10.02.1981
Efri deild: 49. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2226 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að víkja að því við hæstv. forseta, að hæstv. fjmrh. hefur ekki látið sjá sig við þessa umr. Ég hélt að hann hefði haft einhvern áhuga á því að fá þetta mál afgreitt úr þessari hv. deild. (Forseti: Óskar hv. þm. eftir nærveru hæstv. fjmrh.?) Já, ég ætlaði að fá að spyrja hann nokkurra spurninga. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til þess að athuga hvort hæstv. fjmrh. er viðstaddur. Það munu vera nokkur vandkvæði á því að hæstv. fjmrh. geti verið hér. Ég vil mælast til þess, að hv. 3. þm. Norðurl. e. geri augnablik hlé á ræðu sinni og við athugum málið, ef hann leggur áherslu á það.)

Herra forseti. Ef hæstv. ráðh. er vant við látinn, þá er þar sú eina lausn frá minni hálfu, að hæstv. forseti skýri honum frá því, að ég hafi saknað hans mjög við afgreiðslu málsins og ég skuli ræða seinna um þær spurningar en ég ætlaði að ítreka, — spurningar til hans um hvenær væri að vænta frekari frumvarpa frá hæstv. ríkisstj. um skattamál, eftir því sem kom fram í efnahagsáætlun ríkisstj. á gamlárskvöld. Hann gat ekki svarað þessu við 1. umr., en ég hélt að hann hefði kannske einhver svör við þessu nú. En ég skal halda áfram ræðu minni og sætti mig við það, þó að ég sakni hæstv. ráðh. mjög við þessa umr. (Forseti: Hæstv. ráðh. verður gerð grein fyrir óskum hv. þm. og hug hans til hans, og nú heldur umr. áfram.)

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns við 2. umr. þessa máls leiðrétta misskilning sem kom fram hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og hann hefur ítrekað nokkuð oft í þessari hv. deild. Er kominn tími til að leiðrétta þau ummæli.

Þau skattalög, sem gilda nú, voru ekki samin alfarið í tíð Geirs Hallgrímssonar og Matthíasar Á. Mathiesens. Þau ákvæði, sem gilda núna um frádráttarhæfni vaxta, eru í lögum sem eru undirrituð af hæstv. núv. fjmrh., Ragnari Arnalds. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. getur séð í fyrirsögn þessa frv., þá er þetta frv. einnig um breytingu á lögum nr. 20 frá 7. maí 1980, en í þeim lögum er einmitt ákvæði um það, hvernig fara skuli með vaxtafrádrátt. Þau eru þar ásamt mörgum öðrum ákvæðum, mýmörgum öðrum ákvæðum, einum 58 greinum sem hæstv. núv. ríkisstj. stóð að að breyta þeim lögum sem sett voru 1978. Það er því ónákvæmni, vil ég segja, í málatilbúnaði hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að tala um að gildandi skattalög séu samin af þessum tveimur ágætu mönnum fyrst og fremst, Matthíasi Á. Mathiesen og Geir Hallgrímssyni. Þau eru í veigamiklum efnum á ábyrgð hæstv. núv. ríkisstj. og þetta ákvæði, sem verið er að breyta hér, sem er meginmál þessa frv., það er einmitt ákvæði í þessum lögum, nr. 7 frá 1980.

En við skulum ekki fjölyrða um það. Það er áformað að afgreiða þetta mál frá hv. deild í dag og við stjórnarandstöðuþingmenn og þeir, sem hafa sérálit í þessu máli, ætlum ekki á einn eða annan hátt að raska því. Við höfum gert um það samkomulag að þetta mál verði afgreitt hér frá hv. deild í dag, enda er nauðsynlegt að afgreiða það fyrir lok framtalsfrests og þá í þessari viku frá hinu háa Alþingi og ekki ástæða til af þeim sökum að bregða á einn eða annan hátt fæti fyrir málið.

