hluta þessarar þál. Leitað var eftir tilnefningu í þennan samstarfshóp til nokkurra stofnana og samtaka, og er hópurinn nú skipaður eftirtöldum einstaklingum:

Frá Arkitektafélagi Íslands Helgi Hjálmarsson arkitekt, frá framkvæmdanefnd alþjóðaárs fatlaðra Þórður Ingvi Guðmundsson, frá Húsameistara ríkisins Björn Kristleifsson, frá skipulagsstjóra ríkisins Hrafn Hallgrímsson, frá Ferlinefnd fatlaðra Vigfús Gunnarsson, formaður nefndarinnar, frá Landssamtökunum Þroskahjálp Una Steinþórsdóttir þroskaþjálfi, frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins Gunnlaugur Pálsson arkitekt, frá Sambandi ísl. sveitarfélaga Unnar Stefánsson ritstjóri, frá Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra Elsa Stefánsdóttir húsmóðir og frá Öryrkjabandalagi Íslands Oddur Ólafsson fyrrv, alþm.

Er fjárlagafrv. fyrir árið 1981 var til umfjöllunar í fjvn. sótti framkvæmdanefnd alþjóðaárs fatlaðra um sérstaka fjárveitingu til að kosta þetta verkefni. Ekki var veitt fé á sérmerktum lið til þessa, en fjárveiting nefndarinnar var hækkuð um 100 þús. nýkr., sem nefndin hefur litið á sem framkvæmdafé m.a. vegna þessa tiltekna verkefnis.

Samstarfshópurinn um ferlimál hóf störf um síðustu áramót. Þegar farið var að ræða þetta verkefni kom í ljós að ekki var til nein aðferð sem beita mætti til úttektar á húsnæði með það fyrir augum að mæla hvaða endurbætur þyrfti að gera á því til að auðvelda fötluðum aðgang. Jafnframt kom í ljós að fjöldi opinberra bygginga, sem þyrfti á endurbótum að halda, væri mjög mikill, svo sem skólar og heilbrigðisstofnanir, fyrir utan allar aðrar opinberar stofnanir. Hér er því um svo gífurlega kostnaðarsamt verkefni að ræða, bæði að því er lýtur að úttektinni sjálfri og framkvæmdum við breytingar, að nauðsynlegt er að tryggja til þess sérstaka fjármuni, eins og réttilega kemur fram í síðari hluta þál. Nauðsynlegt er því að afla fjármuna sérstaklega til að fjármagna verkefnið. Hér er um að ræða verkefni sem vafalaust tekur mjög langan tíma, en vinna þarf eftir settri áætlun.

Samstarfshópurinn hefur ákveðið það sem fyrsta verkefni sitt að undirbúa sérstaka aðferð eða „lykil“ sem þarf að beita á byggingarnar í því skyni að meta hve breytingarnar eru miklar sem gera þarf. Þegar þessi aðferð er tilbúin verður tekin ákvörðun um hvernig henni verður dreift, en ljóst er að koma þarf henni til mikils fjölda stofnana og einstaklinga, svo sem sveitarfélaga, höfunda og hönnuða bygginga, byggingarstofnana ríkisins o.fl., sem verða að framkvæma hina raunverulegu úttekt þegar fjármagn hefur verið tryggt til þess. Samhliða þessu vinnur starfshópurinn að gerð tillagna um breytingar á grunnskólalögum, framhaldsskólafrv. — sem hér hefur verið lagt fyrir Alþingi nokkrum sinnum — og heilbrigðislögunum þar sem lagt er til að komið verði inn ákvæðum um að stofnkostnaðar- og viðhaldsfé skóla og heilbrigðisstofnana skuli verja að hluta til að framkvæma breytingar með þarfir fatlaðra í huga, en samstarfshópurinn er sammála um að það sé nærtækasta verkefnið á þessu sviði.

Í þriðja lagi hefur samstarfshópurinn ákveðið að velja úr tvær til þrjár opinberar byggingar, aðrar en skóla og heilbrigðisstofnanir, í hverju kjördæmi sem brýn nauðsyn er að breyta, og mun nefndin skila um það tillögum og kostnaðaráætlun til félmrn. fyrir næsta haust. Loks hefur nefndin ákveðið að semja tillögur til félmrh. um hvernig beri að fjármagna breytingar á opinberu húsnæði í framtíðinni í áðurgreindu skyni.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi svarað þeirri fsp. sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur hér lagt fyrir mig.