11.02.1981
Sameinað þing: 48. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum forseta og vera stuttorður. Ég tel mig geta fullyrt að fiskverð verði ákveðið fyrir helgina. Ýmislegt hefur skýrst mjög síðustu dagana sem gerir það kleift. Í fyrsta lagi hefur komist veruleg hreyfing á samningamál sjómanna og útgerðarmanna. Segja má að náðst hafi samstaða um bæði svonefnd jólaleyfi sjómanna og einnig um lífeyrissjóðsmál þeirra, þótt ekki hafi enn verið gengið endanlega frá tæknilegum atriðum. En eftir fund í gær tel ég að það mál sé komið í höfn. Sjómenn lögðu nokkra áherslu á að hreyfing kæmist á það mál áður en fiskverð yrði ákveðið. Þetta er því a.m.k. ekki til fyrirstöðu.

Nú liggja fyrir ákveðnar tillögur í Verðlagsráði frá seljendum um fiskverð. Í Verðlagsráði hafa lengi legið fyrir þær aðgerðir sem ríkisstj. er reiðubúin að grípa til til að tryggja atvinnu- eða afkomugrundvöll sjávarútvegsins í kjölfar fiskverðsákvörðunar. Að sjálfsögðu hef ég látið leggja þær tillögur fram í fullu samráði við ríkisstj. og eftir umræður sem þar hafa orðið um þessi mál. Ríkisstj. gekk formlega s.l. þriðjudag frá því sem að henni snýr í sambandi við lífeyrissjóðsmálin. Í gær var svo enn rætt ítarlega um fiskverðið og þær aðgerðir sem í kjölfar þess þurfa að fylgja.

Ég hef lagt til og samþykkt hefur verið í ríkisstj. að olíugjald verði óbreytt. Í öðru lagi hef ég lagt til og samþykkt hefur verið að útflutningsgjald verði hækkað nokkuð á skreið tímabundið, en lækkað á frystum afurðum. Ég tel það vera verjanlegt og að ýmsu leyti eðlilegt í þeirri stöðu sem nú er. Ég vek athygli á því að frystingin er sú atvinnugrein sjávarútvegsins sem fyrst og fremst tryggir atvinnuna um landið. Hún er nánast grundvöllur að frekari vinnslu sjávarafurða og ekki æskilegt að eins gífurlegur afkomumunur sé á þessum greinum og fram hefur komið í vinnublöðum Þjóðhagsstofnunar.

Ég vek einnig athygli á því, að vinnuliður frystingarinnar er miklu hærri en skreiðarinnar og hefur oft verið talið vafasamt að leggja hátt útflutningsgjald á vinnulið í slíkri framleiðslu. Ég minni á það, að hv. Alþingi samþykkti fyrir skömmu að fella niður útflutningsgjald af ediksaltaðri síld á þeirri forsendu að vinnuliður væri sérstaklega hár og hins vegar verðgrundvöllur slakur á þeim mörkuðum sem sú síld er flutt til, þ.e. í Vestur-Þýskalandi.

Þá hefur ríkisstj. einnig fyrir sitt leyti gengið frá því orðalagi sem yrði á yfirdráttarheimild Verðjöfnunarsjóðs og það var rætt í Verðjöfnunarsjóði í gær og þar gerð, hygg ég að ég megi segja, nokkurn veginn orðrétt eins samþykkt og gerð var 1975 og mjög lík því sem gerð var 1977, þ.e. að slíkur yfirdráttur verði með ríkisábyrgð.

Hv. þm. spyr: Hvernig verður þetta endurgreitt? Ég vek athygli á því, að 1977 var slíkt endurgreitt við gengisbreytingu. Að sjálfsögðu eru ýmsar leiðir til að endurgreiða þetta: með verðhækkun, breytingu á gengi og þá viðmiðunarmörkum Verðjöfnunarsjóðs í kjölfar þess.

Í gær, eins og þm. vita, var gengið frá því að miða íslensku krónuna við meðalgengi, en ekki dollara. Það var ekki gert fyrst og fremst og raunar alls ekki vegna ákvörðunar um fiskverðið. Það var mat ríkisstj, að rangt væri að miða við dollarann, ekki síst fyrir iðnað okkar sem fær illa staðist þá stórum erfiðari samkeppnisaðstöðu sem af slíku skapast. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég tel að þegar í upphafi hefði átt að fylgja því, sem verið hefur árum saman, ég hygg allt frá 1971, að miða fyrst og fremst við meðalgengi. Þetta skapar að sjálfsögðu einnig aukið svigrúm til að ákveða fiskverð og dregur m.a. úr þörfinni fyrir yfirdrátt Verðjöfnunarsjóðs. Í dag leggur því oddamaður fram áætlanir byggðar á þessu- nýja gengisviðmiðun - og þær verða ræddar í Verðlagsráði í dag. Ég geri, eins og ég sagði í upphafi, fastlega ráð fyrir að fiskverð verði ákveðið fyrir helgina í framhaldi af þessum aðgerðum sem að sumu leyti hefur verið gripið til og að öðru leyti verið ræddar og skýrðar undanfarnar vikur.