Ég vil taka það skýrt fram, að við, sem höfum sérálit í þessu máli, teljum að brtt. hv. þm., sem skipa meiri hl., séu til bóta og til hagsbóta frá því, sem er í gildandi lögum, fyrir skulduga húsbyggjendur. Á hinn bóginn teljum við að í frv., eins og það er, og þeim brtt. við það sem hafa verið kynntar af hálfu meiri hl. hv. fjh.- og viðskn., sé um að ræða mjög flókin ákvæði sem erfitt er að segja um hvernig verði í framkvæmd, auk þess sem þau gangi of skammt til að rétta hag þeirra sem eru að afla sér húsnæðis, annaðhvort að kaupa eða byggja yfir sig. Oft á tíðum er þarna um ungt fólk að ræða sem er líka að setja saman bú að öðru leyti. Þess vegna þarf að koma til móts við þetta fólk og við teljum að þarna sé gengið of skammt.

En það er þó meginatriði í okkar gagnrýni á brtt. meiri hl., að við lítum svo á að almenningur í landinu hafi gert ráð fyrir óbreyttum skattafrádrætti vaxta, eins og hann var á fyrra ári. Við teljum því að með þeim takmörkunum, sem felast í þessum till. frá því sem gert var ráð fyrir í fyrra, sé verið að koma aftan að fólki með skattaálögur, og það er eitt meginatriði í stefnu okkar Sjálfst.-manna að svo sé ekki gert, sbr, ákvæði í frv. um bann við afturvirkni íþyngjandi skatta sem liggur fyrir Nd., flutt af þeim mætu mönnum sem hér voru nefndir áðan, Matthíasi Á. Mathiesen og Geir Hallgrímssyni. Við leggjum því til að einstaklingar fái allir frádregna vexti í ár eins og var í fyrra, en þó með þeirri takmörkun að hámark frádráttar einstaklings verði 4.3 millj. eða rétt u.þ.b., eftir að skattvísitala hefur verið lögð á þann frádrátt sem við leggjum til, og hámark vaxtafrádráttar hjóna verði 8.7 millj. Við leggjum til að nú verði fest í lög ákvæði sem gilda eiga á næsta ári, þannig að almenningur viti í ár um skattameðferð vaxtafrádráttar á því ári og geti gert sér grein fyrir því, þegar ákvörðun er tekin um að afla lána á þessu ári, hvernig vaxtafrádrætti verði háttað á því næsta. Þetta er kjarni afstöðu okkar í þessu afmarkaða máli skattalaganna.

En núv. hæstv. ríkisstj. hefur vanrækt þetta. Ungt fólk hefur í fyrra ekki búið við það réttlæti, vil ég segja, að vita hvernig farið yrði með vaxtafrádrátt á þessu ári. Þess vegna teljum við hreinlegast, heiðarlegast og eðlilegast að fresta því um eitt ár enn að taka upp þær reglur sem hv. þm., sem skipa meiri hl. n., vilja taka upp nú. Við teljum sem sagt að þær breytingar, sem fram hafa komið núna — þó að þær séu í rétta átt — séu fram komnar allt of seint og gangi of skammt og séu að þessu tvennu leyti ósanngjarnar gagnvart fjölda fólks sem þurft hefði að gera sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna í skattamálum þegar teknar voru ákvarðanir um lántökur á s.l. ári.

Við höfum því á þskj. 404 lagt fram brtt. um nýtt ákvæði til bráðabirgða, sem þýðir í raun, eins og ég hef hér lýst, að almennt verði vaxtagjöld, verðbætur, afföll og gengistöp frádráttarbær hjá einstaklingum á þessu ári, en þó með þeim takmörkunum sem ég lýsti áðan í upphæðum. Að því leyti teljum við okkur ganga til móts við þá sem vilja ekki að þessi vaxtafrádráttur sé ótakmarkaður. Við teljum að þarna sé ekki um svo mikið mál að ræða fyrir ríkissjóð, að það réttlæti það óréttlæti, ef svo mætti segja. Tekjutap ríkissjóðs, sem við teljum að verði í þessu máti ef það verður samþykkt eins og meiri hl. leggur hér til, af þessum vaxtafrádrætti yrði í hæsta lagi 1.8 milljarðar gkr. Ég segi: í hæsta lagi, því að það er að sjálfsögðu kostnaður fyrir ríkissjóð vegna þeirra brtt. sem meiri hl. hefur lagt hér fram þannig að þessir 1.8 milljarðar eru ekki tekjutap fyrir ríkissjóð að auki. Ef vaxtafrádráttur væri heimilaður eins og í fyrra yrði tekjutapið eins og ég sagði, 1.8 milljarðar gkr.

