10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Mér þótti það auðvitað athyglisvert hjá hæstv. viðskrh. sem hann sagði hér áðan og sú yfirlýsing hans, að hann gæti auðvitað ekkert sagt um hvort bankakerfið þyldi vaxtalækkun 1. mars. Þetta er yfirlýsing um það, að gerðir ríkisstj. á gamlársdag hafi verið því marki brenndar, að hún vissi ekki hvort hún gæti framkvæmt þær. En auðvitað hefur hæstv. viðskrh. á réttu að standa þegar hann segir að fyrst þurfi að athuga stöðu bankakerfisins, áður en menn leggi í aðgerðir af þessu tagi. Sumir hefðu e.t.v. haldið að það væri háttur ríkisstjórna að gæta að því áður en þær gripu til aðgerða, hvort aðgerðirnar væru framkvæmanlegar eða ekki.

Nú liggur það fyrir, að það er ekki háttur þessarar ríkisstj. að gæta að því fyrst, hvort það, sem hún boðar, sé framkvæmanlegt eða ekki. Það liggur fyrir af þeirri yfirlýsingu sem hæstv. viðskrh. gaf hér áðan.

Annars er ýmislegt annað, sem kom fram í máli hæstv. viðskrh., sem rétt er að fara um nokkrum orðum. Ég hef tekið eftir því í málflutningi hæstv. ráðh. bæði í dag og í gær, að hann hefur tekið undir það sjónarmið okkar, að staða bankakerfisins væri nokkuð góð og auðvitað gæfi það sérstakt svigrúm til aðgerða og þá m.a. vitaskuld til þess að framkvæma aðgerðir af því tagi sem hér er flutt frv. um. Ég hef líka tekið eftir því í máli hæstv. viðskrh., að hann hefur talið þær hugmyndir, sem hér eru fram lagðar, allrar athygli verðar, en hins vegar langað til þess að halda því fram, að það, sem ríkisstj. hefði boðað og vildi gjarnan gera — þótt hún vissi ekki hvort hún gæti framkvæmt það, gengi í sömu átt.

Það er stundum sagt að stjórnarandstaða sé of harðskeytt og fáist ekki til að fylgja góðum málum sem ríkisstj. ber fram. Ég held að staða hæstv. viðskrh. í þessu máli sé núna sú, að hann sjái að þetta er gott mál, og nú væri tilvalið tækifæri fyrir viðskrh. og stjórnarflokkana alla að koma til liðs við það. Það er auðvitað svo og kemur fram í málflutningi hæstv. viðskrh., að hann langar í sjálfu sér til að fylgja þessu máli. Ég held að hann ætti að láta það eftir sér og koma þannig ekki bara til móts við gott mál, heldur líka bæði sparifjáreigendur og þá sem þurfa að afla sér íbúðar.

Hins vegar kom vitaskuld fram nokkur misskilningur í ræðu hæstv. ráðh. þegar hann talaði um að í þessu frv. fælist óbein binding. En ég verð að viðurkenna að hæstv. ráðh. er á réttri braut, því að í gær lagði hann bindingu samkv. till. ríkisstj. til 6 mánaða að jöfnu við það ákvæði sem er í þessu frv. þar sem er engin binding. Nú er þó túlkun ráðh. komin það áleiðis, að nú er þessi binding í hans munni orðin óbein. En ég held að öllum sé ljóst að það getur ekki talist binding þegar mönnum er frjálst að ganga í það fé sem þeir eiga á þessum reikningum. Hitt skýrði ég mjög greinilega hér í gær, að hugmyndin með þeim ákvæðum, sem hér eru um að menn njóti fullrar verðtryggingar á því fé sem liggur óhreyft hverja þrjá mánuði, er vitaskuld sú að koma til móts annars vegar við það sjónarmið að geta látið í té verðtryggingu og hins vegar að menn eigi aðgang að því fé sem þeir leggja inn á þessa reikninga, og svo það, að menn séu í raun og sannleika verðlaunaðir fyrir það að vera að spara, að láta vera að taka út af reikningunum, án þess að hendur þeirra séu bundnar, og skapa öryggisleysi með þeim hætti. Ég tel að það sé grundvallarmunur á því að vera með bindingu af því tagi, sem tíðkuð hefur verið, og því að hafa reikningana af því tagi sem hér um ræðir, þannig að menn geti lítið á þetta með þeim hætti að þeir eigi ævinlega aðgang að því. Ef þeir ættu ekki aðgang að því, þá væri það bundið. Ef þeir eiga aðgang að því, þá er það ekki bundið.

