10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2222 í B-deild Alþingistíðinda. (2421)

185. mál, bætt kjör sparifjáreigenda

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það var mikið gert úr því, þegar óskalisti ríkisstj. var lesinn yfir landslýð á gamlárskvöld, að nú ætti að hafa fast gengi. En nú er komið í ljós að það á að hafa fast, sveigjanlegt gengi, og það er vissulega tímabær spurning, hversu lengi ríkisstj. ætlar að reyna að blekkja almenning með orðateikjum eins og hér er verið að fást við. Hins vegar verð ég að segja það, að mér þykir hæstv. viðskrh. vera kjarkaður maður, og ég dái það á vissan hátt. Hann kemur hér upp í ræðustól og talar um niðurtalningu. Niðurtalningin var eitt helsta kosningaslagorð framsóknarmanna í síðustu kosningum. Það gekk ekki á öðru þá en tali um niðurtalningu og drengskap. Ég held að menn muni þetta ákaflega vel. Núna, þegar Alþ. hefur tekist að grafa niðurtalninguna svo gersamlega að það mátti ekki einu sinni nota orðið niðurtalningu í óskalista ríkisstj. sem lesinn var yfir landslýð á gamlárskvöld, þá þarf vissulega töluverðan kjark til að koma hér í ræðustól í þessari hv. deild og tala um niðurtalningu ríkisstj. Það þarf kjark til þess.