Það hefur komið fram hér í umr. hjá hæstv. fjmrh., að skattvísitalan 145, sem er lögfest í núv. fjárlögum, mundi þýða allverulega hærri tekjur í ríkissjóð af tekju- og eignarsköttum en fjárlög gera ráð fyrir. Hér er því á engan hátt verið að stefna afkomu ríkissjóðs í voða, heldur er verið að reyna að viðhafa þau vinnubrögð sem eru hreinust gagnvart skattgreiðendum, að þeir viti fyrir fram sem gerst um það, hvernig skattleggja eigi tekjur þeirra og eignir.

Það væri freistandi að ræða í tengslum við þetta mál stefnu ríkisstj. í húsnæðismálum yfirleitt, því að þetta er auðvitað hluti af henni. Verið er í meginákvæði þessa frv. að ívilna húsbyggjendum og þeim sem eru að kaupa yfir sig eigið húsnæði. En ég skal ekki gera það að þessu sinni. Ég vit aðeins benda á það, að ef lögin, sem núv. hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á, um vaxtafrádrátt, lög nr. 7 frá 1980, eru höfð í huga og þau lánskjör, sem gilda almennt á markaðnum í 50 – 60% verðbólgu, þegar búið er að verðtryggja í rauninni öll innlán og útlán, eins og hæstv. ríkisstj. stefnir að, þegar það er einnig haft í huga, að fjárlög gera ráð fyrir 5 – 6 milljarða gkr. niðurskurði á framlögum ríkissjóðs til húsnæðismála og enn fremur að fjárlög gera ráð fyrir að 7 milljörðum gkr. verði varið úr almenna byggingarlánasjóðnum, fært úr hinum almenna byggingarlánasjóði húsnæðismálastjórnar til Byggingarsjóðs verkamanna, — þegar þessi atriði öll eru höfð í huga, þá þarf náttúrlega engan að undra þó að minni eftirspurn sé eftir lóðum og minna sé um það að ungt fólk hugsi sér að koma yfir sig eigin húsnæði. Svo rammt kveður að þessu t.d. þar sem ég þekki gerst til, á Akureyri, að fyrirsjáanlegt er stórfellt atvinnuleysi í byggingariðnaðinum.

Það er því ekki vanþörf á að koma myndarlegar og betur til móts við húsbyggjendur en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég get getið þess, að ég aflaði mér upplýsinga um húsbyggjanda sem tók fyrsta hluta láns síns hjá húsnæðismálastjórn í júlí 1979. Hann fékk 1 millj. kr. þá. Síðan tók hann annan hluta í jan. 1980, þá 1.8 millj., og þriðja hluta í júlí 1980, 1.8 millj. Þetta eru 4.6 millj. Eftir að hann er búinn að borga af þessu láni, sem var 4.6 millj., verður höfuðstóll lánsins skv. útlánareglum Byggingarsjóðs ríkisins kominn upp í 9.5 millj. kr. 1. maí í ár. Lánið, sem húsbyggjandinn fékk, var 4.6 millj. gkr., það er komið upp í 9.5 millj. 1. maí. Þessi húsbyggjandi þarf að vísu ekki að borga stóra fjárhæð í ár, en þegar höfuðstóllinn er kominn upp í þessar fjárhæðir veltir boltinn allsnögglega utan á sig. Hér er náttúrlega um stórfellt vandamál að ræða. Auk þess fær þessi lántakandi lánað núna um 25% af andvirði fjögurra herbergja íbúðar í blokk, en hefði fyrir nokkrum árum fengið á milli 30 og 40% af andvirði sömu íbúðar. Það er því engin vanþörf á að taka þessa stefnu upp til athugunar í heild, bæði það, hvernig draga skuli vexti frá skattskyldum tekjum húsbyggjenda og þeirra sem eru að koma yfir sig eigin húsnæði, og aðra þætti húsnæðismálastefnunnar líka.