Ég vil líka minna á það — vegna þess að hæstv. ráðh. hefur látið svo ummælt að ekki væri nógu vel talað um ríkisstj. — að í lögum um efnahagsmál o.fl., sem stundum eru nefnd Ólafslög, eru ótvíræð ákvæði um það að lengja eigi lánstíma og dreifa greiðslubyrði. Ég gat þess hér í gær og ég ítreka það enn, að það hefur ævinlega verið stefnumið okkar Alþfl.-manna að þetta væri nauðsynlegt að gera, jafnframt því sem menn nálguðust verðtryggingu á inn- og útlánum. Ég ítreka það enn, að það er forsenda fyrir skynsamlegri lána- og vaxtastefnu að þetta sé gert. Og ég ítreka það jafnframt, að ef það er ekki gert mun stefnan hrynja í höndum ríkisstj. Ríkisstj. hefur gersamlega brugðist í þessum efnum og því er staðan eins og hún er og þá alveg sérstaklega hjá húsbyggjendum. Í annan stað hefur framkvæmd stefnunnar líka brugðist hjá ríkisstj. vegna þess að hún býður sparifjáreigendum ekki nægilega góð kjör. Það mundi gerast hvort tveggja: að koma til móts við húsbyggjendur og sparifjáreigendur, með samþykkt þessa frv.

Hæstv. ráðh. talaði um að menn mættu ekki loka augunum fyrir því, að ef vextir hefðu verið hækkaðir um 10% á gamlársdag hefði atvinnurekstur farið á hausinn. Vel má vera að það sé rétt mat hjá hæstv. ráðh. að þannig hefði farið. En ég vil vekja athygli hans á því, að í sambandi við þessar aðgerðir höfum við ekki sagt að þannig ætti endilega að standa að málunum. Við höfum einmitt talað um að ráðið væri það — sem ráðh. talaði fyrir — að lækka verðbólguna, og í annan stað að það skref, sem stíga ætti núna, væri að gera samþykkt af því tagi sem felst í þessu frv., bjóða sparifjáreigendum raunverulega verðtryggingu á raunverulegum sparnaði og koma til móts við húsbyggjendur með því, að húsnæðismálalánin yrðu í samræmi við þá stefnumörkun, sem Magnús H. Magnússon kynnti, og viðbótarlán yrðu tekin upp í bankakerfinu, eins og hér er gert ráð fyrir, viðbótarlán til 15 ára. Þetta er það sem við mælum með að gert verði á þessu stigi í málinu.

Það er náttúrlega dálítið skondið, að í eina skiptið sem hæstv. ráðh. hækkaði röddina hér var þegar hann talaði um að það ætti að lækka verðbólguna. Þó hefur hann setið í ríkisstj. sem hefur unnið það afrek á einu ári að koma verðbólgunni úr 42% í 75%. Svo er hann að tala um að það þurfi að lækka verðbólguna. Það er ekki nema von að hv. þm. Eiður Guðnason minnti ráðh. á það, að kannske hefði hann talað enn þá verr um ríkisstj. en nokkurn tíma stjórnarandstaðan. Og núna er staðan sú, að ríkisstj. bindur varla vonir við að ná verðbólgunni niður á það stig eða þann verðbólguhraða sem ríkti þegar hún tók við. Allir þeir, sem lítið hafa á ráðstafanir ríkisstj., og margir talsmenn stjórnarinnar hafa talað um að það væri nokkuð gott ef út úr þessu kæmi 50%, þ.e. 25% meiri verðbólguhraði heldur en var þegar ríkisstj. tók við.

Ég vil líka benda á það, að vitaskuld var þetta frv. ekki of seint fram lagt. Það var komið fram á undan tilkynningu ríkisstj. um hennar ráðstafanir. En það skiptir ekki einu sinni máli í þessu sambandi, vegna þess að hvorki kom frv. of seint fram né heldur er of seint að samþykkja það, og augljóslega felst í þessu frv. mikilvægur ávinningur fyrir sparifjáreigendur og húsbyggjendur hér á landi. Þetta frv. tekur langt fram öllu því sem fram kemur í yfirlýsingum ríkisstj. Það er betra að öllu leyti. Og ég finn það á málflutningi ráðh., að hann hefur skilning á því að þetta sé langtum betra. Ég held að farsælast væri að menn sameinuðust nú um að samþykkja þetta frv., eins og ég veit að hugur allra stendur til og þá líka hugur hæstv. viðskrh.