10.02.1981
Sameinað þing: 47. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

373. mál, málefni hreyfihamlaðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. sagði áðan. Ég vil aðeins vegna orða hans láta það koma fram, að auðvitað er það ekki nærri nógu gott, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef byggingarfulltrúar, sem eiga að sjá um og fylgjast með byggingum, svo og ýmsir opinberir aðilar, sem hafa með byggingar að gera, sveitarfélög, Innkaupastofnun ríkisins o.fl., gæta ekki hinna skýlausu ákvæða í nýju byggingarreglugerðinni um aðgengi fatlaðra. Og ég held að það væri ástæða til þess, í tilefni af þeim umræðum sem hér hafa farið fram nú, að hnykkja sérstaklega á því, að þessir aðilar gæti þess vandlega, að ákvæðum byggingarreglugerðar sé fylgt þegar verið er að ganga frá hönnun og uppsetningu opinberra bygginga a.m.k., og auðvitað þyrfti hér að vera um að ræða almenna reglu.

En varðandi það mál að öðru leyti sem hann nefndi hér, þá er náttúrlega alveg ljóst að kostnaður við að breyta öllum opinberum byggingum í þá átt, sem hér er verið að tala um, er geysilega mikill, þannig að um þetta mál verður að gera áætlun til alllangs tíma. Það gengur aldrei öðruvísi. Og spurningin er þá jafnframt sú, með hvaða hætti það verði fjármagnað, hvort nauðsynlegt sé að gera það með sérstökum mörkuðum tekjustofni, sem í þetta eigi að fara, — og þá þurfa menn að taka afstöðu til þess, hver á að úthluta þeim tekjum — eða hvort þetta skuli einfaldlega gert með beinni fjárveitingu á fjárlögum hverju sinni. Ég held að það síðarnefnda geti alveg eins komið til greina, ekki síst vegna þess að ég held að það sé býsna mikilvægt að hv. Alþingi fylgist vandlega með slíkum málum, og ég held að það geri það betur ef þingið þarf sjálft — og fjvn. — að fjalla um til hvaða verkefna fjármununum er varið hverju sinni.