Herra forseti. Ég get verið fáorður um 1. gr. frv. Ég hef talað hér um megingrein frv., sem er 2. gr., um vaxtafrádrátt húsbyggjenda og þeirra, sem eru að kaupa húsnæði, frá skattskyldum tekjum. En í 1. gr. er tekið upp ákvæði um frádrátt vegna verkfæra- og hljóðfærakaupa. Slík ákvæði voru afnumin úr skattalögunum 1978 með samþykki allra flokka, og ástæðan fyrir því var sú, að tekin var upp 10% frádráttur, heimilaður frádráttur 10% af brúttótekjum og á móti voru felldir niður mjög margir frádráttarliðir. Ég man ekki hvað þeir voru margir, milli 20 og 30. En hér er sem sagt farið inn á þá vafasömu braut að byrja að tína þessa liði inn aftur. Hér er verið að fara þveröfuga leið við það sem var meginstefna þeirra skattalaga sem sett voru með samþykki allra flokka. Ég segi að þetta sé vafasamt, því að hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera ef t.d. læknar koma og óska eftir að fá frádrátt vegna tímarita og fagbókmennta, sem þeir þurfa á að halda, eða verkfræðingar — af því að ég sé að hér situr einn verkfræðingur? Þessir liðir eru legíó. (Gripið fram í.) Jú, og viðskiptafræðingar þurfa kannske að lesa. Jú, jú, en þeir eru legíó, þeir liðir sem mætti hugsa sér að draga frá skattskyldum tekjum, og ég held að hér sé verið að fitja upp á því að snúa við þeirri þróun sem varð með þeim lögum, að fækka þessum frádráttarliðum. Ég ætlaði líka að spyrja hæstv. fjmrh., ef hann hefði séð sér fært að vera hér við, — en mér er tjáð að hann hafi mjög lögmæta afsökun fyrir sinni fjarvist, — hvað hann hugsaði sér að gera í þessum efnum, því að í málefnasamningi ríkisstj. er mjög ákveðið tekið fram að upp verði tekið staðgreiðslukerfi skatta innan tveggja ára. Nú er hæstv. ríkisstj. orðin eins árs, svo að það fer að líða að því, að upp verði tekið staðgreiðslukerfi skatta, og þá uggir mig, ef á að fjölga mjög slíkum frádráttarliðum — svo sem hliðstæðum liðum og ákvæði eru um í 1. gr. frv. — að það kerfi verði allflókið í framkvæmd.

Annað mál er það, að sjálfsagt væri athugandi, og ég tel að það sé miklu brýnna athugunarefni, að breyta frádrætti farmanna og fiskimanna, sjómanna, í þeirri stöðu sem samningamál þeirra eru nú, og t.d. námsmanna, þannig að námskostnaður, fjárfesting í námi yrði a.m.k. jafnrétthá fjárfestingu í steinsteypu til frádráttar til skatts.

Ég skal ekki lengja þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi er hér um mjög afmarkað mál að ræða, mál sem þarf afgreiðslu í þessari viku. Og þó að við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson höfum sérstöðu í málinu og viljum gefa frest til breytingar, setja ákvæði sem kæmi til framkvæmda á næsta ári, þannig að fólk vissi nákvæmlega núna að hverju það gengi í þessum efnum, þá er það ekki okkar ætlan að setja fótinn á einn eða annan hátt fyrir þetta mál, því að það er sannarlega heldur til bóta en hitt.